07.03.1947
Efri deild: 87. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta mál var hér lengi til umr. í d. í haust og var athugað mjög gaumgæfilega í menntmn. og sætti auk þess mikilli athugun í d. Nú er það komið aftur frá hv. Nd., og hefur á því orðið þar ein breyt. Sú breyt, er á 5. gr. frv. Í þeirri gr. var ákvæði um það, að í fjárl. skuli árlega veitt fé til þess að reisa 4 prestsseturshús að minnsta kosti, þar til lokið er að byggja upp öll prestssetur landsins. En Nd. breytir þessu ákvæði á þann veg, að reisa skuli prestsseturshús svo fljótt sem auðið er, eftir því sem fé er veitt í fjárl. til þess. Þetta kom til tals, þegar málið var til umr. hér í hv. d., og kom þá fram brtt. frá hv. þm. Barð., sem fór í sömu átt, en var felld. En upphaflega var það svo í frv. eins og ríkisstj. lagði það fyrir, að árlega skuli ætla fé á fjárl. til þess að byggja 4 prestsseturshús á ári. Úr þessu dró menntmn. og setti „Allt að“ í staðinn fyrir að árlega skuli veitt nægilegt fé til byggingar 4 prestsseturshúsa. Nú hefur hv. Nd. séð ástæðu til þess að draga enn meira úr þessu, og vill ekki hafa þá ábendingu, að nauðsyn beri til þess að reisa 4 prestsseturshús á ári, heldur að tekin sé ákvörðun um þetta á fjárl. hverju sinni út af fyrir sig.

Fyrir Alþ. liggja upplýsingar um það, að húsnæðismál presta séu í því ófremdarástandi, að á mörgum tugum prestssetra séu ekki íbúðarhæf hús og á sumum engin. Og það er víst, að þótt byggð verði 3–4 slík hús á ári hverju næstu 10 ár, þá er ekki enn búið að koma þessum málum í sómasamlegt horf. Og ég get ekki fallizt á, að frá menningarlegu sjónarmiði megi setja markið neðar en svo, að við getum komið bústaðamálum prestanna í sæmilegt horf á næstu 10–12 árum.

Það má minna á, að í fyrra afgreiddi Alþ. lög um embættisbústaði héraðsdómara, og þar er það lögfest, að byggja skuli 1–2 bústaði ár hvert. Héraðsdómarar eru miklu færri en prestarnir og þeir sitja með mun betri launum en prestarnir. Það væri því ekki eins tekið djúpt árinni að því er snertir húsnæðismál prestanna, þó að við lögbyndum það að byggja 4 á ári. — Ég tel líka, að í húsnæðismálum þjóðarinnar almennt verði að setja markið það hátt, að nokkurn veginn verði bætt úr því ófremdarástandi, sem ríkir í húsnæðismálum þjóðarinnar yfirleitt, og að þau verði komin í sæmilegt horf að 10–12 árum liðnum. Ég sé ekki, að íslenzka ríkið geti ætlað sér minna en að dragast ekki aftur úr hvað snertir umbætur, sem hljóta að verða gerðar í húsnæðismálunum.

Menntmn. leggur því til, að gr. verði orðuð eins og hún var, þegar frv. var afgreitt frá Ed., sem sé, að ætlað verði fé á fjárlögum fyrir allt að fjórum bústöðum á ári. Ég sé ekki ástæðu til, að dregið sé úr þessu, en held, að það verði að vera markið hjá okkur að koma þessum málum í sæmilegt horf á næstu 10 árum.