07.03.1947
Efri deild: 87. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Ég vil taka það fram, að ég tala fyrir mína hönd, en ekki stj., enda heyrir málið ekki undir mig. Ég vil taka það fram í sambandi við þessa till., sem ég benti á, þegar málið var hér í fyrra sinn, að innihald hennar er lítið. Mér finnst hér vera deilt um keisarans skegg, því að það er ekki sagt, að það eigi að byggja 4 prestssetur á ári, heldur að það megi ekki veita fé til að byggja meira en 4 hús á ári, svo að það er ekki hægt að veita fé til meira, nema með lögbroti. Hins vegar efast ég um, að það megi veita til eins, og er þá umræðu- og umhugsunarefni, hvort skylda er til að veita eitthvert fé á fjárl. til byggingar á prestssetrum, en ég mundi telja þeirri skyldu fullnægt með 20–30 þús. kr. á ári, sem hvergi nærri nægir yfir einn prest.

Ég veit ekki, hvað fyrir þeim hefur vakað, sem sömdu þetta, því að ég hef varla séð innihaldsminni gr. með jafnumbúðamiklu orðalagi, því að í gr. er ekki nokkur hlutur. Ég held það sé miklu réttara að samþykkja hana ekki en að stofna málinu í hættu. Ég gæti skilið það, ef verið væri að ráðast á réttindi presta með breyt. þeirri, sem Nd. gerði, en það er ekki gert. Það má segja, að það sé óvissa um, hvað mikið mætti veita. Heimildin er þarna, og eftir henni mætti byggja yfir 10 presta á ári, en hér alls ekki nema yfir 4. Þess vegna held ég, að ef menn vildu prestum vel, ættu þeir að samþykkja frv. orðalaust, en ef þeir vildu samþykkja eitthvað meira, held ég, að þeir ættu að flytja till. um meiri breyt. en hér liggur fyrir.