18.12.1946
Efri deild: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Hannibal Valdimarsson:

Það var tilviljun ein, sem réð því, að mér var falin framsaga í þessu máli. Ég hafði við 2. umr. aflað og komið fram með nokkrar upplýsingar varðandi ástandið í húsnæðismálum prestanna. Hv. þm. Barð. sagði, að ég hefði sótt málið meira af kappi en sannleiksást, og taldi, að þær upplýsingar, er ég lagði fram, væru rangar m. a. af því, að tala steinhúsa nú hefði ekki verið sú sama og fyrir 2 árum. En þær upplýsingar eru í stuttu máli þessar: Á prestssetrunum eru nú 79 steinhús, þar af 3 léleg, 34 timburhús, þar af 24 léleg, og 3 torfbæir, allir lélegir. Algerlega vantar byggingar á 7 stöðum. Af þessu er ljóst, að byggja þarf upp á 37 stöðum á næstunni. Þrátt fyrir fullyrðingar hv. þm. Barð. um það, að þessar upplýsingar séu rangar, skal ég endurtaka, að þær eru réttar, enda fengnar frá, sjálfri skrifstofu biskups, og gefa þær glögga mynd af ástandinu í húsnæðismálum þessarar gömlu og virðulegu embættismannastéttar. Enn fremur fullyrti hv. þm. Barð., að það stæði til að byggja yfir sr. Jakob Jónsson. Þetta hefur nú verið leiðrétt af biskupi, sem aftur á móti hefur upplýst, að til standi að byggja yfir þá sr. Garðar Svavarsson og sr. Jón Thorarensen. Hv. þm. Barð. sagði, að sr. Jakob Jónsson hefði góða íbúð, og þyrfti ekki að byggja yfir hann. Það stendur ekki heldur til. En verði einhverjar breytingar á húsnæði sr. Jakobs, kemur það ekki þessu máli við og ekki kirkjumrh., heldur fjmrh. Það er ekki nema sanngjarnt að byggja nú yfir þá sr. Garðar og sr. Jón, því að árum saman hefur verið neitað um þær byggingar vegna bygginga yfir sveitapresta, og nú stendur til að byggja þessar íbúðir og hefur fengizt leyfi kirkjumrh. til þess.

Hv. þm. Barð. kom hér með tölur um kostnað við byggingu prestsbústaða, og hafði hann þær frá starfsmanni húsameistara ríkisins. Aftur á móti fékk ég kostnaðartölurnar frá húsameistara sjálfum, og voru þær 180–200 þús. kr., enda þótt hv. þm. Barð. segði, að ég hefði sagt 160 þús. kr. Ég vil nú ekki fullyrða, hvort réttari séu þær tölur, er ég fékk hjá húsameistara, eða þær, er hv. þm. Barð. fékk hjá starfsmanni hans, en það er alveg óþarfi að vera að ásaka mig fyrir ósannindi, þegar ég hef yfir tölur, sem ég hef fengið hjá húsameistara eða biskupi. En sem sagt, prestsbústaðir hafa undanfarið verið tiltölulega ódýrir, eða frá 140–160 þús. kr. yfirleitt og jafnvel enn ódýrari, eins og t. d. á Valþjófsstað, en byggingin þar kostaði 120 þús. kr., og lét hv. 1. þm. N-M. í ljós undrun sína yfir því, hvað sá bústaður hefði verið ódýr í samanburði við dýralæknisbústaðinn á Egilsstöðum. Sýna þessar tölur, að af trúnaði og myndarskap hefur verið fjallað um byggingarmál prestanna. Í þessu frv., er hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að byggja yfir allt að fjóra presta á ári, og mundu þær byggingar kosta allt að 600 þús. kr. En ef byggja á tvær af þessum byggingum í Reykjavík, yrði kostnaðurinn skv. útreikningi húsameistara allt að 700–800 þús. kr. En hér er ekkert verið að láta Reykjavík sitja fyrir, heldur er verið að bæta upp þá bið, sem hefur undanfarið verið á byggingum prestsbústaða í Reykjavík. Hv. þm. Barð. telur ríkinu ofvaxið að byggja yfir allt að 4 presta á ári. Á síðasta þingi var ákveðið að byggja yfir 1–2 héraðsdómara á ári, og eru þeir þó ekki nema 20, en prestarnir yfir 100, og er þetta því ekki nema sanngjarnt og get ég ekki séð, að það sé ríkinu á neinn hátt ofvaxið. Það er affarasælla að byggja eitthvað á hverju ári en fresta því þangað til seinna í þeirri von, að það verði hagkvæmara þá, því að lengi getur dregizt að gera stóra átakið. Hv. þm. Barð. hélt því fram, að ef frávísunartill. hv. 1. þm. N-M. yrði samþ., þá stæðu lögin um hýsing prestssetra í fullu gildi. Það væri auðvitað bezt fyrir prestana, því að prestar þeir, sem búa í eldra húsnæði en 1939, þurfa ekki að greiða nema 400 kr. í húsaleigu á ári. En ég held, að þetta væri ekki eins gott fyrir hag ríkissjóðs, sem hv. þm. Barð. ber svo mjög fyrir brjósti.

