11.04.1947
Efri deild: 113. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

147. mál, vegalög

Björn Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. N-M. upplýsti hér í hv. d. í dag, að þessi vegur í Mjóafirði væri kominn inn í vegal. fyrir alllöngu síðan. Þetta er alveg rétt, og mér þykir fyrir, að mér skyldi hafa orðið á sú villa að halda hinu gagnstæða fram. En þetta breytir engu að því leyti, að ég tel þessa brtt. leiðréttingu á því, sem ég tel, að hafi orðið af vangá í vegal., þegar vegurinn var samþ., því að mér finnst það liggja í augum uppi, að þegar búið er að taka veg í þjóðvegatölu, þó að svo sé um alllanga leið þarna, þá hefði það haft tiltölulega litla þýðingu, ef sá vegur hefði ekki verið látinn enda þar, sem rekin var á fyrri tíð töluvert blómleg útgerð, að Brekku. Ég álít, að það breyti engu að þessu leyti, þótt vegurinn hafi verið kominn í þjóðvegatölu. Hv. 1. þm. N-M. mótmælti því, sem ég sagði um vegarlengd þarna austur frá. Ég held, að ég hafi nefnt 5 km. eins og hv. þdm. muna, og gat ég þess, þegar ég flutti þessa brtt. upphaflega, að ég flytti hana samkv. ósk hv. 1. þm. S-M., núverandi hæstv. menntmrh., því að það hefur einhvern veginn farið fram hjá honum að flytja hana í Nd. Allar upplýsingar, sem ég hafði, eru frá honum. Ég hef aldrei á þessar stöðvar komið, og ég tók svo eftir af honum, að þessi vegur mundi vera 5 km. En nú hefur hv. 1. N-M. mótmælt þessu og talið veginn 18 km. Fór ég því til hv. 1. þm. S-M. og spurði hann um þetta, og hann sagðist hafa nefnt 15 km. Þetta hefur því misheyrzt hjá mér. Þegar svo hv. 1. þm. N-M. heldur því fram, að vegurinn sé upp undir 18 km, en hv. 1. þm. S-M., að hann sé 15 km. (GJ: Þá er bezt að fara millileið.) þá liggur mér við að trúa betur hv. þm. kjördæmisins, 1. þm. S-M., svo að ég held, að úr því að hv. 1. þm. N-M. fór að leiðrétta þetta hjá mér, hefði hann heldur átt að fara nær því rétta en að auka það.

Ég hef heyrt, að hv. þm. Barð. hafi eitthvað mælt á móti þessari brtt. minni og talið Mjóafjörð dauðan stað, hvað útgerð snertir. Þetta mun rétt, eins og nú stendur. En við höfum ótal dæmi þess um ýmsa staði, þar sem útgerð hefur verið, að þeir hafa á fáum árum breytzt, þannig að þar hefur risið upp blómleg útgerð. Þess mætti nefna mörg dæmi. Mjóifjörður er ein af beztu og öruggustu höfnum landsins, og það er ekkert líklegra en að þar eigi eftir að rísa upp útgerðarstöð, kannske mjög stór. Þetta finnst mér því ekki rétt mótbára hjá hv. þm., enda eru þarna líka blómleg sveitabýli, einkum kringum Brekku, sem þurfa á vegi að halda, eins og aðrir staðir á þessu landi.

Að því er aðrar brtt. snertir, þá vil ég alls ekki mótmæla því, að hv. flm. þeirra geta haft mikið til síns máls. En ég mun fylgja því, sem samkomulag varð um í samgmn., og mun því þrátt fyrir það greiða atkv. á móti þessum brtt. nema þessari einu till., sem ég sjálfur flyt, af því að ég tel hana leiðréttingu, sem ekki þurfi að skoða sem neina breyt. á vegal. Annars mun ég greiða atkv. á móti öllum till., sem gætu orðið til þess, að þetta frv. dagaði uppi eða jafnvel félli.