11.04.1947
Efri deild: 113. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (2107)

147. mál, vegalög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef hlustað á þessar umr. og heyrt, hvernig hv. þdm. hefur þótt það vera dálítið í brotum, hvernig hlutuð hafa verið niður þessi þráðu gæði, vegirnir, sem ákveðnir eru, að skuli vera þjóðvegir í sýslum landsins. Það hefur líka komið fram á mér, að mér hefur þótt vera smátt skammtað skyrið til mín. Ég mun hafa fengið nú í þessu áhlaupi hinnar ágætu samgmn. um 14 km veg, meðan aðrir teygja sig upp undir 100 km í einstökum kjördæmum. Þrátt fyrir þetta og þó að ég sé óánægður með það, get ég ekki tekið undir það með hv. þm. Barð. að saka mjög vegamálastjóra fyrir það. Hv. þm. Barð. hefur áður kallað hann sérstakan heiðursmann og ágætismann í allar áttir. En mér fannst vera svolítið annað hljóð nú í þeim strokk. En það er svo með vegamálastjóra sem aðra menn, að enginn gerir svo öllum líki. Ég efast um, að guð í himnaríki hafi skammtað svo hv. þm. Barð., að hann sé fullkomlega ánægður með það, og það getum við kannske fleiri sagt. En ég ætlaði, satt að segja, gagnvart vegamálunum og afgr. þeirra hér á þingi að bíða með þann skarða hlut, sem ég hef hlotið, og þreyja nú um sinn. En þar sem ég sé, að menn hafa gert uppsteyt í þessu máli og nú eru komnar brtt. úr ýmsum áttum við þetta vegalagafrv., þá finnst mér, að ég geti ekki setið alveg þegjandi hjá, og hef ég þess vegna leyft mér að koma fram með smábrtt., sem er auðvitað ekki nema orðabreyt. á einum stað. Ég skal lesa hana upp, með leyfi hæstv. forseta. Hún er við kafla B, tölul. 34, um, að í stað „Leikskála“ komi: Kross. Það er ekki mjög langt þarna á milli. Og ég man eftir, að hv. þm. Barð., þegar hann einu sinni var að útbýta til mín og þá hv. 2. þm. S-M., þá voru þeir komnir svona eitthvað áleiðis upp í Haukadal, en þótti nokkuð langt að fara þangað, sem mín brtt. nú nær, og sneru við, og ég fékk þá engan veg þarna. Nú hef ég fengið ofurlítinn spotta þarna samþ., og þetta mun vera 2 eða 3 km viðbót, sem ég kem nú með brtt. um. Þetta er afskekktur dalur, sem erfitt á með flutninga á verzlunarvörum, og horfir þar til auðnar, ef ekki verða gerðar þarna umbætur á vegum. — Nú er ég ekki að biðja um neina sérstaka miskunn fyrir þessa brtt. En ef ég sé, að meiri hl. hv. þm. hér í d. ætlar að breyta þessu frv., finnst mér rétt, að ég fái að fljóta með og koma minni brtt. fram. En reynist svo — og það mun verða reynt áður en að þessari brtt. kemur —, að það verði bitið í skjaldarrendurnar og skorið niður hvað sem fyrir kemur yfirleitt af brtt. við þetta frv., mun ég ekki sækja fast, að þessi brtt. verði samþ., og mun þá sennilega taka hana aftur. En þó að ég sé mjög óánægður með þetta frv., eins og það er, þá býst ég við, að ef farið verður að hrekja það á milli d., þá kannske verði það verra en það hefur verið og muni bera feðrum sínum lítið lof og langtum minna en það gerir eins og það nú er. — Leyfi ég mér svo að afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt. mína.