07.03.1947
Efri deild: 87. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Það sem hv. 3. landsk. vitnaði til í 1. gr. frv., sem nóg ákvæði um athugun á frambúðarprestssetrum, þá vildi ég segja það, að það, sem segir í þeirri gr., sýnir, hvað frv. er laust í reipunum, að á næstu 5 árum skuli fara fram rannsókn á prestssetrum landsins. En hverjir eiga að framkvæma þessa rannsókn? Það er að vísu til ein n., sem er sameiginleg fyrir allt landið, og skal ég hvorki lofa hana né lasta, en hún hlýtur að hafa fremur takmarkaða þekkingu á hverjum stað. Ég álít því, að leitað skuli umsagnar frá prestaköllunum sjálfum og að söfnuðunum sé þarna gert of lágt undir höfði, því að í 1. gr., sem hv. 3. landsk. vitnaði í, er aðeins gert ráð fyrir einni n., sem skuli hafa þessa athugun með höndum, en aftur á móti er ekki gert ráð fyrir neinum umsögnum heiman úr héruðunum. Ég tel því fulla ástæðu til að setja þetta inn í lögin.