07.03.1947
Neðri deild: 88. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1500 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

137. mál, sala Stóruborgar í Grímsnesi

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru mörg mál á hverju þingi hjá okkur um sölu á þjóð- og kirkjujörðum. Og ég verð að segja fyrir mitt leyti, að mér finnst það mjög varhugavert, hvað þetta gengur langt, þó að maður öðru hvoru neyðist til að standa með þessu og helzt með því móti, að sett séu mjög ákveðin skilyrði um, að ekki megi selja jörðina aftur, nema ríkinu, þegar verið er að selja hreppsfélögum. Gegnir um þessar sölur vitanlega nokkuð öðru máli, þegar verið er að sel ja hreppsfélögum eða bæjarfélögum jarðir og lendur, heldur en þegar þetta er selt einstaklingum. En það er samt nauðsyn á að koma á heildarlöggjöf um þessi mál. Þegar við ræddum í fjhn. fyrir nokkru síðan um sölu á landi — mig minnir, að það væri í sambandi við sölu á jörð hjá Sauðárkróki — þá var okkur tveimur nm. falið að athuga, hvort ekki væri heppilegt að setja löggjöf um það, hvernig fara beri með þessar jarðir eftir á, sem seldar eru úr eigu ríkisins, til þess að hindra það, að þær kæmust úr eigu hreppsfélaganna aftur og enn fremur viðkomandi leigu á þessum jörðum, sem kæmi til með að verða, t. d. þegar þær eru leigðar sem lóðir. Við göngum út frá því um öll þessi landssvæði, sem verið er að selja, að því fyrr og því betur sem þessi svæði byggjast, því meir hækkar rétturinn til þessara landa í verði. Og hækkun á jörðum og lóðum er, bæði fyrir bóndann, sem býr þar, og eins fyrir þá, sem í bæjum búa, viðkomandi lóðunum, orðin ein mesta byrði og er orðin ein af undirrótum dýrtíðarinnar, eins og hún hefur verið hér á landi. — Ég vildi þess vegna aðeins nota tækifærið nú, um leið og þetta mál kemur hér fyrir, til þess að ítreka það, þar sem hér er nú sá hv. þm. úr fjhn., sem með mér var falið að athuga um þetta, að setja þarf ákvæði um það í löggjöf, að í fyrsta lagi megi alls ekki selja lönd, sem ríkið selur, öðrum en ríkinu, ef þau eru seld aftur af þeim, sem kaupir af ríkinu, og eins ákvæði um það, með hvaða kjörum leigja megi þessi lönd, t. d. sem lóðir. Það hefur sýnt sig, að leiga á jörðum og löndum í kaupstöðum er oft, hreinlega alveg það sama og sala, þegar verið er t. d. að leigja til 99 ára, hvað verðið snertir. Þegar t. d. var verið að leigja á Skagaströnd lóðir, þar sem ríkið átti landið, þá sýndi það sig, þegar verið var að kaupa leiguréttinn á þessum eignarlóðum ríkisins, að leigurétturinn kostaði stundum 3/4 af því verði, sem eignarrétturinn á þessum löndum eða lóðum hafði verið seldur. Það er þannig alls ekki nóg, að hindruð sé sala á þessum jörðum, sem ríkið selur, til annarra en ríkisins aftur. Það þarf að hindra það, að leiga á þessu sé fyrir svo langan tíma, að það jafngildi sölu. Um þetta þyrfti að setja löggjöf, því að það er alltaf að bætast við jarðirnar, sem verið er að selja með þessu móti, sem í þessu frv. er farið fram á.

Að því er snertir þessa jörð í Grímsnesinu, býst ég við, að þar sem Suðurlandsundirlendið er að verða með þéttbýlustu sveitum landsins, þá geti svo farið, ef ekki eru sett nein sérstök takmörk fyrir leigunni, að eftir eitt eða tvö ár vildi ríkið, að þessi jörð hefði ekki verið seld, heldur væri í sinni eign. Og ef ríkið þyrfti að kaupa jörðina aftur, gæti hún orðið á ekki hundruð þús. kr., heldur milljónir króna, eftir nokkur ár. Það er ákaflega skammsýn pólitík að mínu áliti, að ríkið selji svona jarðir.

Svo þarf að athuga, hvernig hægt sé að tryggja bændunum sjálfum raunverulegt vald yfir jörðum sínum, sem þeir vinna á, þ. e. möguleika til þess, að þessar jarðir gangi í arf til afkomendanna og hindra, að afkomendurnir þurfi að kaupa þær kynslóð eftir kynslóð og skulda þá fyrir þær allan tímann, sem þeir eiga þær.

Ég hefði verið fýsandi þess, að við hefðum beðið með þessar sölur á kirkjujörðum og þjóðjörðum, þangað til við gætum sett löggjöf um það, hvernig við viljum tryggja þennan rétt. Ef við hugsum okkur þetta land tíu sinnum þéttbýlla en það er nú, þá getum við gert okkur í hugarlund, hvað jarðarverðið gæti orðið með því að halda áfram á þeirri braut í þessum efnum eins og verið hefur. Hér í Rvík hefur lóðaverðið venjulega lafað í því að vera einn þriðji — stundum helmingur — á móts við verð húsanna, sem á þeim eru. — Og eigi eftir að koma þétt byggð á því landssvæði, sem verið er að ráðstafa hér með þessu frv., þá eru það ekki hundruð þús. eða milljónir, heldur mun það fara upp í tugi milljóna króna, sem það land kynni að kosta, þegar svo væri komið. — Ég segi ekki þetta í heild, sem ég hef tekið fram hér, út af sölu á Stóru-Borg í Grímsnesi út af fyrir sig, heldur almennt vegna þróunarinnar í þessum málum hjá okkur, sem ég held, að sé mjög óheillavænleg upp á framtíðina.