07.03.1947
Efri deild: 87. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1546 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Eiríkur Einarsson:

Ég gat þess við fyrri umr. þessa máls hér í d., að ég hefði sérstöðu í menntmn. um þetta, en að sú sérstaða mín sé ekki byggð á því, að ég hafi ekki fullkomna samúð með og skilning á því, að prestssetur þyrfti að byggja og að ýmsu væri ábótavant í þeim efnum víða um landið. Þetta veit ég, að er rétt, og að málið þarf að mæta fullum skilningi.

En það var annað, sem fyrir mér vakti og ég vildi taka fram, að ég tel umhugsunarvert, að þetta frv. kemur fram á sama tíma og hvað mest lausung er á um prestssetur og skipun prestakalla. En þetta frv. felur það ekki í sér, að það sé neitt álitamál um það, hvar prestar skuli hafa aðsetur. Skoðun mín er sú, að um það, hvar prestar skuli hafa aðsetur, sé allt í óvissu nú. Yfirleitt er það svo, að prestarnir hafa búið á beztu höfuðbólunum, en á síðari árum er það þannig, að ef einhver kaupstaðarhola hefur verið í nágrenninu, þá hafa þeir leitað þangað, eða þá að presturinn er annaðhvort húsmaður eða byggir á jörðinni eða þá að hún er ekki nærri því setin eða nýtt svo sem hægt er. Ég veit dæmi þess, að menn hafa farið frá ágætisjörðum og prestshúsin hafa verið leigð einhverjum bónda. Þetta álít ég, að þyrfti að forðast. Ég álít, að þetta þyrfti að athuga alvarlega, áður en farið er að grafa fyrir grunni prestssetranna, af því hve málið er á hverfanda hveli. Þetta er ekkert smávægilegt atriði. Það er máske ég einn, sem er með þessa skoðun, en málið kemur mér svona fyrir sjónir. Alþingi verður að sjá fyrir því á einhvern hátt, að ekki verði mistök í þessu. Það er of dýrt að byggja yfir prestana til þess, að það megi verða. Við þekkjum, að það er áætlað, að kostnaður verði 80–150 þús., en svo er hann kominn upp í 200 þús. þegar lokið er. Ég er ekki að telja þetta eftir, en ég vil láta gæta að öllum málsatriðum.

Ég vil því leyfa mér að bera fram skriflega brtt. um ákvæði, sem fellt yrði inn í frv. Ég veit, að þessi till. er ekki mikils megnug, en hún er bending um það að taka til athugunar, hvar prestsbústaðirnir skuli vera. Þessi gr. ætti að koma á eftir 5. gr., sem er nú, og vil ég leyfa mér að lesa hana upp, með leyfi hæstv. forseta.

„Áður en hafizt er handa til húsagerðar á prestssetrum samkv. lögum þessum, skal leitað rökstuddrar umsagnar sóknarnefnda í prestakallinu um, hvort hið fyrra prestssetur eða annar ákveðinn staður í prestakallinu henti bezt sem frambúðarprestssetur.“

Mér þótti eðlilegast, að þessu væri vísað til sóknarnefndanna, sem ég tel, að muni vera í nánustu sambandi við sóknarprestinn hverju sinni.

Ég álít, að ég þurfi ekki að skýra þetta nánar. Það má kannske spyrja, hvaða ástæða sé til þess að vera að leita umsagnar um þetta, en ég veit, að í mörgum prestaköllum er það álitamál, hvernig fara eigi með prestinn með tilliti til verustaðar hans. Við skulum segja, að ungur og óreyndur prestur komi að einhverju prestssetri. Þá má gera ráð fyrir, að hann sé alveg óvanur búskap. Hann getur verið ágætur prófmaður, þó að hann hafi ekki vit á sveitabúskap.

Ég skal ekki tefja hv. d. með lengri umr. um þetta. Hvað fyrir mér vakir, skýrir till. Ég afhendi svo hæstv. forseta þessa till. og bið hann að bera hana upp, og munu atkv. þá ráða.