27.02.1947
Efri deild: 81. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

24. mál, tekjuskattsviðauki 1947

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Ég er sammála hv. þm. Barð. um, að það er nauðsynlegt að endurskoða skattalögin, en ég held, að sú endurskoðun geti ekki farið fram á þessu þingi, svo að í lagi sé, úr því að ekki var byrjað á henni af fyrrv. ríkisstj. Ég held, að þingið endist ekki til að afgreiða almennilega endurskoðun þessara laga, t.d. tekju- og eignarskattslaganna, þannig að það komi að gagni fyrir þessi fjárlög, og því er ég á þeirri skoðun, að ekki megi stöðva þetta mál að svo stöddu. Hvað við kemur afstöðu hv. 8. landsk., virðist mér, að hann telji ekki eins mikla þörf á að afgreiða þetta mál og áður en stjórnarskiptin urðu. Ég held, að það sé nú misskilningur. En það verður að ráðast um það, hverjir fylgja málinu og hverjir ekki. Ég álít, að ekki megi tefja það.