14.04.1947
Efri deild: 117. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1503 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

137. mál, sala Stóruborgar í Grímsnesi

Frsm. (Eiríkur Einarsson) :

Þetta frv. er nú komið hér og, hefur gengið hljóðlaust gegnum Nd. Landbn. Ed. hefur haft það til meðferðar og leggur til, að það verði samþ. Að vísu hefur einn nm. skrifað undir álitið með fyrirvara, sem hann væntanlega gerir grein fyrir, í hverju er fólginn. Það þótti rétt að leita álits viðkomandi ráðuneytis um þetta mál, enda þótt það fylgdi með frv. úr Nd., að dóms- og kirkjumrn. mælti með því.

Í bréfi, sem mér barst sem form. landbn. Ed., og prentað er á þskj. 610 sem fskj., er meðal annars tekið fram, að ráðuneytið mæli með sölunni, þó með þeirri kvöð, að þar sem jörðin sé kirkjustaður, fái kirkjan að standa áfram á jörðinni og að söfnuðurinn hafi rétt til stækkunar á kirkjugarði og rétt til umferðar um land jarðarinnar til og frá kirkju.

Í þessu sambandi er rétt að benda á það, að hér er ríkið að selja jörð, en kaupandinn er hreppsfélagið, og þar af leiðandi getur seljandinn sett þau skilyrði, sem rétt sýnast, fyrir sölunni. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta nú.