11.12.1946
Efri deild: 31. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1511 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Menntmn. hefur haft fundi um þetta frv. og athugað það vel, þar eð málið er umfangsmikið og allmikið fjárhagsmál. Niðurstaða n. er sú, að hún leggur til, að frv. verði samþ. N. hefur ekki gert neinar stórbreyt. á frv., er snertir efni þess, en hún leitaði upplýsinga hjá biskupsskrifstofu, enda er frv. samið upphaflega að tilhlutan biskups.

Við 1. gr. frv. er ekkert að athuga. Þar er gert ráð fyrir, að rækileg athugun fari fram á öllum prestssetrum landsins á næstu 5 árum. Sú athugun skal leiða í ljós í fyrsta lagi, hver af núverandi prestssetrum séu vel til þess fallin að vera aðsetur prests í framtíðinni. Í öðru lagi, hvar æskilegt sé að færa prestssetur vegna breyttra aðstæðna. Í þriðja lagi, hver prestssetur eru vel fallin til skiptingar í fleiri jarðir og hvernig þeirri skiptingu yrði bezt fyrir komið, og í fjórða lagi að gera skipulagsuppdrætti af tilvonandi prestssetrum. Menntmn. taldi eðlilegt, að þetta heyrði ekki undir skipulagsstjóra, heldur skipulagsnefnd prestssetra, en skv. upplýsingum frá biskupsskrifstofu er starfandi skipulagsnefnd prestssetra frá dögum Björns Þórðarsonar, og starfar hún áfram. Við höfum lagt til, að við 4. tölul. 1. gr. bætist: Skipulagsnefnd prestssetra annist framkvæmd þessa. — Þá er búið að taka fram, hver á að annast þetta og er nauðsynlegt að ákveða það fyrir fram.

Þá er ekki ástæða til að gera breyt. fyrr en við 5. grein, sem er þannig : „Í fjárlögum skal árlega veitt nægilegt fé til byggingar 4 prestsseturshúsa að minnsta kosti, þar til lokið er að byggja upp sómasamlega öll prestssetur landsins. Áætlar húsameistari ríkisins byggingarkostnaðinn hverju sinni.“ Breytingin er sú, að við höfum sett „allt að“ í stað „að minnsta kosti,“ og er þá heldur dregið úr því, sem upphaflega var ætlazt til. Eins þótti okkur eðlilegt að fá upplýsingar frá biskupsskrifstofu um byggingarþörf prestssetra. Þær voru á þá leið, að nú eru 79 steinhús á prestssetrum landsins. Þar af eru 3 mjög léleg og ýms, sem þurfa mikilla endurbóta. Þessi hús eru léleg : á Brjánslæk, Sauðanesi og Auðkúlu. 34 timburhús eru á prestssetrum, flest gömul og hrörleg, en nokkur eru sæmileg. Talið er, að 24 þessara húsa þurfi að endurbyggja á næstu árum, og til þess að hv. þm. geti betur myndað sér skoðun um þetta, skulu þau nefnd hér. Þau: eru þessi: Eydalir, Kálfafell, Hof í Öræfum, Fellsmúli, Kálfholt, Hruni, Arnarbæli, Grindavík, Út-skálar, Reynivellir, Borg, Staðarhraun, Breiðabólstaður á Skógarströnd, Staður í Reykhólasveit, Sauðlauksdalur, Patreksfjörður, Rafnseyri, Holt í Önundarfirði, Staður í Súgandafirði, Staður í Aðalvík, Vatnsfjörður, Árnes, Grímsey og Kirkjubær í Hróarstungu. Tvo til þrjá þessara staða sitja ekki prestar og yrði þar þá ekki um neina endurbyggingu að ræða og ekki nema þar, sem talið er, að verði prestssetur framvegis. Skv. 1. gr.. frv. eru litlar líkur fyrir, að byggt yrði á Stað í Aðalvík. Tala þessara húsa getur því lækkað. Enn fremur hefur biskupsskrifstofa gefið þær upplýsingar, að gamlar og lélegar byggingar séu á : Odda, Setbergi, Flatey, Stykkishólmi og Völlum. En ekki er mjög aðkallandi að endurbæta þær. Lélegir torfbæir eru á: Hofteigi, Hvammi í Laxárdal og Tjörn á Vatnsnesi og verður ekki komizt hjá endurbótum á þessum stöðum. Upplýsingar um, að vanti prestshús algerlega, sem sé á: Mjóafirði, Djúpavogi, Ásum, Hvoli, Saurbæ, Laugarnesprestakalli og Dómkirkjuprestakalli. Talið er, að að þörf sé á 37–40 húsum á næstu 8–10 árum, sem svarar til, að reisa þurfi 4 hús árlega, ef útrýma ætti þeim verstu. — Þetta taldi ég ástæðu til að taka fram í sambandi við 4. gr., sem er þyngst á ríkissjóði, en þörfin er allbrýn, og þarf að bæta úr þessu á næstu árum.

Þá leggur n. til, að breytt sé orðalagi 7. gr. Þar er ekki efnisbreyt. á ferðinni, heldur að það efni komi skýrar fram, sem um er fjallað. — 9. gr. er ekki ástæða til að breyta, en við 1. umr. kom fram, að ósanngjarnt væri að skylda kaupstaði að leggja til ókeypis lóð undir prestsseturshús, en n. var á öðru máli í því efni. Við 11. gr. var gerð smávægileg orðalagsbreyt., þannig að í stað orðsins „brunabótafé“ komi: tryggingarfé. Við 1. umr. var á það bent, að heppilegt væri að láta prestana borga húsaleigu, en láta þá ekki borga viðhaldið. Hins vegar hélt n., að það kæmi sér betur fyrir ríkið að láta prestana annast viðhaldið sjálfa og hafa húsaleiguna lægri. — Við 12. gr. höfum við ekki gert breyt., þó að við 1. umr. væri talið, að ástæða væri til þess.

16. gr. fjallar um, hvað prestum er ætlað að greiða af prestsseturshúsum, og varð niðurstaðan sú að breyta því ekki að verulegu leyti. Það er ekki ætlazt til, að þeir greiði ýkja háa húsaleigu, en greiði opinber gjöld af húsunum og annist viðhald þeirra. Þessi gr. leiðir til þess, að sú upphæð, sem prestar greiða nú, fær verðlagsvísitöluálag. Við 3. tölul. 16. gr. leggur n. til, að hann verði orðaður ljósar, en ekki er þar um efnisbreyt. að ræða.

Ég hef þá gert nokkra grein fyrir efni þessa frv. og þeim breyt., sem n. telur æskilegar. Tveir nm. voru ekki viðstaddir afgreiðslu þessa máls hjá n. Það voru hv. 2. þm. Árn. (EE) og hv. þm. Seyðf. (LJóh), og er mér því ekki kunnugt um afstöðu þeirra til málsins.

Þá skal ég að lokum geta þess, að þegar við endurskoðuðum frv., höfðum við til hliðsjónar till. einstakra þm. og teljum, að ekki verði komizt hjá að setja lög um þetta efni.