16.12.1946
Efri deild: 34. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1532 í B-deild Alþingistíðinda. (2178)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Herra forseti. Það er langt frá því, að ég ætli að fara að hlaupa í skarðið fyrir hv. 3. landsk. Hann er fullkomlega maður til að svara fyrir sig. Ég mun því ekki gera einstakar till. að umtalsefni, en aðeins víkja nokkrum orðum að störfunum í nefndinni. — Það er þá fyrst, að hv. þm. Barð. sagði, að hv. 3. landsk. hefði farið rangt með, þegar hann hefði talað með till. n., því að fram hefði komið önnur skoðun frá hv. 2. þm. Árn., sem á sæti í nefndinni. Ég vil af þessu tilefni taka það fram, að n. á hverjum tíma eru þeir, sem mæta á fundi, a. m. k. ef ekki liggur fyrir yfirlýsing frá fjarverandi nm., að þeir séu forfallaðir eða hafi aðra ástæðu til fjarvistar. Ég minnist þess, að á næstsíðasta reglulegu Alþ. voru lagðar fram frá fjhn. till. í mikilsverðu máli meðan ég var veikur og gat ekki verið við afgreiðslu málsins. Ég gerði aths. um þetta hér í hv. d., en hún var ekki tekin til greina og þskj. ekki leiðrétt. Öðruvísi stendur á hér. Fundir í n. voru boðaðir með nægum fyrirvara, ef þeir voru ekki á venjulegum tíma, og það hafði ekki komið tilkynning frá hv. 2. þm. Árn., að hann væri forfallaður, og ég get ekki annað séð en það sé rétt, að n. hafi litið svo á, þ. e, a. s. þeir, sem á fundi voru. Mér virtist á ræðu hv. 2. þm. Árn., að hann hefði misskilið mig, þar sem ég vék að þessu við 2. umr. málsins. Ég var ekki að láta í ljós neinar ákúrur eða vantraust til hans, þó að hann hefði aðra afstöðu. Þegar málið var tekið til flutnings, var það gert eins og venjulega, án þess að einstakir nm. bindu sig við einstök atriði málsins, og þarf ekki að vera, að allir séu samþykkir málinu. En mér hefði þótt eðlilegra, að hv. 2. þm. Árn. hefði komið með sínar till. í n. Við meðnm. hans fáum ekkert um þær að vita fyrr en hér í deildinni.

Ég vil svo aðeins víkja að einu atriði hjá þessum hv. þm. Hann taldi, að málið væri flausturslega undirbúið og vafi á, hvort þær byggingar, sem gerðar yrðu samkvæmt því, yrðu eftirleiðis prestsbústaðir. Nú er málinu vafalaust að mörgu ábótavant, og kann vel að vera, að ýmislegt þyrfti að athuga betur. En hitt er vafalaust, að betra er, ef frv. er samþ. en ekki, því að samkv. frv. er einmitt fyrirskipaður ýtarlegur undirbúningur áður en hafizt er handa um byggingu. Þessa undirbúnings hefur ekki verið krafizt. Ég held því eindregið fram, að að þessu sé umbót. Hv. þm. sagði, að ekki væri vert að setja lög um þetta, það mætti setja það í fjárlög (EE: Til bráðabirgða). Já, til bráðabirgða, en er þá ekki einmitt meiri hætta á, að féð verði einmitt notað til að byggja ekki yfir presta. Ég held því fram, að betra sé að samþ. frv. Þar er t. d. mælt svo fyrir í 1. gr. að athuga, hver af núverandi prestssetrum séu bezt fallin til að vera aðsetur prests í framtíðinni og í 2. lið, hvar æskilegt geti talizt, vegna breyttra aðstæðna, að færa prestssetur, og þá hvert, og í 3. lið, hver prestssetur séu bezt fallin til skiptingar í fleiri jarðir og hvernig þeirri skiptingu yrði bezt fyrir komið. (EE: Hver á að gera þá athugun?). Það er tekið fram í brtt. nefndarinnar. Hv. þm. Barð. sagði, að n. væri ekki til, því að hún hefði aldrei verið sett með lögum. Ég vildi mega benda hv. þm. á, að það eru til margar n., sem aldrei hafa verið settar með lögum. Ýmiss konar löggjöf er og til, sem vísar til stofnana, sem ekki eru til samkvæmt lögum. Eru ekki Alþýðusambandi Íslands og Búnaðarfélagi Íslands falin ýmiss konar störf með lögum? Þau eru þó hvorugt til vegna löggjafar. Nei, sannleikurinn er sá, að þessi n. er til. Mér dettur ekki í hug að halda, að biskupinn hafi sagt það ósatt, að fyrrv. kirkjumálaráðherra, Björn Þórðarson, hafi skipað þessa nefnd. (GJ: Er það eilífðarnefnd?). Það er hún vafalaust ekki, en hún fær þarna verkefni. (RV: Verkefnið á að leysast á 5 árum). En hún er vafalaust takmörkunum háð, eins og önnur mannanna verk.

Það er alveg rétt hjá hv. 3. landsk. þm., að prestar hafa alltaf haft bústaði frá upphafi vega. Að vísu voru það einstakir höfðingjar, sem áttu kirkjurnar, og sáu þá jafnframt prestum fyrir bústöðum. En það kemur ekki málinu við, þó að leigan sé nú tekin af launum, en áður var hún hluti af laununum, en það er þess vegna alveg rétt hjá hv. 3. landsk., að prestunum hefur alltaf verið séð fyrir bústað. Það hefur þótt eins sjálfsagt eins og presturinn sjálfur.

Að öðru leyti sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta.