05.03.1947
Efri deild: 85. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (1938)

94. mál, vernd barna og ungmenna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm., hefur lýst, hefur n. orðið sammála um að leggja til, að þetta frv. verði samþ. En ég skrifaði hins vegar undir nál. með fyrirvara og hef nú borið fram. nokkrar brtt. við frv., sem eru á þskj. nr. 475. Þó að ég sé ósammála meðnm. mínum um mörg atriði í frv., þótti mér ekki rétt að skila sérstöku áliti, vegna þess að ég vil ekki á nokkurn hátt, að afstaða mín sé skilin þannig, að ég vilji setja fót fyrir þetta frv. Ég mun því fylgja þessu frv., sem hér liggur fyrir, eins og það er, þó að mínar brtt. nái ekki fram að ganga. En ég hef með brtt. mínum gert tilraun til umbóta á frv. og tel, að þær séu margar til stórkostlegra bóta. En áður en ég mæli fyrir þessum brtt. mínum, vil ég fara nokkrum orðum almennt um frv.

Það er ekki vafi á því, að fyrir þeim mönnum, sem samið hafa þetta frv., hefur vakað tvennt, í fyrsta lagi að samræma gildandi l. um vernd barna og unglinga, og hins vegar að tryggja sem bezt unglingana og vernd þeirra. En ég efast stórkostlega um, að síðara atriðinu verði náð með þeim ákvæðum, sem eru nú í þessu frv., sérstaklega ef þau eru samþ. óbreytt, enda kom það fram einmitt hjá Gissuri Bergsteinssyni hæstaréttardómara, þegar farið var að ræða við hann um kjarna þessa máls, að hann beint lýsti því yfir í n., að hér væri sjálfsagt að láta standa í frv. sumt það, sem væri hreint pappírsgagn. Það væri hrein yfirlýsing um góðan vilja, sem ef til vill væri aldrei hægt að gera að raunveruleika. Hann viðurkenndi einnig, að sumum þessum ákvæðum mætti beita á þann veg, sem væri ekki æskilegt að gera, en hins vegar mundi þeim ekki verða beitt þannig. — M. ö. o., mér skilst, að hér hafi verið saminn rammi, sem ætlazt sé til, að standi utan um þetta mál, án þess að verulega verði farið eftir ákvæðum l. í einstökum atriðum. Ég vil í þessu sambandi benda á nokkur atriði, eins og 21. gr. frv., þar sem ætlazt er til þess eftir orðanna hljóðan, að barnaverndarnefnd skuli „kosta kapps um að fylgjast sem bezt með framferði, uppeldi og aðbúð barna og ungmenna í umdæmi sínu og hafa stöðugt samband við aðra þá aðila, sem stöðu sinnar vegna öðlast vitneskju um þessi efni.“ Ef þetta ákvæði á að vera nokkuð annað en pappírsgagn, þá er útilokað, að fimm eða sjö menn geti komizt yfir slíkt starf í Reykjavík. Til þess að framkvæma þetta þar þyrfti mörg hundruð manna, ef þetta ætti að vera nokkuð annað en viljayfirlýsing. Sama máli er að gegna um 26. gr. frv. Ég tel vafasamt, að hægt sé að fylgja þeirri gr. út í æsar, til að ná þeim tilgangi, sem um er talað í þeirri gr., að víkja sjúklingi eða annmarkamanni brott af heimili. Ef þetta t. d. er óreglumaður, getur hæglega borið svo til, að þar sé þó um að ræða fyrirvinnuna á heimilinu. — Þá vil ég benda á 28. gr. frv. Það þyrfti víst ekki lítinn hóp manna til þess starfa, ef ákvæði þeirrar gr. ættu að verða annað en pappírsgagn, ef t. d. ætti að sjá um, að börn vanræki ekki nám hér í Reykjavík eða slæpist og þess háttar, svo að ég aðeins minnist hér á nokkur atriði. — 30. gr., tei ég, að sé óþörf í þessu frv., þó að ég hafi ekki lagt til, að hún verði felld niður, en ég tel, að í fræðslul. sé þetta tryggt, enda viðurkenndi hæstaréttardómarinn það. En hann taldi, að það gerði ekki til, þó að þetta ákvæði væri víðar en í einum l., og það sakaði ekki neitt. Ég er sammála honum um það. — Sama máli er að gegna um 31. gr. Þar stendur, að barnaverndarnefndir skuli reyna að bæta hegðun og framferði unglinga með leiðbeiningum og áminningum, viðræðum við venzlafólk, húsbændur, kennara, meistara o. s. frv. Það má geta nærri, hvort þessi gr. hefur nokkra þýðingu, ef hér á að vera aðeins fimm eða sjö manna nefnd, t. d. í Reykjavík, til að taka að sér þetta starf.

