07.03.1947
Efri deild: 87. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég læt það litlu skipta um brtt. mína, hvort hún kemur sem ný frvgr. á eftir 5. gr. eða verður felld á einhvern hátt inn í 1. gr., en hitt vil ég taka fram, að ég gerði það með ráðnum huga að ákveða hana sem nýja gr. á eftir 5. gr., sem fjallar um hið margrædda málefni. Þar áleit ég hana á nokkuð réttmætum stað. Fyrir mér vakir m. a. þetta : Sú rækilega athugun, sem gildir öll prestaköll og getið er um í 1. gr., á bersýnilega að framkvæmast af þeirri heildarnefnd fyrir landsbyggðina, sem þegar mun vera til, og í henni eiga sæti biskup landsins, húsameistari ríkisins og skrifstofustjóri ráðuneytisins. Í 1. gr. er miðað við, að þessi n. geri athugunina. Því fannst mér ekki vera úr vegi, að ákvæði mitt kæmi á sérstökum stað og annars staðar í frv., svo að því væri ekki á neinn hátt blandað saman við aðalnefndina. Annars læt ég mig það engu skipta, þótt fram komi skrifleg brtt. við mína brtt. um, að þetta nýja ákvæði komi inn á öðrum stað í frv. Till. mín á fullvel heima á eftir 5. gr., og mun ég ekki hafa fleiri orð um það. — En viðvíkjandi því, sem hv. 3. landsk. sagði, að samkvæmt 7. gr. væri gert ráð fyrir, að viðkomandi presti skyldi jafnan gefa kost á að gera aths. við uppdrátt húsameistara, þá virðist mér einmitt, að þar sem þetta er tekið út úr, megi álykta af því, að þetta eitt skuli bera undir prest og ekkert undir sóknarnefnd, en ef biskup, húsameistari eða ráðherra vildu leita umsagnar heima í héraði, er eins gott, að þar væri á vísan að róa, í stað þess að leita umsagnar hreppstjóra, oddvita eða einhverra óákveðinna manna. Ég geri þetta ekki að kappsmáli, en tel það réttmætt, og hv. d. sker úr í þessu efni.