Fyrirskipa skal mat á húsnæði presta. Sum prestssetur eru metin á 6–7 þús. kr. á ári. Fjöldi presta greiðir 400 kr. fyrir húsnæði sitt, en aðrir 6–7 þús. kr. Þetta er mikill ójöfnuður og ósanngirni. Í síðara tilfellinu er þetta brot á fyrri l. um húsnæði presta, sem hafa nær alltaf haft frítt húsnæði frá fyrstu tíð. Með þessu eru ákvæði fyrri 1. úr gildi fallin, nema ef vera skyldi 2. gr. l., sem er þó allvafasamt. Vegna þessa verður að setja ný lög. Samkv. lögum verður húsaleigan greidd með vísitöluálagningu, miðað við 400 kr. í grunn, þá mun það skapa ríkissjóði 12–15 þús. kr. tekjuaukningu og þetta nema um 50–60 þús. á ári.

Við síðari umr. gat ég þess, að till. hv. þm. Barð. kæmi ekki í veg fyrir byggingu prestssetra. Og ég skil ekki, ef hv. þm. Barð. vill ganga á móti loforðum í þessu efni, sem hafa verið gefin biskupi af Alþingi. Það, sem nú á að gera, er að byggja á prestssetur í Laugarnessókn og Nessókn fyrir 100–200 þús. kr. hvert. Þriðja prestssetrið er að Ásum. Þess vegna leggur n. til, að fjárveitingin nemi 650–750 þús. kr., sem er samhljóða bréfi biskups til kirkjumálaráðuneytisins, sem var einnig sent hv. fjvn. Þau rök hv. þm. Barð., að bíða þurfi með að byggja yfir prestana þar til byggja verði yfir læknana og að þetta þurfi nánari athugunar við vegna þess, er rökleysa. Ef frv. þetta nær samþykki, verður það ekki til tjóns, síður en svo.

Till. þm. Barð. um sölu kirkjujarða er vitleysa ein og stingur í stúf við gildandi l. Það er engin ástæða til þess. Ef prestssetur er flutt, skal ríkið byggja á hinum nýja stað. Er prestssetrið var flutt frá Hesti til Hvanneyrar, þá skuldbatt ríkið sig til að byggja að Hvanneyri, en Hestur var afhent ríkinu. Það er augljóst mál, að þegar prestssetur er flutt, er sanngjarnt, að ríkið, sem fær hið niðurlagða prestssetur til umráða, kosti byggingu yfir prestinn á hinum nýja stað. Það, sem vinnst með því að samþykkja þetta frv., er einkum þetta: Á næstu árum verði rannsakað, hver af núverandi prestssetrum séu vel til þess fallin að vera aðsetur prests í framtíðinni. Hvar æskilegt sé vegna breyttra aðstæðna að færa prestssetur til og þá hvert. Hvaða prestssetur séu til þess fallin að vera skipt í fleiri jarðir. Gerðir verða skipulagsuppdrættir af öllum prestssetrum og ekki byggt upp á þeim fyrr en slíkt skipulag hefur hlotið staðfestingu kirkjumrh. og biskups. Þessi skipulagning verði framkvæmd af skipulagsnefnd. Í henni eru: Síra Sveinn Víkingur, fulltrúi í kirkjumálaráðuneytinu, og skipulagsstjóri, Hörður Bjarnason. Með samþykkt þessa frv. er því lagður réttur grundvöllur til þess að koma í veg fyrir skipulagsleysi og ringulreið í framkvæmd þessara mála.

Þá er því slegið föstu, að gengið skuli að því verki á næstu 10 árum að útrýma lélegum prestsbústöðum allt að 4 á ári, í stað þess sem nú er skylt að byggja tvo. Upp í byggingarkostnaðinn komi andvirði niðurlagðra bæjarhúsa á prestssetrunum ásamt álagi á þau og innistæða fyrningarsjóðs í Söfnunarsjóði Íslands. En afgang byggingarkostnaðar skal úr ríkissjóði greiða. — Kirkjumrh. ákveður eftir till. biskups, hvar skuli byggt. Bæjar- og sveitarfélög eru skylduð til að leggja til ókeypis lóðir undir prestssetrin, þar sem kirkja eða ríki eiga ekki land fyrir. Þannig verður það eins um land allt.

Ég held því fram, að með samþykkt þessa frv. sé um fjárhagslegan ávinning að ræða. Og ég skil ekki andstöðu hv. þm. Barð. til þessa máls og tel óráð að fresta afgreiðslu þessa máls með tilliti til alhliða embættismanna löggjafa, og ef þetta frv. fylgdi því, mundi heildarlöggjöfin kosta mun meiri fjárútlát en með þessu frv.

Ég fer svo ekki um þetta fleiri orðum. Frv. hefur verið vel undirbúið. Menntmn. hefur gefið þær upplýsingar í málinu, sem unnt hefur verið. Samþykkt frv. þessa mun koma samræmi á þessi mál, því að um 40 prestssetur á landinu geta vart kallast mannabústaðir.