Þá er IV. kafli frv. þannig, að mér finnst fyrirsögn hans gefa alveg ranga hugmynd um kaflann sjálfan, því að að langmestu leyti er þessi kafli ný hegningarlög, ný ákvæði um hegningar, ný viðurlög, sum þyngri en í hegningarl., og við ræddum þennan kafla sérstaklega við dómarann. Hann sagði, að það væri enginn skaði að hafa þennan kafla með. Það yrði dæmt eftir þessum l., þegar það þætti henta, en hengningarl., þega: það þætti henta. — Þannig er nú undirbúningur málsins. Þess vegna þarf ekki að ásaka hv. þd., þó að hún hafi vísað málinu frá, af því að skort hefur á nægilegan undirbúning í þessu stóra og viðkvæma máli áður á þingum, þegar því hefur verið vísað frá. 44. og 45. gr. frv. eru ekki annað en endurtekning á hegningarl. í öðru formi. — Skal ég láta þetta nægja sem almennar aths. við þetta mál, sem ég hygg nægilegt til þess að sýns, fram á, að það sé ekki undarlegt, þó að þetta mál hafi ekki verið samþ. á undanförnum þingum. Og væri í sjálfu sér ekki heldur undarlegt, þó að það væri fellt hér nú. En það, sem sennilega verður til þess, að það verður samþ. nú, er, að bæði ég og aðrir hv. þdm. álíta, að það gæti hjálpað einhverjum unglingum þrátt fyrir ágalla þess.

Þá skal ég koma að mínum brtt. Í 12. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að ráðh. ákveði þóknun úr ríkissjóði til barnaverndarráðsmanna. Ég hef lagt til í brtt., að það sé borgaraleg skylda að gegna störfum í barnaverndarráði. Mér er ljóst, að ef nokkur árangur næst af þessu starfi, þá þarf það að vera miklu meira fórnarstarf en bitlingur. Mér er ljóst af starfi mínu í fjvn., að starf barnaverndarráðs hefur ekki verið eins mikið fórnarstarf eins og bitlingur. (HV: Þetta getur verið bitlingur, þó að það sé borgaraleg skylda.) Það á að vera skylda án greiðslu. Þess vegna hef ég fellt niður í minni brtt. ákvæðið um þóknun fyrir þetta starf. Um aldir hefur eftirlit með uppeldinu hvílt á prestunum. Það er svo síðar kennarastéttin, sem tók að sér þessi störf, eftir setningu fræðslul. Það getur vel verið, að þetta hafi farið henni enn betur úr hendi. En störfum þessum hefur verið létt alveg af prestastéttinni, og ég tel ekki, að það hafi verið til hins betra. Og ég tel, að það væri stórt spor í áttina til þess að bæta úr þessu, ef prestastéttinni væri falið þetta, einkum þegar þetta eiga að vera siðferðisprédikanir til þess að reyna að hafa áhrif á fólkið. Þess vegna væri það langbezt, að þetta væri skylda, sem hvíldi á prestastéttinni, og þess vegna hef ég borið fram um þetta efni brtt. mína og vænti þess, að hún verði samþ.

Ég hef borið fram aðra brtt. við 16. gr. frv., þannig, að á eftir orðunum „er heimilt“ í 1. málsl. komi: „ef tilefni gefst til að dómi barnaverndarráðs“. Hér er barnaverndarnefnd með 16. gr. gefin heimild til þess svo að segja að ganga inn á hvert heimili í umdæmi sínu. Ég viðurkenni ekki, að rétt sé að lögbjóða, að jafnvel barnaverndarnefnd hafi rétt til þess að vaða inn á hvert heimili að nauðsynjalausu. Samkv. enskum l. er ekki einu sinni kónginum leyfilegt að rjúfa heimilisfriðinn, en hér á barnaverndarnefnd að hafa leyfi til þess að fara inn á hvert heimili, þó að ekkert tilefni sé til. Það má segja, að þessir menn geri það ekki, nema tilefni sé til þess, en þá er sjálfsagt að setja inn í þessa gr. frv., að þeir hafi ekki heimild til þess, nema tilefni gefist til að dómi barnaverndarráðsins sjálfs. Þetta mál er viðkvæmt mörgum börnum og unglingum, og það er viðkvæmt fyrir heimilisfeður og foreldra yfirleitt. Ég tel, að sjálfsagt sé að taka tillit til tilfinninga þeirra, og ég tel ekki, að tilgangi þessara l. sé náð, nema reynt sé að særa sem minnst tilfinningar allra viðkomandi aðila.

