25.03.1947
Neðri deild: 101. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það er vegna þess að hv. þm. Snæf. er ekki viðstaddur, að ég hef kvatt mér hljóðs, en hann átti að hafa framsögu fyrir hönd meiri hl. menntmn. Það er saga þessa máls, að þegar það var upphaflega lagt fyrir hv. Ed., þá var ákvæði í 5. gr. frv. þannig, að á fjárl. hvers árs skyldi veita upphæð til byggingar 4 prestshúsa. Hv. Ed. mun hafa þótt þetta ákvæði helzt til ákveðið og breytti því í það horf, að á fjárl. skyldi árlega veitt fé til allt að fjögurra prestshúsa. Þegar frv. kom til álita menntmn. þessarar d., þótti henni sem þetta ákvæði væri dálítið óvenjulegt og nokkuð varhugavert. Menntmn. var sammála um, að það væri óeðlilegt að binda þannig í sérstökum l. stóra fjárveitingu, eins og gert er með þessu ákvæði. Hins vegar kom það í ljós, að nokkuð voru skiptar skoðanir um það, hvað þetta orðalag þýddi: „Í fjárl. skal árlega veitt fé til allt að fjögurra prestsseturshúsa . . .“Þykir mér rétt að rekja þær skoðanir að nokkru. Þegar maður gerir grein fyrir, hvað þetta orðalag þýði, þá er rétt að rifja upp, fyrir sér, hvaða merkingu það almennt hefur í l. Í fjölmörgum l. stendur þetta orðalag: „Alþ. veitir allt að byggingarkostnaðar barnaskóla og allt að 3/4 byggingarkostnaðar heimavistarskóla.“ Í þessu sambandi þýðir þetta í reyndinni, að Alþ. telur skylt að veita þennan hluta kostnaðarins. Ef leggja ætti þessa merkingu í ákvæði 5. gr. þessa frv., eins og það kemur frá hv. Ed., þá býst ég við, að allir séu sammála um, að þetta ákvæði sé óeðlilegt og óheppilegt. Ef veita ætti árlega fé til byggingar 4 prestshúsa, þá mundi það ekki verða minni upphæð en 1 millj. kr. Og ég geri ekki ráð fyrir því, að margir hv. þm. vildu standa að því að binda þannig fjárveitingavaldið langt fram í tímann. En því er hins vegar haldið fram, að skilja megi þetta orðalag á annan hátt, sem sé þannig, að ekki skuli veitt til fleiri prestshúsa en fjögurra, það megi veita fé til eins, tveggja, þriggja og fjögurra prestshúsa, en ekki fleiri. En eigi orðalagið að þýða þetta, þá er það meiningarleysa. Ég hygg, að þeir, sem að þessum málum standa, muni með þessu orðalagi krefjast fjár til byggingar fjögurra prestshúsa og þeir hafa sterk rök fyrir þeirri kröfu. Hins vegar skal ég láta liggja milli hluta að dæma um, hvort er réttara. En ég vil aðeins segja það, að ef veita á til fjögurra prestssetra, er fjárveitingavaldið bundið langt fram í tímann. En sé meiningin sú að veita alls ekki, nema til fjögurra húsa, þá er orðalagið meiningarleysa. Með tilliti til þessa varð menntmn. sammála um að leggja til, að frvgr. yrði breytt á þá leið, að reist skyldu prestsseturshús svo fljótt sem auðið væri og eftir því, sem fé er veitt til þess í fjárl. Þetta var samþ. shlj. af þessari hv. d. Hins vegar vildi hv. Ed. ekki láta við svo búið standa og færði frv. til fyrra horfs. Menntmn. þessarar hv. d. tók málið því á ný til umr. og þótti rétt að standa við sína fyrri afstöðu, en gekk þó til móts við hv. Ed. og lagði til, að gr. hljóðaði þannig: „Reisa skal árlega prestsseturshús samkv. fyrirmælum þessara l. svo fljótt sem auðið er og eftir því, sem fé er veitt til þess í fjárl. . . .“ Þannig var fjárveitingarvaldinu lögð sú skylda á herðar að veita eitthvað til byggingar prestshúsa, þangað til lokið væri að endurbyggja þau á sómasamlegan hátt. Það er meiri hl. menntmn., sem stendur að þessari brtt. En þó ber ekki að líta svo á, að minni hl. hafi horfið frá sinni fyrri afstöðu, heldur þótti honum ekki taka því að eiga í þráskák við Ed. um þetta atriði, þar sem málið færi til Sþ., ef þessi brtt. yrði samþ. En ég vil taka það fram, að ég sé enga hættu í því, þótt málið fari til 8þ., því að það hefur verið ágreiningslaust í báðum d. að afgreiða málið. Og nægur tími er til að fá það afgr., þótt því sé vísað til Sþ. Mér þykir því rétt, að hv. d. haldi við sína fyrri afstöðu. Það er að öllu leyti eðlilegt að leggja það undir úrskurð fjárveitingavaldsins, hvað háa fjárveitingu það leggur til þessara mála á hverjum tíma.