11.04.1947
Efri deild: 113. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

147. mál, vegalög

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér mikið inn í þessar umr. Það eru aðeins tveir vegir, sem ég vildi minnast á og mér er kunnugt um að þurfa breytinga við, ef í lagi eiga að vera. Í frv. til vegalaga, 2. gr. a-lið 2, er talað um Reykjanesbraut frá Reykjavík um Hafnarfjörð og Keflavík til Sandgerðis. Nú er aðalbyggðin í Miðneshverfinu í Sandgerði, og þaðan er útgerðin stunduð, en suður á Stafnesi eru jarðir og stundaður landbúnaður. Frá Sandgerði og út á Stafnesið eru 20 býli, og öll þessi býli þurfa gott vegasamband við Sandgerði til að koma þangað afurðum sínum og flytja kaupstaðarvarning sinn þaðan. Nú nær þjóðvegurinn aðeins til Sandgerðis, en sýsluvegur er frá Sandgerði út að Stafnesvita, Þessi vegur er nokkur baggi á sýslusjóði, því að sýslan er stór og strjálbýl og í mörg horn að líta um framlög til vegamála. Það er nú almennur áhugi manna þarna suður frá, að vegurinn út á Stafnesið sé tekinn í þjóðvegatölu. Það finnst mér að öllu athuguðu mjög sanngjarnt og miklu sjálfsagðara en að taka upp suma þá vegi, sem þegar eru þjóðvegir. Því leyfi ég mér ásamt hv. 1. þm. Reykv. að bera fram svohljóðandi skrifl. brtt. við 2. gr. A. 2. : „Í stað“ til Sandgerðis“ komi : um Sandgerði og að Stafnesvita.“

Þá er það Grindavíkurvegur, sem gert er ráð fyrir, að liggi af Reykjanesbraut á Vogastapa um Grindavík að Reykjanesvita. Í Grindavík er byggðin, sem kunnugt er, í tveimur hverfum, Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðahverfi. Aðalbyggðin hefur verið í Þórkötlustaðahverfinu, og þangað liggur vegurinn. Nú hafa orðið breytingar á þessu, t. d. hafa hafnarbætur verið gerðar í Hópinu, og hefur Járngerðarstaðahverfið vaxið mjög. Útgerðin hefur aukizt og bæjunum fjölgað við hin bættu atvinnuskilyrði. En hin bættu atvinnuskilyrði hafa í för með sér þörf fyrir aukna vegi, en sá vegur, sem nú er til, er hreppsvegur, og hreppurinn er þess ekki megnugur að sjá nægilega myndarlega um hann. Þá er eitt mjög þýðingarmikið atriði, sem gerir þörfina fyrir góðan veg þarna enn þá brýnni. Skipströnd eru mjög tíð í Grindavík, og Grindvíkingar hafa gengið mjög vasklega fram í björgunarstarfsemi og keypt góðan björgunarbát. En skipin stranda víðsvegar á nesinu, og þarf þá að flytja bátinn til á landi, svo að hægt sé að koma honum við við björgunarstarfið. Hann hefur hingað til verið fluttur eftir þessum lélega vegarspotta, sem til er, en í vetur munaði minnstu, að ómögulegt væri að koma bátnum á milli, og hafði það næstum kostað mörg mannslíf. Það er því sómi þjóðarinnar, að þessi vegur sé í góðu ástandi. Menn sjá, hve alvarlegt það er, ef björgunarbát verður ekki við komið vegna slæmra akvegasambanda. En hreppurinn hefur ekki tök á að bæta úr þessu, og sýslan hefur í mörg horn að líta. Því er ekki annað fyrir hendi en ríkissjóður hlaupi undir bagga, og ef borið er saman við aðra vegi, sem ríkisstyrks njóta, þá held ég, hvað þörfina snertir, að þessir vegir standi í alfremstu röð. Ég sé svo ekki ástæðu til að fylgja þessu frekar eftir, en legg fram ásamt hv. 1. þm. Reykv. svohljóðandi skrifl. brtt. við 2. gr. A. 3.: Aftan við greinina komi: og frá Járngerðarstaðahverfi um Þórkötlustaðahverfi að Hrauni. Vænti ég þess, að þessar till. mæti hér í hv. deild þeim skilningi, sem þær eiga skilið.