11.04.1947
Efri deild: 113. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (2112)

147. mál, vegalög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef enn ekki heyrt rök frá hv. formanni samgmn. fyrir því, af hverju hann er á móti brtt. mínum. Því er hann á móti því að kalla Borgarfjarðarbraut réttu nafni, eins og er í lögum? Reykholtsdalsvegur er hvergi til í l. Til þess nú að gera honum hægara um vik þá ætla ég að spyrja hann og biðja hann svo að svara í næstu ræðu. Því er hann á móti því að láta veginn ná að Unuhóli í Þykkvabæ og lengja hann um 14 km og gefa með því nokkrum bæjum tækifæri til þess að koma frá sér mjólkinni? 5. brtt. minni, geri ég ekki ráð fyrir, að hann sé á móti. Því er hann á móti því að kalla Reykjarfjarðarveg í Bjarnarfirði réttu nafni, eins og ég greini í 6. lið brtt. minnar, en ekki að uppnefna hann, eins og gert er í frv.? Því er hann á móti því að láta Reykjarfjarðarveg á Ströndum enda á Eyri í Ingólfsfirði, eins og ég vil, en vill láta hann enda í Árnesi? Því má hann ekki liggja inn í hinn uppvaxandi kaupstað, þar sem komin er síldarverksmiðja og mikill rekstur? Hvers vegna er hann látinn enda 4 km þar frá? Því er hann á móti því að láta veginn liggja að sjó við Dýrafjörð, en vill láta hann enda uppi á Gemlufalli og láta menn þurfa að fara gangandi fjórðung stundar niður að bryggju? Ég skil þetta ekki. Kostnaðurinn við það yrði ekki svo mikill. Því má ekki láta veginn við Sveinseyri liggja út í Stóra-Laugardal? Ég þykist vita, að hann vilji ekki leggja veginn þangað, af því að þar eru nokkrir bæir, sem hann telur, að eigi að leggjast í eyði, og þess vegna vill hann ekki leggja veg þangað. Því er hann á móti því að láta veginn í Vatnsdalnum liggja um Ásbrekku, þar sem geyma má bifreiðar, í staðinn fyrir að láta svo óákveðið, hvar vegurinn eigi að liggja á þessum stað?

Því er hann á móti því að nefna Goðdali sem endastöð í stað Tungusveitar, til þess að það sé hægara fyrir bændur að koma frá sér mjólk? Því er hann á móti því að leggja veginn um Hegranes að Eyhildarholti í staðinn fyrir að Ríp? Því vill hann ekki tengja saman veginn, sem liggur yfir Hegranesið, sem væri hentugra vegna ferjanna, sem ríkissjóður kostar þarna? Hvers vegna vill hann ekki láta veginn í Bárðardal liggja alla leið að Bjarnarstöðum, til þess að hægara sé að flytja mjólkina? Hvað sér hann á móti því? Því vill hann láta veginn enda niður í dal í Ólafsfirði, en ekki í Ólafsfjarðarkauptúni? Því vill hann uppnefna Lagarfoss, sem heitir og hefur alltaf heitið Lagarfoss, og kalla hann einhvern „Foss“? Því vill hann ekki láta veginn liggja á Fagradalsbraut innan við Búðardal? Nú getur hann gert grein fyrir, af hverju hann er á móti þessum till. Ég spyr um hverja einstaka till. Hvers vegna er hann á móti þeim?