25.03.1947
Efri deild: 99. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1471 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

147. mál, vegalög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af þeim ummælum, sem hér hafa farið fram í sambandi við Hvalfjarðarferjuveginn, þykir mér rétt að gefa nokkrar upplýsingar hér til samgmn., sem eru komnar frá vegamálastjóra og samgmrn., um þetta mál. Kann það að skýra málið nokkuð fyrir hv. samgmn., ef hún hefur ekki verið kunnug málinu í heild, sem mér skildist á hv. þm. N-Þ., að hann væri ekki. — Málið liggur þannig fyrir, að áður en aðalþingi sleit í fyrra, var borin fram þáltill. frá hv. þm. Borgf. um heimild til þess að verja ákveðnu fé til þess að gera þessar framkvæmdir. Þessi þáltill. var ekki afgr., vegna þess að komið var að þingslitum, þegar hún kom fram. Þess vegna hafði hv. þm. Borgf. fengið undirskriftir allra hv. þm. í fjvn. að undanskildum form. n. til meðmæla því, að þetta yrði gert, þó að þetta væri ekki samþ. á Alþ. Málið hafði ekki verið tekið fyrir í fjvn. sem slíkri. En ég taldi ekki rétt að vera á þessari braut, að skrifa þannig undir slík tilmæli. Ég áleit það ekki rétta stefnu, enda var málið óupplýst í n. En þetta hefur orðið til þess, að byrjað hefur verið á framkvæmd verks í sambandi við þessa ferju, m. a. gert við veginn að norðanverðu, og einnig verið unnið að hafnarmannvirkjum, sem þó voru hugsuð þannig, samkv. bréfi frá fyrrv. hæstv. fjmrh., að hann hefur leyft að verja þessu fé í þessar framkvæmdir með því skilyrði, að Akraneskaupstaður tæki sinn þátt í þessum hafnarmannvirkjum, eins og það væru hafnarbætur eftir venjulegum reglum, þ. e. að hafnarsjóður Akraness greiddi 40‰ af kostnaði, sem stjórn hafnarsjóðs Akraness hefur svo ekki fallizt á. En þó skilst mér, að búið sé að vinna fyrir nokkur hundruð þús. kr. að umbótum á vegum að ferjustöðunum. Nú hefur þessi staður ekki verið hugsaður sem lendingarstaður fyrir Akranes sérstaklega, heldur væri þessi Hvalfjarðarferja gerð til þjóðarafnota. Eru lendingarbætur víðar unnar fyrir vegafé, eins og bryggjan á Arngerðareyri. Gert er ráð fyrir, að lendingarbæturnar einar muni kosta um 2 millj. kr. Síðan er gert ráð fyrir, að vegurinn kosti um hálfa millj, kr., svo að þetta er áætlað einhvers staðar á þriðju milljóninni, allur þessi kostnaður.

Hér liggur fyrir bréf frá vegamálastjóra í sambandi við þetta mál, sem hv. þm. geta fengið að lesa hjá mér, ef óskað er. Þar segir: „Þegar nánar var athugað, kom í ljós, að óhjákvæmilegt var að gera allmiklu meiri vegabætur, ef þarna ætti að verða vegur fullfær bifreiðum alla tíma árs. Síðari hluta ágúst fór fram ýtarlegri rannsókn á vegarstæðinu norðan fjarðarins og mæling. Er því talið nauðsynlegt að leggja nýjan veg að miklu leyti frá Akranesveginum rétt utan við brúna á Urriðaá að ferjustaðnum hjá Katanesi. Er vegarlengd þessi 5.6 km, og er hér af nú þjóðvegur 3,4 km.“ — Ég vil ekki, að því sé blandað saman, að sú fjárveiting, sem samþ. var í gær við afgreiðslu fjárl., er veitt til þess að gera við þennan kafla, sem er nú þegar þjóðvegur, og er þess vegna ekki játning á því, sem hér liggur fyrir um Hvalfjarðarferjuna. Svo segir í bréfinu í áframhaldi af því, sem ég áðan las: „en 2,2 km er nýr vegur frá ferjustaðnum út á þjóðveginn hjá Klafastöðum,“ — það er allt svo nýr vegur — „sbr. viðfestan uppdrátt. Eru nauðsynlegar vegabætur á þjóðveginum áætlaðar að kosta um 265 þús. kr.“ — og það voru, að mig minnir, samþ. 235 þús. kr. einmitt til þessa vegarkafla, en ekki neitt ákveðið til ferjuvegarins, eins og ég tók sérstaklega fram við atkvgr., þegar nafnakallið fór fram — „en á ferjuveginum 135 þús. kr., eða samtals um 400 þús. kr.“ Þetta eru vegabæturnar að norðanverðu eingöngu. Og þegar búið er að gera þennan veg, er ætlazt til þess, að verði þjóðvegur vestan við Akrafjall út í kaupstaðinn, en sunnan Akrafjalls sé innansveitarvegur um Innri-Akraneshrepp, og er ætlazt til, að hægt verði að fara hringferð í kringum Akrafjall, sem er ekki óeðlilegt. Vegurinn frá Klafastöðum að Katanesi er raunverulega vegurinn, sem kemur þjóðveginum í samband við sjálfa ferjuna, og hana mundi koma hvort sem væri. Ef á að breyta þessu, þá þarf að breyta fleiru en hv. 1. þm. N-M. gat um. Þá er syðri Hvalfjarðarvegurinn hjá Eyri í Kjós lítill spotti, sem gengur frá þjóðveginum niður að Eyri, sem er gert ráð fyrir, að mig minnir, að muni kosta um 30 þús. kr., í till. vegamálastjóra.

