11.12.1946
Efri deild: 31. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá frsm. menntmn., að ég og hv. þm. Seyðf. (LJóh) tókum ekki þátt í lokaafgreiðslu þessa máls í nefndinni. Það, sem olli því, af minni hálfu, var það, að ég treysti mér ekki til að gera þessar brtt. með n. og ekki heldur að koma sjálfur með brtt. á þessu stigi málsins. En þrátt fyrir það vil ég segja hér nokkur orð um þetta mál.

Það, sem ég tel einkum skorta á þetta frv., er, að það er ekki nógu gagngert. Það er ekki grafið niður á, klöpp, og ég viðurkenni, að það er hægara sagt en gert. — Þó að gert sé ráð fyrir því í frv., að gagnger athugun skuli fara fram á öllum prestssetrum í landinu á næstu fimm árum, tel ég, að laust sé á þessu tekið, og hefði mér þótt eðlilegt, að þessari athugun væri lokið áður en lög væru sett um þetta efni. Þessi aths. mín stafar ekki af því, að ég unni ekki íslenzku prestunum þess að hafa gott húsnæði, nema síður sé. Svo er mál með vexti, að verustaðir presta nú eru mjög breytilegir. Þar, sem öldum saman hafa búið prestar, er nú víða þannig komið, að presturinn hvorki getur né vill aitja þennan stað, að minnsta kosti ekki sem bóndi. T. d. í Árnessýslu eru tvö prestssetur, sem þurfa endurnýjunar við, Arnarbæli og Hruni. Arnarbæli hefur verið prestssetur um langan aldur, en nú er svo komið, að presturinn situr þar ekki lengur, heldur dvelur hann í Hveragerði. En ástandið í Hruna er næstum verra, því að presturinn þar hefur fengið sér leigt á næsta bæ, sem betur er hýstur, en gamli Hruni með dansinn og fylliríið er nærri í eyði, og dæmi sem þessi munu víðar finnast. Þetta ástand tel ég þörf á að rannsaka betur áður en lög eru sett. Ég held, að það sé yfirstandandi stór breyt. í þessu efni, og fram hjá henni verði ekki gengið við lagasetningu um hýsingu prestssetra.

Þá vil ég taka það fram hér, þó að það komi ekki beinlínis þessu máli við, að ég tel eðlilegt og rétt, að sveitastjórnirnar yrðu meira í ráðum um að ráðstafa þeim kirkjujörðum, sem ekki eru lengur prestssetur. Það varðar mest viðkomandi sveitarfélög, að þessar jarðir verði vel setnar, og þess vegna er þess að vænta, að með því fáist betri árangur.

Það má um það deila, hvort það sé illa farið, að prestarnir hætti að vera bændur um leið, þó að okkur finnist það sjálfsagt, eftir gamalli venju. Ef það aftur á móti verður til þess, að þeir sinni betur sínu aðalstarfi, þá er öðru máli að gegna, því að ekki veitir af. Þeir, sem áhuga hafa á trúmálum, hljóta að finna til af því, hvernig þeim málum er nú komið, þar sem tíðarandinn hefur tæmt kirkjurnar að mestu. Hverju það er að kenna, get ég ekki sagt um. Það er svo margt, sem kemur til greina, svo margt, sem tekur hugann nú á dögum. Ég álít, að hér sé um stórmál að ræða, sem ekki verði leyst með því að ýta fram byggingum á prestssetrum. Það þarf meira átak. Þetta er ekki árás á prestana, þeim verður ekki um það kennt, þó að rás viðburðanna hafi hagað þessu þannig. Ég viðurkenni, að það er mikill vandi að ráða fram úr þessu máli, en mér finnst ekki tekið á því nógu föstum tökum með þessu frv. Ég ámæli ekki flm. frv. og því síður meðnm. mínum. Ég veit ekki, hvort ég kem með brtt. við 3. umr., en vona, að flm. skilji, að ég hef góðan vilja í þessu máli. Ég skal svo ekki þreyta d. með lengra máli.