11.04.1947
Efri deild: 113. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

147. mál, vegalög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af framsöguræðu form. samgmn. Hann sagði, að brtt. á þskj. 570, en það eru brtt. hv. þm. N-M., væru mont í 16 liðum. Hv. 1. þm. N-M. sagðist hafa fengið það knúið fram, að brtt. hans voru teknar til athugunar, en að þær hefðu alls ekki verið lesnar ofan í kjölinn. Ég skal játa, að athuganir mínar á till. eru óýtarlegar, og það hefur nú vakað fyrir þm. að opna ekki frv. fyrir brtt., Því að það er nú senn komið að vertíðarlokum og væri því mjög óhyggilegt að koma nýju flóði brtt. af stað.

Varðandi brtt. á þskj. 570, þá bar hv. frsm. n. þær undir einstaka þm., en það er ofmælt hjá hv. frsm. n., að nm. hafi fussað að þeim. Ég leyfi mér að taka hér dæmi um 8. brtt. á þskj. 570. Sú brtt. er aðeins sjálfsögð leiðrétting, að í stað orðanna „að Gemlufalli við Dýrafjörð“ komi: að ferjustað við Dýrafjörð undan Gemlufalli. Þetta er ekki til að fussa að, þetta ber að leiðrétta. Líkt er háttað um 7. brtt. á þskj. 570. Þar er um að ræða leiðréttingu til réttara máls. Hér er um langa bæjarleið að ræða, og er því enginn hégómi að leiðrétta þetta. Að kalla þetta mont í 16 liðum er alls ekki sæmandi, en ég álít, að hægt sé að samþykkja þessar sjálfsögðu leiðréttingar, án þess að fordæmi verði til nýs flóðs brtt.

Varðandi till. um Hvalfjarðarveginn þá er það mikið mál, og sumir telja rétt að hverfa frá því að koma ferju yfir Hvalfjörð. Ég veit, að ef ferja kæmi á Hvalfjörð, þá mundi losna mikill krókur á leiðinni frá Reykjavík til Vestfjarða, en gæti nú ekki fullkomið ferjuskip, sem gengi frá Reykjavík til Akraness, gert eins mikið gagn eða meira gagn. Ég held því, að þetta mál geti valdið deilum, og er vafalaust tilgangslítið að hefja þær nú í lok þingtímans, og ég fellst á, að meta skuli meir að koma frá sér vegalagafrv. sem fyrst, en í brtt. hv. þm. N-M. felst ekki annað en smávægileg leiðrétting, sem ber að leiðrétta. Varðandi brtt. á þskj. 567, brtt. hv. þm. N-Þ., þá felst í henni sanngjörn leiðrétting, en ef það er annars vilji hv. þm. að opna ekki frv., þá er sjálfsagt að greiða ekki atkv. með brtt., eða á hinn bóginn, að opna frv. að nýju fyrir brtt. Annað vildi ég nú ekki segja á þessu stigi málsins.