26.03.1947
Neðri deild: 102. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

207. mál, dýrtíðarvísitala o. fl.

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég sé, að hæstv. fjmrh. er hér ekki staddur í d., og þarf, ég þess vegna með nokkrum orðum að svara þeim aths., sem hér komu fram hjá hv. 2. þm. Reykv. Ég býst reyndar ekki við því, að það muni auka neitt það traust, sem hann hefur til þessarar núverandi ríkisstj. En af því að hans aths. voru þannig fram settar, að þær voru að verulegu leyti í fyrirspurnarformi, tel ég sjálfsagt og rétt að upplýsa, eftir því sem ég get hér, a. m. k. um þau atriði, sem að mér snúa.

Aths. hv. þm. voru raunar aðallega tvær. Önnur sú, að mjög ylti á því, hvernig þessar niðurgreiðslur væru framkvæmdar. Og svo var það annað, hvernig tekna til þeirra yrði aflað. Um þriðja atriðið virtist mér þessi hv. þm. vera sammála ríkisstj., að það gæti verið nauðsynlegt, eins og nú standa sakir, og til bráðabirgða a. m. k., að einhver niðurgreiðsla fari fram. Og það er mála sannast, að meðan ekki er fundin önnur leið til þess að draga úr framleiðslukostnaði, skulum við segja fyrst og fremst, og þá vísitöluhæðinni, þá er, eins og nú standa sakir a. m. k., ekki önnur leið til þess fær að halda dýrtíðinni í skefjum en niðurgreiðsluaðferðin, þar til aðrar varanlegri og traustari leiðir eru fundnar.

Um það, hvernig vísitalan verði greidd niður, liggja fyrir opinberar upplýsingar. Það hafa verið greiddar niður tvær vörutegundir, kjöt- og mjólkurvörur. Og þær niðurgreiðslur hafa nú farið fram um æði langan tíma og mótast fyrst og fremst af því að halda niðri vísitölunni og hins vegar af því að halda þessum vörum niðri á því verðlagsstigi, samanborið við erlendan varning, að þetta gætu orðið neyzluvörur fyrir þjóðina sem hollar og góðar fæðutegundir. Til viðbótar þessu var svo ríkisstj. gefin heimild til þess að halda vísitölunni niðri, svo að hún færi ekki yfir 309 stig. Það er því ekki út af hollustu þessara fæðutegunda eingöngu, að þessi niðurgreiðsla hefur farið fram til þessa, heldur til þess að atvinnuvegirnir, sem urðu hraðast úti vegna dýrtíðar, gætu selt afurðir sínar. En út frá þessum forsendum hefur kjötið verið greitt frekar niður en áður var, þ. e. um 1 kr. á kg, og einnig nokkru meira en áður var kartöflurnar, sem að vísu voru greiddar niður, en niðurgreiðslan á þeim var hækkuð. Aðrar og meiri niðurgreiðslur hafa ekki farið fram.

Nú liggur fyrir um þessi mánaðamót að mæta hækkun á vísitölunni, sem hefur orðið í þessum mánuði, sem mun vera þrjú vísitölustig, en stafar að verulegu leyti af þeirri hækkun, sem orðið hefur á tóbaki. Það er nú svo, að tóbaksnotkun er að vísu ekki talin til þeirra allra nauðsynlegustu lífsþæginda. En hún gengur þó svo inn í vísitöluna, að ef hún hækkar hana um tvö stig, þá kemur fram annað stig í viðbót, þannig að þarna verður um þriggja stiga hækkun á vísitölunni að ræða, sem takast verður einhvern veginn að greiða niður. Ég fyrir mitt leyti mun, eftir því sem fært verður, halda mig innan þess ramma, að niður verði greiddar helztu nauðsynjar almennings, svo að þeir, sem mest þurfa á þeim að halda, njóti niðurgreiðslnanna. Og skilst mér, að á þann hátt séu þeir nokkuð tryggðir, sem mest hætta væri á, að yrðu illa úti vegna hækkunar á þeim vörum, þannig að þeir verði ekki þar illa úti eða sem minnst. Þar koma þá til greina, sem verður tekið til athugunar, ýmsar innlendar neyzluvörur, sem kæmi til greina að greiða niður vegna tekniskra vandkvæða, svo sem að greiða mjólkurverðið meira niður en orðið er. Þetta verður athugað nánar en enn hefur verið gert.

Ég held, að ég geti ekki gefið hv. 2. þm. Reykv. meiri upplýsingar en þetta á þessu stigi, að það verður reynt að haga niðurgreiðslunum þannig fyrst og fremst, að þær komi á nauðsynlegustu neyzluvörur almennings.

Um tekjuöflun til þessara framkvæmda get ég ekki sagt á þessu stigi. Það mun hæstv. fjmrh. sennilega upplýsa mjög bráðlega, umfram það, sem fram er komið um hækkun á tóbaki og áfengi. En hjá því verður reynt að synda, býst ég við, í lengstu lög, að þær álögur verði teknar af þeirri vörunotkun almennings, sem mest þörfin er fyrir.