27.02.1947
Efri deild: 81. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

24. mál, tekjuskattsviðauki 1947

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Þegar þetta mál var hér síðast til umr., var því frestað af þeim orsökum, að óskað var eftir yfirlýsingu hæstv. fjmrh. um það, hvort væntanlegar væru breyt. á tekju- og eignarskattslögunum almennt. Ég vildi því óska eftir, að hæstv. forseti vildi nú fresta þessu máli. unz ráðh. hefur gefið d. upplýsingar um, hvað fyrirhugað er í þessum efnum. Ég sé nú raunar, að hæstv. ráðh. er að koma hér inn í d. Ef hugsað er sem svo, að þetta sé eina breyt., sem fyrirhuguð er að sinni á skattalögunum, þá gera hv. dm. að sjálfsögðu upp við sig, hvaða afstöðu þeir taka til málsins. En verði skattalögin almennt tekin fyrir á þessu þingi og þeim breytt, þá væri eðlilegra að fella þennan hækkandi tekjuskattstiga inn í það frumvarp.

Nú er verið að ráðgera innköllun vegna skattsvika, sem eru þá bein afleiðing af því, að hert hefur verið um of að skattgreiðendum, svo að þeir hafa fremur tekið á sig áhættuna af þeirri vanvirðu að svíkja undan skatti en lúta þeim lögum, sem þeir hafa aldrei viðurkennt. Og það er vafasamt að ríkið haldi uppi lögum, sem leiða til þessara miður heiðarlegu aðferða. Ég mælist til þess. að þetta frv. verði tekið út af dagskrá, ef ekki kemur yfirlýsing frá hæstv. fjmrh. varðandi breyt. á skattalögunum almennt og hvað sé fyrirhugað í þeim efnum.