11.12.1946
Efri deild: 31. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1520 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Árn. hélt langa ræðu um það, hvað hann hefði við frv. þetta að athuga, og var það sérstaklega um það, að honum þætti ekki nóg á þessu máli tekið eftir ákvæðum frv. En þó hefur flest af því, sem hann nefndi sem agnúa á því, komið fram í þessu frv. og sæmilega fyrir því séð, sem hann taldi illa um búið. Hann tók sem dæmi færslu prestssetra úr sveitum í þorp. Samkv. 2. málsgr. 1. gr. á að fara fram rækileg athugun á því, hvar æskilegt geti talizt vegna breyttra aðstæðna að færa prestssetur, og þá hvert. Arnarbælisprestssetur hefur verið fært að Hveragerði vegna breyttra aðstæðna, en sá staður liggur bezt við samgöngum fyrir prestinn með tilliti til sóknar hans. Má vera, að enn betur væri um þetta búið, ef bætt væri aftan við þessa gr. skýlausu ákvæði um það, að hvergi skuli byggja samkv. þessum l. frv. fyrr en fram hafi farið þær athuganir, sem um getur í. 1.–4. málsl. gr., og ákvarðanir teknar samkv. þeim. niðurstöðum. Það hefði vel mátt bæta slíku við gr., og e. t. v. hefði hv. 2. þm. Árn. komið fram með brtt. í þá átt, ef hann hefði tekið frekari þátt í nefndarstörfunum en hann gerði. Hitt getur ekki orkað tvímælis, að ef tryggja á það, að prestar haldist við í sveitum landsins, verður að gera stórfellt átak í þá átt að breyta íbúðarskilyrðum á prestssetrum í dreifbýlinu.

Hv. 2. þm. Árn. gat um þá þróun, að prestarnir væru að hrökkva undan búskapnum. Þetta mun vera rétt að nokkru leyti, en þó veit ég til, að margir prestar leggja áherzlu á, að þeir standi í tengslum við sóknarbörn sín með því að hafa sömu aðstöðu og þau, og teldu sig standa höllum fæti til áhrifa á sóknarbörn sín, ef þeir byggju við önnur skilyrði en þau, og mér skilst, að það sé mikið rétt í þessu. En í inngangsgr. þessa frv. er gert ráð fyrir að skipta prestssetrum með það fyrir augum að setja bónda á nokkurn hluta prestssetursjarðarinnar, til þess að presturinn geti að verulegu leyti losnað undan búskapnum, ef það þykir æskilegra. Mundi þetta einkum gilda um stórar prestsseturs jarðir. Það er ekkert um það sagt, hver eigi að framkvæma þessa rannsókn, sem gert er ráð fyrir, að fari fram áður en byrjað er að byggja eftir þessu frv. En mér þætti ekki ólíklegt, eins og getið hefur verið til af hv. 1. þm. N-M., að það væri skipulagsnefnd prestssetra, sem ætti að gera það. Þessi n. mundi fá aðstöðu til að athuga vel hvert prestssetur, þar sem til byggingarframkvæmda er hugsað, og öll þau atriði, sem þar mundu koma til greina.

