04.11.1946
Efri deild: 9. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka menntmn., að hún hefur tekið málið að sér. Það er vitanlega ekki hægt að ætlast til, að hún hafi haft tíma til að athuga málið út í æsar, og því eðlilegt, að einstakir nm. hafi óbundnar hendur um afgreiðslu málsins.

Ástæðan til þess, að þetta frv. er fram komið, er sú, að löggjöfin um þetta efni er úrelt og stangast á við raunveruleikann. T. d. er í 2. gr. þessara gömlu laga ákvæði um, að ekki megi styrkja einn prestsbústað meira en 12 þús. kr. og ekki lána nema 8 þús. Nú er veitt til þessa á fjárl. um ½ millj., en það hrekkur ekki til nema 3–4 bústaða. — Frv. var samið af biskupsskrifstofunni, og valdi ég þann kost að láta það koma óbreytt fyrir þingið, enda þótt ég æski ef til vill einhverra breyt. á því.

Aðalákvæði þessa frv. felast í 16. gr. Þar er bæði ákvæði um styrk til hýsingar og svo um, hvernig endurgreiðslu skuli hagað. Um það skipulag, sem hér er lagt til, kann að vera nokkur ágreiningur. Hins vegar hefur það verið venja, að ríkið greiddi til hýsingar prestssetra, enda sýnist það allmikil nauðsyn, þar sem oft eiga í hlut ungir og eignalausir menn, sem orðið hafa að verja öllum sínum tekjum til náms. Kaflinn um peningshús er svipaður og í gömlu lögunum.

Ég mun ekki ræða þetta frekar við þessa umr., en vænti, að málinu verði hraðað og það nái fram að ganga, því að það hafa nú þegar skapazt örðugleikar í þessu sambandi, sem erfitt er að ráða fram úr nema með breyt. á núgildandi lögum.