07.03.1947
Efri deild: 87. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

94. mál, vernd barna og ungmenna

Gísli Jónsson: Herra forseti. Ég hef athugað þetta frv. eftir þær breyt., sem gerðar voru á því, og ég vil leyfa mér að benda hv. þm. á það, að ég hygg, að nú þurfi að taka til athugunar 33. gr. Till. mín nr. 5 á þskj. 475, sem var nokkur breyting á 33. gr., var felld með 7:8 atkv. Vegna þess að atkvgr. fór þannig, vildi ég leyfa mér að benda hv. þm. á, að ef frv. fer svona í gegn óbreytt, þá verður það þannig, að hvert barn, sem hefur misst annað foreldrið, kemur til með að verða spjaldskráð hjá barnaverndarnefnd. Það stendur hér í 33. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Skylt er n. að hafa eftirlit með slíkum börnum, svo og þeim börnum, sem ekki njóta umsjónar nema annars foreldris eða hvorugs, og má hún setja slíkum börnum eftirlitsmann, sem sé trúnaðarmaður hennar.“ Með slíku ákvæði er n. skylt að halda spjaldskrá yfir þessi börn og heimilt að setja eftirlitsmann yfir þau, ef þau hafa misst annað foreldrið. Ég álít, að með þessu sé gengið nokkuð nærri persónufrelsi manna almennt, og vildi ég leggja til, að þessum síðari málsl. yrði breytt þannig: „Skylt er n. að hafa eftirlit með slíkum börnum, og má hún setja þeim eftirlitsmann, sem sé trúnaðarmaður hennar.“ Á það þá eingöngu við börn, sem um getur í 1. málsl., og vil ég leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt. mína.