28.03.1947
Sameinað þing: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1554 í B-deild Alþingistíðinda. (2234)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Í byrjun þessa þings óskaði fyrrverandi menntmrh. þess, að menntmn. Ed. flytti fyrir hönd ríkisstj. frv. til l. um hýsing og skipulag prestssetra. Menntmn. Ed. gerði á frv. nokkrar smávægilegar breyt. og ein þeirra, sem er við 5. gr., var á þá leið, að í stað þess, að í stjfrv. var ákveðið, að leggja skyldi fram árlega fé til byggingar fjögurra prestsseturshúsa, þá dró menntmn. Ed. úr þessu og orðaði 5. gr. þannig, að leggja skyldi árlega fram fé til byggingar allt að fjögurra prestsseturshúsa á ári. N. aflaði sér upplýsinga frá skrifstofu biskups um það, að mjög illa væri byggt á nálægt 40 prestsseturshúsum á landinu, og væri því ekki leyst úr þessu máli á sómasamlegan hátt á næstu 10 árum með minna framlagi af hendi ríkissjóðs en svo, að hægt yrði að byggja allt að fjórum prestsseturshúsum ár hvert næstu 10 ár. Þessu orðalagi, sem menntmn. Ed. hafði breytt á þann veg, að skuldbindingin væri ekki eins rík á hendur ríkissjóðs vegna framkvæmda í þessu máli, hefur svo hv. Nd. séð ástæðu til að breyta í stjfrv. í þá átt, að ekki sé einu sinni ábending um það í 5 gr. l., að leggja skuli fram fé til byggingar allt að fjögurra prestsseturshúsa, heldur er aðeins lagt til, að reisa skuli árlega prestseturshús eftir því, sem fé sé veitt til þess á fjárl. Skilst mér, að það gæti þá farið þannig, að ekki væri neitt fé veitt á fjárl. til þessara mála, og teldi löggjafarvaldið sig þá frítt af aðgerðum í því efni. Ég held, eftir því sem upplýst er að ástandið sé í húsnæðismálum þessarar elztu embættismannastéttar þjóðarinnar, að þá verði ekki hjá því komizt, að ríkið taki á sig verulegar skuldbindingar í þessum efnum, og finnst mér þá, að það megi ekki draga meira úr ákvæðum l. um þetta en svo, að skylt sé að leggja fram fé til endurbyggingar allt að fjögurra prestsseturshúsa á ári, eins og lagt er til í frv. eins og það var síðast afgr. í Ed. Ég átti nýlega tal um þetta við fyrrv. kirkjumálarh. (EmJ), og sagði hann, að honum hefði þótt miður, ef úr þessu hefði verið dregið frekar. Nú virðist mér, að hæstv. núv. menntmrh. sé ekki hér viðstaddur við þessa afgreiðslu, og er þess því sennilega ekki kostur, að hann geti sagt sitt álit á því, hvernig hann óskar, að málið verði afgr. Mér þætti því eðlilegt, að málið yrði ekki afgr.hæstv. kirkjumrh. fjarverandi. Enn fremur er form. menntmn. Ed. ekki viðstaddur og getur því ekki í raun og veru mælt með málinu fyrir hönd menntmn. Ég tel því að öllu leyti viðeigandi, að afgreiðslu þessa máls verði frestað, þangað til hæstv. menntmrh. gæti verið viðstaddur afgreiðslu þess og lagt sitt lóð á vogarskálina. Annars vil ég taka það fram, að þegar búið er að draga svo úr gr. eins og menntmn. Ed. hafði lagt til, þá getur hvorki mér né öðrum verið kappsmál, hvort málið er afgr. á þann veg eða á þann hátt, sem menntmn. Nd. leggur til. Þá tel ég, að niður falli með orðalaginu eins og það er á þskj. 569 öll skuldbinding af hendi ríkisins til að leggja fram fé, nema þegar svo ber undir, að fjvn. telur ástæðu til að taka fé inn á fjárl. til þessara hluta. Ea ég tel engan veginn tryggt, að sá stórhugur og sú bjartsýni ráði í till. fjvn. í framtíðinni, sem upplýst er, að ráðið hafi gerðum þeirrar hv. n. í þetta sinn.