25.03.1947
Efri deild: 99. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

147. mál, vegalög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef verið að líta í þetta frv., og ég er dálítið hissa á ýmsum ákvæðum þess. Alveg sérstaklega er ég hissa á því, að það lítur út fyrir, að ekki hafi verið hugsað um það af þeim, sem undirbjuggu frv., að láta nöfn veganna halda sér hin sömu í öllu frv. Hér og þar er vitnað í vegi, sem ekki eru til. Þar sem talað er um vegi á Vesturlandi, er talað um Borgarfjarðarbraut. Hún heitir það og liggur frá Vesturlandsvegi hjá Haugum um Stafholtstungur yfir Hvítá hjá Kláffossi, um Reykholtsdal og Hálsasveit að Lambá. Þá er Bæjarsveitarvegur, af Vesturlandsvegi nálægt Hesti, um Bæjarsveit, um Reykjadalsárbrú hjá Kleppsjárnsreykjum að Reykholtsdalsvegi. Reykholtsdalsvegur er ekki til. Bæjarsveitarvegur liggur á Borgarfjarðarbraut í Reykholtsdal. Svona er þetta víða í frv. Vegirnir eru látnir heita allt öðru nafni en l. standa til og eru skírðir upp eftir þeim sveitum, sem þeir liggja um í það og það skiptið. Þetta er sjálfsagt að leiðrétta. Það þarf aðeins ofurlitla vinnu að leggja í það, og ég geri ráð fyrir, að það verði gert. Ég vildi benda n. á að athuga þetta milli 2. og 3. umr. Hins vegar geri ég ráð fyrir, að þetta skiljist, en mér finnst óviðkunnanlegt, úr því að veginum er gefið eitt sameiginlegt nafn, að vera þá að búa til ný nöfn á parta og parta af veginum án þess að taka það fram, hvaða partar það eru.

Það, sem aðallega gaf mér tilefni til þess að standa upp, er hinn svokallaði Hvalfjarðarferjuvegur. Þennan veg álít ég alrangt að taka upp í frv. Vegamálastjóri hefur alltaf verið á móti honum. Hann kostar tæpar 2 milljónir kr. fyrir utan ferjurnar, og það, sem vinnst með honum, er aðeins það, að það styttir veginn fyrir bíla, sem fara frá Reykjavík annaðhvort vestur eða norður á land.

Ég tel, að þetta sé ákaflega misráðið. Ég skal ekki fara út í það, hvernig þessi vegur er til kominn, en ég tel, að það sé ófyrirgefanlegt af ríkisstj. að ráðast í fyrirtæki, sem kostar 2 millj. kr., utan við fjárl. og án þess að bera það undir Alþ.

Þetta mætti þó réttlæta með því, að það væri verið að vinna á öðrum þjóðvegi, sem sé Akrafjallsvegi. Þó að þessi vegur sé að vísu orðinn dýrari en ella hefði orðið vegna þess, hve breiður hann er, og uppfyllingin meiri en ef hann hefði verið gerður fyrir minni umferð.

Nú vil ég láta skera úr um það hér í hv. d., hvort hv. þm. vilja láta ráðast í þetta fyrirtæki, að byggja ,veg og bryggjur, sem kosta fullar 2 millj. kr. Í upphafi skal endirinn skoða. Ég er ekki með því, að það verði ráðizt í þetta fyrirtæki. Ég lít svo á, að þegar sú aðstaða er komin á Akranesi, að skip geta lagzt við bryggju þar í sömu veðrum og þau geta þar, sem hugsað er að hafa ferjuna, þá sé það miklu réttara að fá skip t. d. eins og ferjurnar, sem fara yfir Stórabelti eða milli Kaupmannahafnar og Málmeyjar, til þess að fara hér á milli. Það mundi kosta um 2 millj. kr., eða líkt og vegagerðin er áætluð, og mun hún þó ekki fullnægja samgönguþörfinni og lítið verða notuð.

Ég mun ekki við þessa umr. koma með brtt. á þessu, en ég geri það við 3. umr. Ég kem ekki með brtt. núna, af því að ég vil, að menn átti sig alveg á því, hvort þeir vilja byrja þarna á vegagerð, bryggjum og ferjum, sem kosta á 2. millj. kr., eða hugsa sér aðrar leiðir í málinu, áður en þetta er samþ. Ef þetta er samþ., verð ég að líta svo á, að þeir séu ákveðnir í að halda áfram með þetta verk og koma veginum þarna yfir og áfram.

Annað vil ég benda á hér, sem ég mun bera fram brtt. um fyrir 3. umr. Það er viðkomandi kafla C, 17. tölul. Þar er Hegranesvegur látinn enda á Ríp, sem ég tel ástæðulaust. Ég vil láta hann enda hjá Eyhildarholti, þar sem þar eru tvær lögferjur, bæði austur yfir og vestur yfir. Þá er hann kominn í samband við þjóðveginn, bæði til austurs og vesturs. Ég mun þess vegna koma með brtt. um, að í staðinn fyrir „að Ríp“ komi: um Ríp að Eyhildarholti. Ég skal ekki fullyrða, hvort ég kem með fleiri brtt. Ég ætla að tína saman brtt. um nöfn. En við nánari yfirlestur gæti ég kannske fundið fleiri staði, sem ég vildi gera brtt. um. En það, sem gerði það sérstaklega að verkum, að ég stóð upp, var Hvalfjarðarferjuvegur, sem ég tel óverjandi að taka í vegalög nú.