13.02.1947
Neðri deild: 73. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (2017)

132. mál, dýralæknar

Frsm. (Jón Sigurðsson) :

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég nokkra grein fyrir því. Síðan hefur landbn. athugað frv. og rætt við hv. þm. Ak., Sigurð E. Hlíðar yfirdýralækni, og leitað álits hans. Það hefur fallið á þá lund, að hann telur ekkert við frv. að athuga, en að það bæti úr aðkallandi þörf sumra héraða. Því hefur verið kastað fram, að með frv. væri verið að lögfesta skottulækningar. Ef þetta væri satt þá ætti það að hafa verið gert fyrir löngu, því að Alþ. hefur fjárveitingu til að halda uppi slíkum lækningum, þar sem ekki er kostur á öðrum dýralæknum. N. lítur svo á, að þetta sé atriði, sem ekki sé ástæða til að taka alvarlega, og mælir eindregið með því, að frv. verði samþ.