28.03.1947
Neðri deild: 104. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

212. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur 1947

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Það var nú lengi tilætlunin að reyna að fá fjárl. afgr., áður en þessi heimild rynni út, sem verður um næstu mánaðamót. En hv. þdm. er kunnugt um, að það er allstutt síðan gengið var frá afgreiðslu fjárl. til 3. umr. Og þau eru nú með rekstrarhalla, sem er um 30 millj. kr., og þar að auki er 42 millj. kr. óhagstæður greiðslujöfnuður á sjóðsyfirliti. Það er því sýnt, að þótt ekki sé gert ráð fyrir miklum hækkunum á gjaldahlið fjárl. við 3. umr., er tekjuöflun til að mæta útgjöldunum nauðsynleg, og því miður getur þar ekki orðið um smáar upphæðir að ræða. M. a. vegna þess, að það krefst rannsóknar, hvar hægt er að bera niður í því efni, og af ýmsum öðrum ástæðum þótti ekki fært að knýja fram 3. umr. fjárl. fyrir hátíðir (páska). Af þessum ástæðum er því auðsætt, að fara verður fram á það við hæstv. Alþ.,l. um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði á yfirstandandi ári verði framlengd, eins og farið er fram á í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Og er þar sett markið til loka apríl. En vitaskuld verður sennilega löngu fyrir þann tíma búið að ganga endanlega frá fjárl.

Ég vildi því mega vænta þess, að hv. þd. féllist á samþykkt þessa frv. og að hæstv. forseti og hv. þdm. í sameiningu vildu greiða fyrir málinu, þannig að frv. gæti gengið í gegnum allar þrjár umr. í d. nú í dag.

Frv. er borið fram af hv. fjhn., og virðist því ekki vera ástæða til þess að vísa því til nefndar.