Ég hef hér við 23. gr. frv. borið fram brtt. Þar er í frv. gert ráð fyrir, að óheimilt sé að vista börn, sem um ræðir í gr., á öðrum heimilum en þeim, sem barnaverndarnefnd sú, sem í hlut á, samþykkir, þ. e. a. s. munaðarlaus börn. Þar vil ég bæta við: „og nánustu ættingjar“, þ. e. að þar standi: sem barnaverndarnefnd sú, sem í hlut á, og nánustu ættingjar samþykkja.“ Ég tel, að nánustu ættingjar, t. d. systkini, afar eða ömmur, hafi siðferðislega eins mikinn rétt og meiri til þess að ákveða, hvar barn skuli vistað, eins og barnaverndarnefnd. Ef þessir aðilar eru ekki í því ástandi, að það þurfi að taka frá þeim börnin og vista þau, þá álít ég, að þeir hafi meiri rétt til þess að segja til um þetta en barnaverndarnefnd. Þess vegna álít ég rétt að setja þetta inn í l., sem ég gat um í minni brtt.

Ég hef borið fram brtt. við 24. gr. frv., um, að þessi kostnaður, sem í gr. er talað um, greiðist, eins og sagt er í gr., úr bæjar- (sveitar-) sjóði, en að þar við bætist : „að svo miklu leyti sem almannatryggingunum ber ekki að greiða hann.“ Þetta frv. er samið í upphafi áður en l. um almannatryggingar voru samin, og l. um almannatryggingar gera einmitt ráð fyrir því, að það sé greitt svo mikið til munaðarlausra barna sérstaklega, að uppeldi þeirra á að vera tryggt efnalega samkv. þeim lagaákvæðum. Þess vegna tel ég rétt og eðlilegt að setja þetta ákvæði inn, sem sjálfsagt hefði verið sett, ef frv. þetta hefði ekki verið samið áður en þau l. voru samin.

Við 33. gr. frv. geri ég brtt. um, að úr henni falli nokkur orð.

Við 35. gr. ber ég fram brtt. sama eðlis og þá næstu á undan, um breyt. á 2. málsgr. 35. gr. En hér stendur í 2. málsgr., að barnaverndarnefnd skuli jafnan fylgjast með, hvað verður um börn, sem tekin eru af barnahælum, sem um getur í gr., og samþykkja þá staði, sem þau fara til „ef ekki er um að ræða heimili beggja foreldra.“ M. ö. o., eftir þessu orðalagi má faðir eða móðir engu um þetta ráða, ef barnið t. d. hefur misst annað foreldrið, og þá kemur þessi réttur eftir þessu alveg í hendur barnaverndarnefndar að samþykkja stað fyrir barnið. Ég viðurkenni ekki þennan rétt, sem þarna á að gefa barnaverndarnefnd. Ég hef því lagt til, að fellt sé niður úr þessari tilfærðu setningu orðið „beggja“, þannig að ef ekki er um að ræða heimili foreldra beggja, en sé t. d. annað foreldri lifandi, þá ráði það þessu, en ekki barnaverndarnefnd. Ég tel, að hér sé í frv. gengið svo nærri rétti föður, að það fari alveg í öfuga átt við það, sem annars er hugsað í frv.

