27.03.1947
Efri deild: 101. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (2031)

132. mál, dýralæknar

Frsm. minni hl:

(Páll Zóphóníasson) : Herra forseti. Ég þarf ekki að svara hv. þm. Dal. miklu, því að hann reyndi alls ekki að hrekja brtt. mínar við frv. Hann færði engin rök varðandi það að hafa megintakmörk á milli umdæma dýralækna. Nei, ekki nokkur. Hann bar það ekki við. Og heldur færði hann ekki nein rök fyrir því, að ríkið stimplaði menn lækna, sem ekki væru lærðir dýralæknar. Hann fann hér engin rök. Hið eina, sem hann sagði, var, að það væri ekki að marka, hvað ég segði, og að hann vildi ekkert við mig tala, en öðru máli, gegndi hér um hv. 2. þm. Árn., er taldi það nauðsyn að athuga þetta mál vel. Hv. 2. þm. Árn. og ég sátum báðir á Alþ., er launalögin voru á ferðinni, og þá voru laun dýralækna ákveðin 2 þús. kr. lægri en laun tollvarða eða lögreglumanna, sem ganga inn í sín störf án lítils lærdóms. Ég reyndi að lagfæra þetta, en hvað gerði 2. þm. Árn.? Mér hefði nú þótt gott, ef hv. þm. hefði staðið með mér að ákveða dýralæknunum sómasamleg laun þá, en þá var hann alls ekki til viðtals um það, og kemur mér nú hálfeinkennilega fyrir sjónir hugarfarsbreyting hans til þessara mála. En það er nú ekki nema gott um það að segja, að hv. þm. hefur breytt um skoðun. — Þetta var nú með launalögin.

Nú segir hv. þm., að setja þurfi í lög ákvæði um störf dýralækna, og hann taldi, að hægt mundi vera að fá menn til þess að vinna hluta af starfi dýralækna, svo sem skoðun á keti og kúm og fjósum. Það getur nú verið, en í engu landi er því svo háttað, að þessi störf fylgi ekki starfi dýralækna, og ef slíkt kæmist á, sem þm. lagði til, þá yrðum við eina landið, sem hefði þá skipan þessara mála, og það er rétt að minna á, að hálft annað ár af dýralæknisnáminu fer í nám um þennan þátt dýralæknisstarfsins, og er ég ekki með þeirri breyt. að taka þetta frá dýralæknunum, því að þetta er einn veigamesti þátturinn í dýralæknisstarfinu.

Þá talaði þm. um námstíma dýralækna og námskeið fyrir dýralæknisefni. Námskeið hafa þegar verið haldin fyrir dýralækna, og var námskeið síðast haldið hér í haust, og tíu menn voru sendir hingað suður, sem svo skyldu aðstoða Jón Pálsson dýralækni. Það var í haust haldið námskeið einmitt í þessum efnum, og voru menn á því 7–14 daga, og kenndi þar Ásgeir Einarsson dýralæknir. Og fyrir 4–5 árum síðan var það sama gert hér á Suðurlandi og eins á Akureyri. Þetta er því ekkert nýtt, en þetta er ekki til þess að búa til dýralækna, sem geta komið í staðinn fyrir hina dýralæknana, heldur er þetta gert til þess að þessir menn geti aðstoðað dýralækninn í umdæminu. ( (EE: En þar sem engir dýralæknar eru?) Það er enginn staður á öllu landinu, sem ekki er talið, að heyri undir einhvern dýralækni, en þar sem langt er til dýralækna, reyna þeir að hjálpa mönnum eins og þeir geta, en þeir gera það ekki á ábyrgð ríkisins.

Þessi námskeið eru svo gamalkunnug, að ég hélt, að þm. ættu að muna eftir þeim. Þau fyrstu voru í tíð Magnúsar Einarssonar og alltaf öðru hvoru síðan. Það er ekkert nýtt, sem hv. þm. var að stinga upp á. Þessir menn hafa verið til og hafa oft hjálpað og haft betri aðstöðu til þess einmitt fyrir það, að þeir fóru á þessi námskeið, og má þar nefna mörg dæmi, t. d. eins og Brand í Götu í Mýrdalnum, svo að ég nefni eitt dæmi, sem farið hefur á tvö slík námskeið, og hefur það oft komið sér vel, t. d. þegar ekki næst í dýralækni á Selfossi, þá hefur hann talað í síma til læknisins, og hann getur oft sagt, hvað eigi að gera, og slíkar ráðleggingar koma að miklu meira gagni fyrir það, að þessi maður hefur farið á þessi námskeið. Ég gæti nefnt fleiri slík dæmi um það, að þetta er ekkert nýtt og kemur oft að gagni, þó að þessir menn séu ekki stimplaðir dýralæknar.

Ég held, að það beri ekki að hverfa frá því ráði að hafa eftirlit í öllu landinu með heilbrigði búpenings og meðferð afurða, en það er ekki hægt að hugsa sér, að þessir menn geti haft það á hendi á nokkurn hátt, sem hafa verið á þessum námskeiðum, enda liggur það ekki fyrir nú, og það verður ekki það, sem þarf að taka fram, þegar l. verða endurskoðuð, að taka þetta frá dýralæknum, heldur er það ýmislegt í sambandi við starf þeirra, sem þarf að athuga, sem ég sá mér ekki fært að gera till. um nú.

Það er misskilningur, að ég hafi ekki borið till. mínar undir yfirdýralækni, heldur sagði ég, að ég hefði ekki borið till. mínar um skiptingu héraðanna undir hann. En eitt var það í brtt. mínum, sem dýralæknarnir voru ekki samþykkir og hv. 8. landsk. minntist á. Það er undir 3. gr. b-lið, 1. á þskj. 558, um að skipa nágrannadýralækni að þjóna embætti án sérstakra aukalauna vegna þeirrar þjónustu. Yfirdýralæknir og dýralæknir á Akureyri eru á móti þessu. Ég álít hins vegar, að það sé fullkomin sanngirni að hafa þetta þannig og það sé ekki hægt að ætlast til þess, að dýralækninum á Akureyri, þó að hans sé vitjað út fyrir héraðið, séu greidd slík laun. Þetta er mér vitanlega það eina, sem okkur ber á milli.