07.03.1947
Neðri deild: 88. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

137. mál, sala Stóruborgar í Grímsnesi

Frsm. (Jón Sigurðsson) :

Herra forseti. Ræða hv. síðasta ræðumanns gaf ekki tilefni til andsvara í sambandi við þetta mál, sem fyrir liggur, því að hún var fremur almennar hugleiðingar.

Þó get ég ekki látið hjá líða að minnast örlítið á þetta mál, sem hann veik að. Hann gat um — mér skildist í þessu sambandi —, að þessi jörð, Stóra-Borg, gæti orðið mikils virði síðar meir. Ég skal ekki um það dæma. Það má vel vera. En í því sambandi vil ég leyfa mér að benda á brtt. n., þar sem það er áskilið, að það er óheimilt að selja jörðina öðrum en ríkissjóði, og þá fyrir kostnaðarverð. Það þýðir, að það á þá, ef til þess kemur, að selja jörðina fyrir það verð, sem jörðin hefur verið keypt fyrir að við bættum þeim umbótum, sem gerðar hafa verið á jörðinni, eftir að hún er keypt af ríkinu. Og þó að þær umbætur yrðu talsverðar og til sölu kæmi á þessari jörð aftur til ríkisins, geri ég ekki ráð fyrir, að söluverðið yrði neitt nálægt þeim upphæðum, sem hv. 2. þm. Reykv. nefndi hér áðan.

En að því er snertir jarðeignir yfirleitt, þá hygg ég, að þar sé ekki því til að dreifa, að þar vanti löggjöf, til þess að þær jarðir, sem ríkið selur einstaklingum, verði ekki seldar óhæfilega háu verði. Það er svo ákveðið í okkar löggjöf nú, að þeir, sem kaupa jarðir af ríkinu, eru skyldir til þess að gera þær að ættaróðulum. Og um þær jarðir, sem eru ættaróðul, hefur verið sett sérstök og talsvert ströng löggjöf, sem, ef henni er framfylgt, á algerlega að fyrirbyggja þá miklu verðhækkun á jörðum, sem hv. 2. þm. Reykv. einmitt var að tala um og sem ég er alveg sammála honum um og við bændur, að er hættuleg fyrir landbúnaðinn. Sú löggjöf var beinlínis sett til þess að koma í veg fyrir það ástand, að börn þyrftu að kaupa fyrir stórfé af foreldrum sínum ábýlisjarðir sínar með síhækkandi verði og binda í þessu fjármagn, sem betur væri komið til annarra hluta. Um þetta er ég, og ég býst við margir búandmenn aðrir, hv. 2. þm. Reykv. sammála. En það, sem ég hygg, að vanti, er ekki löggjöf um þetta efni, heldur að löggjöfinni sé stranglega framfylgt. Og það er svo um fleira og ekki aðeins þessa löggjöf, heldur fleiri, að það er ærið nóg af lagaákvæðum til, en það er því miður misbrestur á, að l. sé framfylgt, eins og löggjafinn ætlast til.

En hvað snertir lönd og lóðir í kaupstöðum, þá játa ég, að ég er ekki þeim málum vel kunnugur. Má vel vera, að um þau mál sé úrbóta þörf.