— Ég skal svo aðeins benda á, hvað vegamálastjóri segir um þetta. Hann segir hér, með leyfi hæstv. forseta: „Jafnframt vil ég taka fram, að ég hef jafnan talið hæpið, sérstaklega vegna stofnkostnaðar og ekki síður rekstrarkostnaðar ferjanna, að leggja í framkvæmdir þessar. Krókurinn inn fyrir Hvalfjörð, sem sparast, er um 47 km á landi, og tekur aksturinn nú um 1½ klst. Með ferjunni má vænta, að sparist um ½–3/4 klst., meðan vegurinn er ekki betri en nú. Komi menn að ferju, þegar hún er nýfarin, hverfur þessi tímasparnaður og jafnvel enn meir. Hins vegar fylgir nokkur sparnaður í aksturskostnaði þá 47 km, sem landleiðin styttist um. Tefjist bifreiðar vegna biðar, minnkar tímasparnaður að sama skapi. Í þessu sambandi má og hafa í huga, að áður en langt um líður, verður vegurinn um Svínadal og Dragháls bættur svo, að margir munu kjósa frekar að leggja leið sína þar um, í stað þess að fara út fyrir Hafnarfjall, og styttist leiðin fyrir Hvalfjörð þá um 20 km. Ég geri ekki ráð fyrir, að nokkur teljandi upphæð sparist í viðhaldi Hvalfjarðarvegarins, ...“ Þetta eru orð vegamálastjóra. Hins vegar hefur hæstv. samgmrh. lagt mjög mikla áherzlu á, að þetta yrði framkvæmt, og talið, að þetta yrði til stórbóta á samgöngukerfinu milli Suðurlands og Norðurlands og Vesturlands, og að þetta sé ekki mál Akraneshrepps að neinu leyti, heldur sé þetta fyrir þessa tvo landshluta, Norðurland og Vesturland. Og hann hefur því lagt mjög mikla áherzlu á, að þessar framkvæmdir verði gerðar. Hann mun væntanlega skýra það frá sínu sjónarmiði, svo að það sé til athugunar fyrir hv. samgmn. En mér þótti rétt að láta þetta koma fram fyrir n. til athugunar, og þessi gögn, sem ég hef hér frá vegamálastjóra, getur samgmn. fengið að athuga.

Þær áætlanir, sem gerðar hafa verið um kostnað við lendingarbætur þarna, geta hvergi nærri staðizt að mínu áliti, heldur álít ég, að þurfi miklu meira fé til þess að koma þeim upp en gert var ráð fyrir í fyrstu. Um rekstrarkostnaðinn ætla ég ekki að ræða. Hv. n. getur séð áætlun um það efni í þessari grg. og reynt að gera sér grein fyrir, hvort menn geta notað ferjurnar með þeim kostnaði, sem við þær verður, svo að þær geti borið sig. Það er nefndarinnar að rannsaka þetta. Skal ég ekki um það atriði deila. — Ég hefði haldið, að þegar því er nú marglýst yfir hér í sameinuðu þingi, að hér sé allt að fara norður og niður í fjármálunum, þó að það sé stórkostlegur ábyrgðarhluti að halda uppi hér þeim ræðuhöldum, þá máli menn ekki alla hluti jafnsvart, því að sumir hv. þm. vilja nú leggja tvær millj. í fyrirtæki, sem sé Hvalfjarðarferjuna, sem vegamálastjóri leggur á móti og mér er ekki kunnugt um, að neinn hv. þm. sé verulega fylgjandi, nema hæstv. samgmrh., sem að sjálfsögðu hefur sett sig mjög inn í þetta atriði, og svo hv. þm. Borgf. Ég hygg, að það séu ekki aðrir menn í þinginu, sem hafa virkilega sterkan áhuga fyrir þessu máli, en þessir tveir hv. þm. En þeir hafa vitanlega sett sig betur inn í málið en aðrir þm. Þó hefði ég haldið, að það mætti eitthvað taka tillit til þess, sem vegamálastjóri hefur sagt í sambandi við þetta mál. En það vill brenna við hér á hæstv. Alþ.,hv. þm. vilja nota hans meðmæli til framdráttar málum, ef þeir sjálfir hafa áhuga fyrir framgangi þeirra, en telja svo, t. d. stundum um skiptingu brúafjár, að það sé ekkert að marka till. vegamálastjóra, ef þeir sömu hv. þm. hafa ekki fengið óskir sínar uppfylltar viðkomandi samgöngubótum, sem vegamálastjóri hefur ekki tekið með í till. sínar.