25.03.1947
Efri deild: 99. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (2094)

147. mál, vegalög

Gísli Jónsson:

Út af ræðu hæstv. ráðh. vil ég leyfa mér að gefa nokkrar skýringar. Hann hefur haldið því fram, að það hafi komið bréf frá fjvn., undirritað af 8 nm. Ég skal ekki deila um það, hvort nokkur munur er á því, að fjvnm. fyrir utan fjvn.fund koma sér saman um að senda út bréf í nafni fjvn. En það er hægt að sjá það í bókun fjvn., að þetta mál hefur ekki verið afgr. frá n., og ég minnist þess ekki, að þetta mál hafi verið til athugunar í n. vegna þess, að þáltill. kemur svo seint fram í n., að hún hafði ekki tækifæri til að rannsaka málið og gera um það ályktun. Hins vegar er mér kunnugt um það, að hv. þm. Borgf. tjáði sig fylgjandi þessu máli, en ég tel það nokkuð annað en að meiri hl. Alþ. hafi verið með þessu máli, og eins og menn muna þá hafa komið fram gögn í þinginu um það að óska eftir, að þetta mál verði rannsakað og lagt fyrir að nýju. Það má benda á það, að sex þm. eru á till., en till. hefur samt sem áður ekki fengið þinglega meðferð. Þessari till. var útbýtt á Alþ. 17. apríl í fyrra, og er óhætt að fullyrða, að frá 17. apríl og þar til fundum var slitið, kemur þetta mál ekki til meðferðar í fjvn. Ég skal hins vegar í sambandi við málið benda á upplýsingar, sem hér eru gefnar og undirritaðar af bæjarstjóranum á Akranesi, og geri ég ráð fyrir, að hann fari þar með rétt mál. Þetta er kostnaður við Hvalfjarðarferju, lendingarbætur og vegi. Geri ég ráð fyrir, að hann hafi þetta frá vegamálastjóra og vitamálastjóra. Hér segir hann, að þessi mannvirki kosti samanlagt 620 þús. kr. Þá liggur málið þannig fyrir fjvn., eða þeim mönnum, sem tóku á sig þá ábyrgð að taka málið upp, að kostnaður allur er áætlaður 620 þús. kr., það er meginatriðið. Og þegar þeir undirskrifa þessa beiðni, þá ganga þeir út frá því, að kostnaðurinn verði ekki annar en þessar 620 þús. kr. En það er allt annað upp á teningnum nú, því að í bréfi frá vegamálastjóra til fjvn. 11. nóv. 1946 óskar hann eftir 815 þús. kr. í lendingarbæturnar einar, og hann segir í þessu bréfi, að þetta sé rúmlega 200 þús. kr. hærra en hann hafi gefið samgmn. upp á sínum tíma, því að þá hafi verið áætlað, að þetta mundi kosta 615 þús. kr., eða 620 þús. kr. eins og hér er tekið fram á þskj. 860 frá 64. löggjafarþingi. En þá vantar vegagerðina, því að hér er talað um sameiginlegan kostnað, og nú fær vegamálastjóri upplýsingar um vegagerðarkostnað upp á 500 þús. kr., og er þetta þá í allt komið upp í 1500–1600 þús. kr. Hann segir hins vegar, að vegurinn kringum Akrafjall komi hvort sem er og þess vegna sé engin ástæða til að lengja þetta mannvirki út af fyrir sig, en í þeim vegi liggi mesti kostnaðurinn. Kostnaður við vegagerð í sambandi við ferjurnar er áætlaður 30 þús. kr. að sunnanverðu, en 160 þús. kr. að norðanverðu. Ég geri því ráð fyrir því, að þó að aldrei verði hugsað um að setja þessar ferjur, þá verði þessi vegagerð til þess að koma á frekara vegasambandi að innanverðu í sveitinni, og hef ég fulla samúð með þeirri vegagerð. Hins vegar hef ég ekki fengið nægileg gögn enn í þessu ferjumáli til þess að geta greitt atkv. um það, hvernig eigi að verja þessu fé, og ég hygg, að hæstv. ráðh. hafi heldur ekki lengið slík gögn í hendur. Það liggja ekki fyrir þau gögn í málinu, að það sé verjandi að fara nú að setja hundruð þúsunda kr. í þetta mál. Það liggur ekkert annað fyrir en þessar áætlanir. Það liggur ekkert fyrir um það, hvernig þessi rekstur komi til með að bera sig. En ef strax byrjar með það, að stofnkostnaður sé ekki nema 1/3 af útgjöldunum, þá má vænta þess, að eitthvað verði athugavert við rekstrarkostnaðinn. En ég þykist hafa fært sönnur á, að stofnkostnaður hafi breytzt frá því í fyrra úr 620 þús. kr., sem sagt er, að sé sameiginlegur kostnaður, upp í 1400–1500 þús. kr. En í sambandi við þetta vil ég spyrja hæstv. ráðh. Hvað hefur verið gert til að uppfylla það skilyrði, sem fjmrh. setti í sambandi við þetta mál? Mér er tjáð, að hann hafi sett það skilyrði, að Akranesbær legði fram 40% kostnaðar í þessar lendingarbætur og ríkissjóður þyrfti ekki annað en ábyrgjast 60%, en mér er tjáð, að Akranesbær hafi ekki uppfyllt þetta skilyrði. En ef það er rétt, að þetta skilyrði hafi ekki verið uppfyllt, þá vantar mig að fá að vita, hvernig hæstv. samgmrh. hefur getað látið framkvæma þetta, nema aðrir samningar hafi verið gerðir. Ég vil í sambandi við það, sem hæstv. samgmrh. sagði, segja það, að jafnvel þó að fjvn. öll hefði verið sammála um þetta, þá voru t. d. á síðasta Alþ. fjöldamargar till. felldar fyrir fjvn., svo að það er ekki neinn mælikvarði á vilja þingsins, þó að fjvn. leggi eitthvað til.

Ég held því fast fram, að aldrei hafi verið gengið út frá því hér á Alþ., hvort ríkið taki á sig kostnað vegna ferju á Hvalfirði. Ég mun ekki greiða atkv. gegn því, að fé verði veitt til vega þeirra í sýslunni, er um ræðir, en hitt er aðalatriðið, hversu miklu fé eigi að verja til ferjunnar. Það mál er engan veginn nægilega rannsakað. Rekstur ferjunnar mun geta orðið allt að 200 þús. kr. á ári, og spursmál, hvort ekki þarf að fá aðra ferju. En það er þó engan veginn útreiknað, hve mikið rekstur þessara ferja getur kostað, enda er málið í heild, eins og ég hef áður sagt, alls ekki nægilega rannsakað.