13.01.1947
Efri deild: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (2186)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég er víst búinn að tala svo oft í þessu máli, að ég verð að syndga upp á náðina hjá hæstv. forseta, og mun því reyna að vera ekki langorður.

Það eru tvö meginatriði, sem ég þarf að svara hér, sem fram komu hjá hv. 3. landsk. þm. (HV), er mál þetta var hér síðast til umr. Því hefur alltaf verið haldið fram, frá því að þetta mál kom til umr., bæði af hæstv. ráðh. og frsm., að kostnaður við byggingu prestssetra væri frá 150 til 180 þús. kr., eftir því, hvort byggt væri í sveit eða kaupstað. Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að lesa upp bréf frá húsameistara ríkisins, sem hann hefur skrifað til mín varðandi þetta mál, en ég taldi mér skylt að fá upplýsingar vegna fjárveitingarnefndar, hvort ætti að áætla kostnað þessara framkvæmda 150, 180 eða 350 þúsundir, eins og ég hafði haldið fram. Bréf húsameistara er dagsett 16. des. og hljóðar þannig — með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt ósk yðar, hr. form. fjvn. Alþ., skal ég tjá yður, að ég álít núverandi byggingarkostnað prestsseturshúsa þeirra, er reist hafa verið í Reykjavík, þennan:

Garðastræti nr. 42 kr. 249.000.00

Auðarstræti nr. 19 kr. 246.000.00

Engihlíð nr. 9 kr. 274.000.00

sem nú stendur til, að reist verði; þetta er með tilliti til stærðar húsanna, en án girðingar og lóðarlögunar.“

Enn fremur get ég upplýst, með tilvísun til upplýsinga frá sömu skrifstofu, að kostnaður við lóðargirðingar er frá 50 að 70 þúsund kr. með núverandi verðlagi, og vitanlega verður ekki hægt að komast hjá að greiða einnig þennan kostnað. Ég hygg því, að hv. 3. landsk. þm. verði að viðurkenna, að ég hafi farið með rétt mál, þegar ég hélt fram, að byggingarkostnaður prestsseturshúsa í Reykjavík yrði 350 þús. kr. Ég sé ekki ástæðu til að ræða nánar um þetta atriði, en vildi aðeins láta þetta koma fram til þess að sýna, að ég hafi farið með rétt mál í sambandi við þessar upplýsingar.

Hv. frsm. upplýsti hér eitt athyglisvert atriði við síðustu umr. um þetta mál, þegar hann sagði, að n. hefði haft tilhneigingu til þess að fylgja þeirri tilhögun um byggingu prestsseturshúsa, að slíkar framkvæmdir á jörðum hins opinbera yrðu látnar ganga fyrir, ef ekki hefði verið upplýst, að búið væri að tilkynna prestum hér í Reykjavík, að byggt yrði yfir þá á árinu 1947, og að fyrir þessu mundi vera ráðherrabréf. Ég vil upplýsa í sambandi við þetta atriði, að ég hef spurt hæstv. fjmrh. um þetta, og telur hann sig ekki vita um þessar ráðstafanir. Hann telur sig aðeins vita um það, að lofað hafi verið að byggja hér yfir einn prest, séra Jakob Jónsson, en þó með því skilyrði, að upp í þennan kostnað yrði selt hús, sem ríkið á nú, svo að ekki þyrfti að vera mikill munur þarna á milli til þess að koma upp þeim bústað. Nú skildist mér á hv. frsm., að búið væri að gefa út ráðherrabréf um, að byggðir skuli tveir prestsbústaðir hér í Reykjavík á þessu ári og að til þessara framkvæmda eigi að ganga það fé, sem tekið er upp á fjárl. til bygginga prestssetra. Ég tel nauðsynlegt að fá nánari upplýsingar um þetta, því að fjvn. hefur haft allt annan skilning á þessu máli og mun ef til vill leggja til, að því fé, sem tekið er upp á fjárl. í þessu skyni, verði ekki varið til bygginga prestsbústaða í Reykjavík. Ég tel, að hæstv. kirkjumrh. hafi ekki haft leyfi til þess að gefa út slíkt erindisbréf til prestanna til þess að binda Alþ. með þessa fjárveitingu. Þykir mér miður, ef þetta skyldi rétt vera, en tek hv. 3. landsk. þm. ekki of trúanlegan og treysti, að þessi ummæli hans séu á misskilningi byggð.

Í þriðja lagi hef ég haldið fram undir umr., að upplýsingar í sambandi við prestsbústaði almennt hafi ekki verið áreiðanlegar, hvorki hvað snertir tölu prestsbústaða né þann kostnað, sem bygging þeirra hefði í för með sér, og skal í því sambandi benda á atriði. Hv. frsm. hefur haldið því fram, að þær upplýsingar, sem hann gaf fjvn. á sínum tíma við framsögu máls þessa, hafi verið réttar, m. a. það, að nú væri búið að byggja 79 steinhús, en á þskj. 761 frá 64 löggjafarþ. er gefið upp, að það séu 63 steinhús. Ef þessi 16 steinhús, sem þarna ber í milli, hafa verið byggð á árinu sem leið, þá hlýtur að hafa rætzt betur úr þessu máli en við vitum um, og veit ég ekki, hvaðan komið hefur fé til þess að byggja þessi 16 steinhús. Ég hygg því óhætt fyrir hv. frsm. að viðurkenna, að þær upplýsingar, sem hann hefur látið fjvn. í té um þetta mál, séu ekki í samræmi við þær upplýsingar, sem Alþ. hafa verið veittar, og ef hér skakkar 16 bústöðum, þá má líka búast við, að eitthvað hafi ruglazt til um aðrar þær upplýsingar, sem hans herradómur hefur troðið inn á n. Með þessum rökum vil ég vísa á bug öllum hinum þungu ásökunum hv. 3. landsk. í minn garð. Hef ég lagt hér fram skýr gögn til staðfestingar framburði mínum, sem ég vona, að tekin verði gild, og vænti, að hv. 3. landsk. þm. biðjist afsökunar á því fleipri, sem hann hefur haft í frammi í sambandi við þetta mál.