26.11.1946
Efri deild: 20. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1560 í B-deild Alþingistíðinda. (2282)

42. mál, sala Hringverskots í Ólafsfirði

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Þetta frv. er um að selja Ólafsfjarðarkaupstað Hringverskot í Ólafsfirði. Þetta er lítil jörð og liggur ekki langt frá kaupstaðnum, er þó í 7–8 km fjarlægð. Hún liggur ekki upp að því landi, sem kaupstaðurinn hefur keypt, en hann hefur keypt tvær jarðir, sem þorpið er byggt á, og á nú mest af þeim lóðum, sem þorpið stendur á. Hins vegar fylgir þeim jörðum svo lítið land fyrir þá menn í kaupstaðnum, sem vilja rækta sér land og koma sér upp búi samhliða því starfi, sem þeir hafa í kaupstaðnum, eða kannske eingöngu til að lifa af, að þeir hafa litla möguleika til þess, og þess vegna fer kauptúnið fram á að fá þessa jörð keypta. Þetta er kirkjujörð og hefur verið heldur lélega setin, girðingar því nær engar, hús gömul torfhús, nú að mestu fallin. Þau voru 1940 virt á 800 kr., en landið virt á 1700 kr. Túnið er að mestu leyti þýft, gefur af sér lítið á annað hundrað hesta. Það hefur verið byggður á jörðinni barnaskóli, sem var ætlazt til, að yrði heimávistarskóli fyrir sveitina, sem nú heyrir til Ólafsfjarðarkaupstað, en það horf hefur hann ekki komizt í. Nú er hann starfræktur sem heimangönguskóli fyrir bæina, sem í sveitinni eru. Jörðin er búin að vera í eyði í nokkur ár, og eitthvað voru að nafninu til lánuð afnot af túninu til manna þar í kring á sumrin, en það var víst lítið meir, og eftir jörðinni hefur ekki verið sótzt til ábúðar.

Við, sem erum í landbn., höfum haft þetta mál til meðferðar og erum sammála um að leggja til, að þessi jörð verði gefin föl fyrir kaupstaðinn. Hins vegar teljum við allir, að það sé eðlilegt, að það fari fram á henni mat og að hún sé ekki seld fyrir fasteignamat. Það var gert árin 1938–1941, og var þá miðað við það, hvað mannvirki og annað kostaði á jörðinni á árinu 1939 og reynt að hafa matið þannig, að það væri 66% af kostnaðarverði mannvirkjanna. Jörðin var metin eftir því, hvaða búi hún gæti risið undir, og var hún metin á 1700 kr. Þetta mun vera of lágt eftir verðgildi peninga nú, þó að fleiri aðstæður kunni að hafa breytzt. Þessir húskofar á jörðinni eru sennilega fallnir og ríkissjóður búinn að taka við sínu álagi á þá.

Við leggjum til, að jörðin sé gefin föl, en að það fari fram á henni nýtt mat, sem ég a. m. k. ætlast til, að sé lagt til grundvallar fyrir sölunni og því frekar, sem þannig er ástatt, að þótt maður vildi fara eftir ákvæðum um sölu þjóð- og kirkjujarða, að miða við afgjald undanfarinna ára, þá er ekki um það hér að ræða, þar sem jörðin hefur ekki verið byggð síðustu ár. Og til þess að fá annan grundvöll en leiguna til að miða við, þá sé ég ekki annað betra en að meta jörðina. Það er fjarri því, að ég hugsi mér uppsprengt verð líkt — því, þegar hæstiréttur er að meta land til eignarnáms og þess háttar. Það dettur mér ekki í hug, en þó er mér ljóst, að fasteignamat er of lágur samningsgrundvöllur, og þess vegna þarf að fá annan grundvöll að miða við.