26.03.1947
Neðri deild: 102. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

207. mál, dýrtíðarvísitala o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er stórmál, sem hér liggur fyrir, um niðurgreiðslu vísitölunnar með fjárgreiðslum úr ríkissjóði. Á fjárl. skiptir það tugum millj. kr., sem verja á til þessa. Og það fer varla hjá því, að það fari mikið eftir því, hvernig hver ríkisstj., sem við völd er, beitir valdi sínu, hvernig þetta fer úr hendi. Og líka fer mikið eftir því, hvernig ríkisstj. fær þær tekjur, sem hún ver til þessara niðurgreiðslna. — Það er hægt að nota niðurgreiðsluna á vísitölunni til þess beinlínis að falsa vísitöluna stórlega. Við vitum, að það er svo mikil hending, hvernig vísitalan er fundin eða samin, og að upprunalega, þegar hún var samin, 1939, voru kröfur manna til lífsins allmjög aðrar en þær eru nú, þannig að það er hægt að greiða niður mikið af vörum, sem fátækt fólk notaði 1939, þannig að það þýðir launalækkun fyrir alla launþega.

Það væri því æskilegt, þegar svona samþykktir eru gerðar, að hæstv. ríkisstj. gæfi nokkrar upplýsingar um það, hvernig hún hefði hugsað sér að beita þessum heimildum. Að vísu liggur það nú nokkuð fyrir, hvað hún hefur gert í því efni. En hér er verið að gefa heimildir, sem eru almennar og sem viðbúið er, að verði notaðar meira en búið er að gera.

Í öðru lagi hlýtur það að vera þýðingarmikið í þessu efni, hvernig peningarnir eru teknir, sem í þessar niðurgreiðslur er varið. Það er vitað, að ef t. d. tekjuskattur á lágar tekjur er mjög þýðingarmikill þáttur í þessari tekjuöflun, þá vitum við, að tekjuskatturinn kemur þannig niður í vísitölunni, að t. d. hækkaður tekjuskattur á tiltölulega lágar tekjur þýðir beinlínis minnkun á þeim launum, sem launþeginn hefur til þess að borga af. Og ef þetta fé er notað til þess að greiða niður vísitöluna á þann veg, sem ég minntist á áðan, þá er með þessu móti án skaðabóta tekið úr vasa launþegans fé, sem tekið er til þess að kaupa enn frekar niður hans laun.

Þetta eru sjónarmið, sem hefði verið æskilegt að fá nokkuð að vita um fyrir fram, áður en gengið er til atkv. um þetta mál, sem fyrir liggur.

Hins vegar er það gefið, að vísitöluna þarf sem stendur auðvitað að kaupa niður að þó nokkru leyti. En það varðar miklu, hvernig þetta er notað og hvernig þessa fjár er aflað, sem nota á til þess að greiða niður vísitöluna. Enn hefur hæstv. ríkisstj. ekki lagt fyrir þingið ýtarlegar till. um tekjuöflunina í þessu skyni og ekki nema að nokkru leyti. Meðan ekki koma nánari upplýsingar um þetta — og þær komu ekki fram við 1. umr. og komu ekki fyrir fjhn. —, mun ég greiða atkv. á móti þessari heimild til ríkisstj. Sú afstaða þýðir ekki endilega það, að ég sé á móti því að veita svona heimildir. Það er gefið, að það er mjög erfitt hjá því að komast, eins og háttar til nú. Hitt er svo spursmál, hvernig maður treystir þeim á hverjum tíma, sem með völd fara, til þess að fara með þessi ákvæði, og líka hvernig tekna til þeirra verður aflað.