06.11.1946
Efri deild: 10. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Gísli Jónsson:

Ég get að sjálfsögðu rætt efnishlið málsins nú og vildi einmitt benda á nokkur atriði áður en málið fer til 2. umr. og nefndar. Ráðherra vill nú lögbinda, að fjórir prestsbústaðir séu reistir á ári. En þetta er alveg ógerlegt og tekið í raun og veru fjárveitingarvaldið af Alþingi: Í öðru lagi er hér eitt atriði tekið út úr heilu kerfi, og er það raunar mun meira og stærra atriði. Skylt er nú að byggja, auk prestsbústaðar, læknisbústaði, kennarabústaði, skólastjórabústaði og yfirleitt bústaði flestra opinberra embættismanna. Hér er um að ræða a. m. k. 4 flokka jafnréttháa, og ef byggja á hlutfallslega yfir allar þessar stéttir, þarf árlega að byggja um 20 bústaði, og vil ég, að n. athugi, hvernig hún hugsar sér framkvæmd þessara mála og hvaða fjáröflunarleiðir hún kemur auga á í þessu skyni. Ég skal taka það fram, að persónulega hef ég ekkert á móti því, að byggt sé yfir presta. Ef hér væri um heildaráætlun um byggingar fyrir opinbera starfsmenn að ræða, væri allt öðru máli að gegna. En þegar eitt atriði er tekið út úr, eins og hér er um að ræða, þá tel ég, að það hljóti að leiða til öngþveitis. En ég skal taka það fram, að ég hef ákveðnar till. að bera fram í þessu máli, og vildi ég, að menntmn. tæki þær til athugunar. Till. þessar eru á þá lund, að ríkissjóði sé heimilað að selja allar kirkjujarðir í þeim sóknum, þar sem byggja þarf upp prestsbústaði, og komi söluverð jarðanna upp í byggingarkostnaðinn, og mun ég flytja brtt. í samræmi við þetta, ef menntmn. sér sér ekki fært að gera þetta að sínu áliti. Þessu til stuðnings skal ég nefna dæmi. Ákveðið hefur verið að flytja prestssetrið frá Stað á Reykjanesi að Reykhólum. Á Reykhólum er nú enginn prestsbústaður, og vilja menn, að hann sé nú reistur þar. Ríkissjóður á nú allmargar jarðir í Reykhólasveit, og mætti selja þær á ca. 200 þús. kr., enda hafa þessar jarðir aðeins orðið ríkissjóði til fjártjóns og skammar og eru í svo mikilli niðurníðslu, að auðveldlega má þekkja þær úr, þegar riðið er um sveitina. Nú er svo komið, að búast má við, að afnema verði lögin um sölu kirkjujarða, sem sett voru á síðasta þingi, enda voru þau blekking ein, þar sem jarðirnar voru leigðar endurgjaldslaust, þar til sami ættliðurinn vildi ekki lengur búa á þeim. Þegar svo verður, falla þær auðvitað aftur undir ríkissjóð. En sérstaka áherzlu vil ég þó leggja á það, að ekki er hægt að taka þennan eina flokk út úr, þegar engar ráðstafanir eru gerðar til að byggja yfir aðra embættismenn. Ekkert samræmi er heldur í því, að prestar greiði húsaleigu að 2/5, en læknar að 3/5, en ríkissjóður 2/5 með sérstöku tilliti til sjúkraskýla, sem ætlazt er til, að reist verði við læknisbústaðina. Síðan þetta komst á, hafa læknar beitt þannig valdi sínu, að þeir hafa kúgað fátæk sveitarfélög til að lækka húsaleiguna og sveitirnar hafa orðið að leggja hærri gjöld á almenning fyrir húsnæði handa mönnum, sem hafa 28–60 þús. kr. föst árslaun frá ríkinu. Ég sé, að hæstv. kirkjumrh. er mættur, og get ég því snúið máli mínu til hans. Hæstv. ráðh. var eitthvað óskiljanlega viðkvæmur við umr. í fyrradag. Veittist hann að mér og sneri út úr fyrir mér og talaði langt mál um, að þetta heyrði ekki undir skipulagsstjóra, heldur skipulagsnefnd. Ég veit ekki betur en skipulagsstjóri sé forstjóri skipulagsnefndar.

Ég mun ekki endurtaka það, sem ég hef sagt um 5. gr. frv. Það ætti hæstv. ráðh. að vera kunnugt um. En ég leyfi mér að benda þessum hæstv. ráðh. á það, að ef hann heldur fram tölum sínum frá í gær í fullri alvöru, þá er þar um að ræða 20 þús. kr. hækkun til prestanna í landinu. Í núverandi lögum er ákveðið, að þeir greiði 2/5 byggingarkostnaðar. Á þeim árum, er lög þessi voru sett, gilti öðru máli en nú, því að þá sátu prestarnir á sultarlaunum. Hér vill hæstv. ráðh. að farið sé inn á braut, sem hann sjálfur gerir sér ekki ljóst, hverjar afleiðingar hefur í för með sér.

Hæstv. ráðh. hélt því fram hér á Alþ., er launalögin voru á ferðinni, að engin hækkun mundi eiga sér stað hjá pósti og síma. Nú veit Alþ. og hæstv. ráðh., að útgjöld þessara stofnana hafa aukizt svo mjög, að hann hefur bókstaflega gefizt upp við að leysa þann vanda og flækju, sem hann er nú kominn í þar. Og ég bendi hæstv. ráðh. á, hvort sé ekki betra að athuga þetta mál nákvæmlega, og hvort hann sé ekki að stranda í þessu máli eins og hann hefur strandað í launalöggjöfinni, og hvort hann vildi ekki taka við hollráðum.

Samkv. 16. gr. mundi húsaleiga presta nema 1600 kr. á ári, en margir þeirra hafa nú sem stendur eitt og hálft prestakall og margir auk þess ýmis opinber störf, en hins vegar væri sjálfsagt að nota starfskrafta prestanna betur en gert er í mörgum prestaköllum, með tilliti til þeirra hlunninda í húsakosti, sem hér um ræðir. Hæstv. ráðh. hefur nýlega veitt presti brauð, þar sem undir hann heyra 11 bæir með 3 til fjóra menn á hverjum bæ. Slíkt finnst mér, að þurfi að athuga. Hæstv. ráðh. hélt því fram, að prestaköll stæðu auð vegna lélegra húsakynna. Ég veit nú samt um dæmi þar, sem mjög vel hefur verið byggt upp og presturinn setið svo sem eitt ár, en farið svo til útlanda og ekki komið í sína sókn meir.

Ég skal nú ekki deila meir við hæstv. ráðh. að sinni, en ég leyfi mér að biðja þá nm., sem koma til með að athuga þetta mál, að ræða þær till., sem ég hef bent á, og reyna að komast hjá því að baka ríkissjóði meiri fjárhagslega byrði en nauðsynlegt getur talizt.