Ég hef lagt til að 36. gr. verði breytt þannig, að á eftir orðunum: „Ríkisstj. skal í þessu skyni“ í upphafi 2. málsgr. komi: „eftir því sem fé er veitt til þess í fjárlögum,“ setja á stofn o. s. frv. Hér er gert ráð fyrir því í þessari gr., að ríkisstj. hafi rétt til að setja á stofn og reka athugunarstöð eða stöðvar að fengnum till. barnaverndarráðs. Ég álít þetta sjálfsagða skyldu. En ég álít rétt líka að setja þarna inn: „eftir því sem fé er veitt til þess í fjárlögum.“

Sama legg ég til viðkomandi 37. gr., að þar verði þetta sett inn í: „eftir því sem fé er veitt til þess í fjárlögum.“ En í þessari gr. er tekið fram, að ráðh. sé skylt að setja á stofn og reka hæli, þar sem vistuð skuli börn og ungmenni, sem framið hafi lögbrot, o. s. frv. Það gildir nú í l. um sjúkrahús, sóttvarnahús og annað þessu líkt, að fjárveitingarvaldið til þess að reisa þessar byggingar er hjá Alþ., sem á hverjum tíma á að meta, hvað af þessu eigi að ganga fyrir og hvað eigi að sitja á hakanum. Ef þessi gr. er orðuð þannig, að ríkisstj. sé skylt að koma á þessum stofnunum, þegar fé er veitt til þess í fjárl., verður fjárveitingarvaldið á hverjum tíma að taka ákvörðun um það, hve mikið fé skuli veitt til þess að koma þessu upp eða til þess að koma öðru upp af sama tagi. Ég vænti, að þessi skilyrði verði samþ., sem ég hef nú getið, um fjárveitingu til þessara stofnana, því að það er eðlilegt og sjálfsagt, að þetta standi í l., þegar vitað er, að ríkið getur ekki uppfyllt allar skyldur sínar á einu og sama árinu.

Ég hef borið fram brtt. við 38. gr., um að á eftir orðunum: „sbr. þó“ komi: „24. og“, þar standi sem sé : „sbr. þó 24. og 37. gr. þessara laga.“ En 24. gr. ákveður, hvernig kostnaður skuli greiddur.

Þetta, legg ég til til samræmingar, miðað við það, sem áður er sagt, ef 24. gr. verður breytt samhv. brtt. mínum.

Við 46. gr. hef ég lagt til, að síðari málsl. 3. mgr. falli niður. Mér finnst dálítið einkennilegt, að þeir menn, sem hafa barizt fyrir því að vernda unglingana, skuli vilja halda þessu ákvæði. Þessi málsl. er þannig, með leyfi hæstv. forseta : „Refsimál skal því aðeins höfða, að barnaverndarnefnd sú, er hlut á að máli, eða barnaverndarráð krefjist þess.“ Mér finnst, að það eigi ekki að vera á valdi þessara aðila, ef um refsivert athæfi er að ræða, hvort mál skuli höfðað eða ekki, heldur sé sjálfsagður hlutur að höfða refsimál, hver sem krefst þess, m. a. aðstandendur barnsins. En eftir ákvæðum frv. eins og þau eru, er ekki hægt að höfða refsimál, nema barnaverndarnefnd eða barnaverndarráð krefjist þess. Barnaverndarnefnd og barnaverndarráði er gefið þetta stórkostlega vald jafnvel til að hylma yfir brot í þessum málum. Ég er undrandi yfir því, að menn þeir, sem um þetta hafa fjallað í mþn., skuli ekki hafa viljað láta þennan málslið falla niður.

Svo er að síðustu brtt. við 52. gr. frv., þar sem ég legg til, að fyrri málsl. gr. orðist svo: „Barnaverndarráð heimtir skýrslur frá barnaverndarnefndum og gefur út útdrátt úr þeim ásamt skýrslu um störf sín ekki sjaldnar en einu sinni á ári.“ En hér í frv., er gert ráð fyrir því, að þetta sé gert annað hvert ár. Ég tel réttara, úr því að skýrslur á að gefa út um þetta, að það sé gert árlega, heldur en að það sé gert annað hvert ár, og ég veit, að ég er ekki einn um þá skoðun af nm. M. a. mun hv. þm. Str. telja rétt, að, þessi breyt. verði gerð á frv.

Ég skal svo ekki lengja umr. um þetta mál. Ég mun fylgja frv., og eins, þó að till. mínar verði felldar, því að ég vil ekki verða til þess að setja fótinn fyrir þetta mál, en tel, að mörgu þurfi að breyta og lagfæra, og gefst þá tækifæri til þess síðar, annaðhvort í Nd. eða á næsta þingi, því að slíkur lagabálkur liggur alltaf undir endurbótum og breytingum eftir því, sem lífið kennir mönnum.