24.01.1947
Neðri deild: 58. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

132. mál, dýralæknar

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Út af þessu frv. á þskj. 300 vil ég segja nokkur orð.

Þetta frv. felur í sér tvö nýmæli. Það fyrra er að fjölga dýralæknum úr 6 í 8. Ég álít þetta spor í rétta átt. Ég tel, að rétt hefði verið að fjölga þeim í 10, en sætti mig við, þó að ekki sé gengið lengra en þetta nú.

Reynslan sýnir, að það er mikil tregða í mönnum að stunda þetta nám, og er það vegna þess, að nú er algerð óvissa um, hvort nokkurt embætti verður handa þeim fyrir hendi. Þau eru ekki vel launuð, og það má ekki minna vera en þeir, sem eru svo bíræfnir að leggja út í þetta nám, hafi einhverja vissu fyrir að fá eitthvað að gera, því að ómögulegt er fyrir þá að praktísera, og enginn maður á Íslandi getur stundað þetta starf án launa.

Um það, hvort þessi tilhögun sé rétt, að dýralæknar séu tveir í Sunnlendingafjórðungi, þrír í Vestfirðingafjórðungi og tveir í Norðlendingafjórðungi og einn í Austfirðingafjórðungi, má deila, en þetta er spor í rétta átt. Ég held, að ekki sé hægt að komast undan því að hafa tvo lækna í Austfirðingafjóróungi, því að hann er engu betri yfirferðar en Vestfirðingafjórðungur.

Það er kunnugt öllum búfjáreigendum, að það er nauðsynlegra, að stutt sé til dýralæknis en mannalæknis, því að menn fara ekki að sækja dýralækni langa leið fyrir eina rollu. Það kom fyrir, að ég væri sóttur til Skagafjarðar eða Þingeyjarsýslu þegar ég var á Akureyri, en það var undantekning.