07.03.1947
Efri deild: 87. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (2214)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg orð um þetta, en mér virðist þetta orðið talsvert hitamál. Hitt var rétt hjá mér um skuldbindingu í brtt. nefndarinnar. Í henni felst ekki annað en það, að eitthvert fé verður að veita til prestsbústaða og má það ekki vera meira en í fjögur hús, en engin heimild er fyrir því, að það nægi fyrir einu húsi. Ég segi það eins og það er, að fyrir mér er þetta ekki neitt hitamál, en þannig mundi þetta skilið af hverjum lögfræðingi. Ef fjárveitingavaldið teldi ekki fé fyrir hendi, þá gæti fjvn. veitt 10 þús. kr. á ári, sem ekkert mundi nægja. Hér er því aðeins um málamyndaskuldbindingu að ræða. Ákvæðið getur ekki falið í sér, að byggja eigi fjögur prestsseturshús, og engin ábending er um það, ef fjögur hús eru byggð, að þá ætti löggjafinn ekki að fara lengra. Ég er á gagnstæðri skoðun við n. og hv. þm. Barð. Efnismunur á till., sem fyrir liggja, er lítill, því að þetta er í hendi fjárveitingavaldsins. Skuldbindingin nægir ekki til að byggja eitt prestsseturshús, en valdið er hjá Alþ. hverju sinni, en n. takmarkar sig við fjögur hús, og felli ég mig betur við orðalag Nd. Ég skal svo ekki segja meira, en hef hér bent á minn skilning á málinu, og metur hver það, sem honum finnst réttast.

Varðandi till. hv. 2. þm. Árn. þá fellst ég á, að efni hennar náist með 1. gr. frv., og er einmitt lögð áherzla á þetta í 3 fyrstu tölul. 1. gr., sem innifelur efni till. hv. þm. Og ekki skil ég í að nokkur ráðh. mundi gera ráðstafanir í þessu efni án þess að hafa fengið till. heiman úr héruðunum, þar sem sóknarnefndir eru þessu máli kunnugastar.