13.01.1947
Efri deild: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (2187)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það ætti að fara að verða ástæðulítið að fjölyrða um þetta mál, svo mikið er búið um það að segja. Ég var hér seinast, þegar mál þetta var til umr., með ýmsar upplýsingar viðvíkjandi því, en þá gafst hv. þm. Barð. ekki tími til að vera viðstaddur umr. til enda, og er líka auðheyrt, að þær upplýsingar, sem þá voru gefnar, hafa farið fram hjá honum.

Það hefði ekki þurft að vera neitt á huldu fyrir honum til hvers eigi að verja því fé, sem sett verður á fjárl. þessa árs, því að það upplýstist hér seinast, að beðið væri nú um fé til prestsseturs fyrir Laugarnessókn, Nessókn og enn fremur fyrir prestssetur að Ásum. Þetta endurtek ég nú, til þess að það fari ekki enn á ný fram hjá hv. þm. Barð. Enn fremur var þá upplýst, að eitthvað fé vantaði til prestssetra, sem nú væri verið að byggja, og að fjárbeiðnir lægu fyrir um 650 til 750 þús. kr. Hv. þm. Barð. vitnaði síðan í áætlun um, hvað það kostaði nú að byggja prestssetur hér í Reykjavík, og hefur um það haft ýmsar upplýsingar. Þegar hann kom fyrst með upplýsingar um þetta efni, sagði hann, að kostnaður við þessar framkvæmdir væri áætlaður 360 þús. kr., og að hann hefði þetta frá skrifstofu húsameistara ríkisins. Nú kemur hann enn með nýjar tölur frá sama aðila, en tugþúsundum króna lægri en áður. Menn sjá því, að tölur hans eru alltaf að breytast og heldur á niðurleið, og benda því líkur til, að ef nokkur tími liði enn, kæmust tölur hv. þm. Barð. til nokkurs samræmis við þær, sem herra biskupinn hefur gefið n. upp, en svo mikið er víst, að það er alveg gagnslaust fyrir hv. þm. Barð. að halda því fram, að við höfum hér farið með rangar tölur. Við höfum haft fyrir okkur skrifleg gögn og upplýsingar í þessum efnum, sem við berum meira traust til en umsagnar þm. Barð., sem sannast að segja hefur tekið á þessu máli af of mikilli andúð, og munu áætlunartölur hans um byggingarkostnað hafa litla þýðingu fyrir afgreiðslu málsins. Það er miklu nær að spyrja reynsluna, hver kostnaður við byggingu prestssetra úti í sveitum landsins og í kaupstöðunum hafi verið, en hún sýnir, að þessi kostnaður hefur numið frá 120 upp í 180 þús. kr., og er því ekki hægt fyrir form. fjvn., hv. þm. Barð., að vera sífellt að tönnlast á einhverjum áætlunartölum.

Hv. þm. Barð. kom nú með upplýsingar frá hæstv. fjmrh. um, að ef til vill stæði til að gera breytingar á bústað séra Jakobs Jónssonar. Þetta hefur áður verið upplýst hér í hv. d. og er vitanlega utan við þetta frv. og þessi l. Hér var um að ræða ráðstafanir — alveg sér á parti — milli hæstv. fjmrh. og viðkomandi prests, ef til þessarar framkvæmdar eða breytingar kæmi, sem ekki er líklegt, að mundi hafa mikil aukin útgjöld í för með sér, en hv. þm. Barð. er búinn að gefa í skyn, að til stæði að byggja á þessu ári yfir séra Jakob, sem er eintómur misskilningur.

Ég sé ekki mikla ástæðu til að fjölyrða um þetta, því að upplýst er, að ef frv. verður ekki að l., þá sitja fjöldamargir prestar, einmitt vegna ákvæða gildandi l., í mjög lágri húsaleigu, þ. e. frá 320–400 kr. á ári, en sumir verða aftur á móti að hlíta mati á húsaleigu fyrir prestsbústaði, en það mat hefur farið upp í 6–7 þús. kr. Hins vegar er hægt að samræma þetta, ef frv. verður að l., og auk þess mundi ríkissjóður fá 50 til 100 þúsundum króna hærri húsaleigutekjur á ári af hinum eldri prestssetrum, en að sjálfsögðu fylgdu þessu nokkuð aukin fjárútlát vegna byggingar nýrra prestssetra, enda er það gefinn hlutur, að ekki verður hægt að komast hjá því að byggja upp þau prestssetur sem nú mega teljast óviðunandi, og er ekki hægt að færa nein rök móti því. Eins og ástandið er nú í þessum efnum, er því áreiðanlega ekki of langt gengið, ef byggðir verða fjórir prestsbústaðir á ári, en að koma þessu máli í sómasamlegt og gott horf tekur áratugi.

Á síðasta þ. voru hér afgreidd l. um að byggja einn til tvo bústaði handa héraðsdómurum landsins, sem eru innan við 30 að tölu, en hér er farið fram á að byggja allt að fjórum bústöðum fyrir stétt, sem er skipuð rúmlega 100 manns, og er vitað, að húsnæðisástæður þeirrar stéttar eru mun verri en hinnar.

Nauðsyn þess að bæta úr húsnæðismálum prestastéttarinnar orkar ekki tvímælis, og hygg ég, að ég megi segja það fyrir hönd menntmn., að við leggjum áherzlu á, að frv. verði afgr. sem lög frá þessu þ., en að frávísunartill., sem hér liggur fyrir, verði felld.