Einn hv. þm. hefur komið hér fram með þá skoðun, að leysa beri þetta mál, húsnæðismál prestanna, með einni löggjöf um embættismannabústaði. Má vera, að svo sé, en slík löggjöf liggur enn ekki fyrir þessu þingi. — Þá vildi hv. þm. telja, að þær upplýsingar, sem við höfum fengið á biskupsskrifstofunni, séu rangar. Ég fyrir mitt leyti treysti mér ekki til að rengja þær tölur, sem við fengum frá skrifstofu biskups, undirritaðar af honum sjálfum. Hv. þm. hélt því fram, að prestsseturshúsið að Hvammi í Laxárdal væri úr timbri, en svo mun þó ekki vera að öllu leyti. Hús þetta var byggt að einhverju leyti úr torfi og einhverju leyti úr timbri og er því vafasamt, undir hvaða flokk húsa það ætti að heyra. Hygg ég, að byggja megi á skýrslu biskups í öllum verulegum atriðum. Það var hv. 1. þm. N-M., sem benti á það, að athuga þyrfti gaumgæfilega, á hvern hátt ætti að steppa saman brauðunum og fækka þannig prestum og prestssetrum. Ég hygg, að þetta falli undir þá rannsókn, sem talið er, að fara verði fram samkv. 1. gr. Má vera, að slík rannsókn eigi ekki að framkvæmast af biskupi eða kirkjunnar mönnum sjálfum. Að öllum líkindum kæmi það til athugunar í skipulagsn. Í þeirri n. er m. a. Gústaf Jónasson skrifstofustjóri í stjórnarráðinu, og eru það því ekki eingöngu kirkjunnar menn, sem að þessu standa. Ég tók það ekki fram áðan, að ætlazt er til, að rannsókn sú, sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv., fari fram á næstkomandi 5 árum, og tel ég að vart verði hægt að framkvæma hana á miklu skemmri tíma.

Ég veik að því áðan, að ég gæti fellt mig við, að sett væri löggjöf eins og hv. 1. þm. N-M. benti á um embættismannabústaði, en hún er bara enn ekki undirbúin og mælir margt með því, að ekki verði beðið með að setja löggjöf um hýsing prestssetra þangað til slíkt frv. liggi fyrir og því ekki vikið frá þessu frv. En verði sett löggjöf um embættismannabústaði, mundu prestssetur heyra þar undir, svo framarlega sem þau heyra undir það, sem viðkemur bústöðum sýslumanna og lækna og yfirleitt annarra embættismanna. En það horfir dálítið öðruvísi við með prestana, þar eð hjá þeim er um að ræða jarðnæði einnig, og því álít ég, að það beri að gera aðrar ráðstafanir viðvíkjandi þeim en læknum og sýslumönnum, sem ekki þurfa að hafa bústaðaskipti í sveit. Ég er því ekki alveg viss um, að hentugt væri að leysa bústaðamálefni allra embættismanna með einni og sömu löggjöf.

Mér skildist af ræðu hv. þm. Barð., að hann ætlaðist til, að bygging prestssetra í kaupstöðum yrði kostuð af ríkissjóði aðeins að nokkru leyti, t. d. hlutum. En þá geri ég ráð fyrir, að hv. þm. ætlist til þess, að hinir 2/5 hlutar kostnaðarins verði greiddir af viðkomandi bæjarfélagi. Er það ekki rétt skilið? (GJ: Nei). Eða af embættismönnunum sjálfum? (GJ: Vitanlega). Það held ég, að sé ekki hliðstæða við byggingar embættismannabústaða lækna, enda erfitt að koma því við, ef læknaskipti yrðu eftir að húsið yrði byggt. Ég hygg, að ef sjá á fyrir húsnæðismálum presta á líkan hátt og annarra embættismanna, sem byggt er fyrir, þá verði það að gerast, bæði í sveitum og kaupstöðum, á þann hátt, að embættismenn á hvorum tveggja stöðunum njóti um þetta sömu hlunninda.. Þrátt fyrir þá ábendingu hv. þm. Barð. um þetta þykist ég ekki hafa fengið rök fyrir því, að sérstök ákvæði eigi að gilda um húsnæðismál presta í kaupstöðum og kauptúnum, önnur en gagnvart prestum í sveitum. En það verður samt annað en húsnæðisaðstaða, sem gerir það að verkum, að bæði prestar og læknar og aðrir embættismenn vilja jafnan heldur vera embættismenn í kaupstað, og ég hygg, að ekki væri hægt að jafna metin í þessu efni með því einu að mismuna þeim í húsnæðisaðstöðu.

Ég tek það aðeins fram að síðustu, að ég tel sæmilega um það búið í upphafi þessa frv., að ekki verði flanað að því að leggja of fjár í byggingarkostnað á þeim prestssetrum, sem augljóst er, að færð verði til eða sameinuð öðrum í náinni framtíð.