20.03.1947
Neðri deild: 100. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1949)

94. mál, vernd barna og ungmenna

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það liggja hér fyrir þrjár brtt. á þskj. 547 frá heilbr.- og félmn., og hefur þegar verið nokkuð um þær rætt. Það kann vel að vera, að það hafi víð nokkur rök að styðjast, að breyta þurfi 16. gr., eins og n. leggur til. En ég vil benda á, að samkv. þeirri breyt. yrði barnaverndarnefnd og starfsmönnum hennar heimilt að fara inn á heimili, án þess að tiltekið tilefni gæfist til slíkrar rannsóknar. Um tilefni yrði þá ekkert afmarkað í gr. Það má vera, að nauðsynlegt sé að hafa þetta svona, en ég vildi þó vekja athygli á þessu. Um brtt. við 23. gr., um afskipti ættingja af vistum barna, er það að segja, að mér hefði ekki fundizt óeðlilegt, þegar um það er að ræða, að þau væru vistuð hjá nánustu ættingjum, ef þeir óskuðu eftir að taka þau. Þetta kann að vera þannig í framkvæmdinni í mörgum tilfellum, en enga skyldu ber til þess, ef þessi brtt. er samþykkt.

En varðandi brtt. við 33. gr. get ég ekki betur séð en að hún sé með öllu óþörf. N. vill skjóta inn ákvæði um það, að henni sé skylt að hafa eftirlit með börnum, sem ekki njóta umsjónar nema annars foreldris eða hvorugs, en slíkt eftirlit er skyldugt samkv. 5. gr., þar sem segir, að barnaverndarnefnd hafi eftirlit með uppeldi og hegðun barna og ungmenna til 16 ára aldurs, og samkvæmt 23. gr., þar sem ekki er heimilt að vista börn á öðrum heimilum en þeim, sem barnaverndarnefnd samþykkir.

Ég tel ekki rétt að beita sér fyrir óþarfa breyt. því að það er meiri von, að frv. gangi endanlega í gegnum báðar d., ef breyt. eru litlar eða fáar frá því, sem Ed. hefur nú skilað því.