07.11.1946
Efri deild: 11. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (2332)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Þetta frv. var borið fram á síðasta aðalþingi og afgr. og sent Nd., en kom síðan ekki úr sjútvn. Nd. Frv. þetta er nú aftur borið fram, óbreytt að mestu.

Saga þessa máls er á þá leið, að árið 1943 varð breyt. á l. um stríðsslysatryggingu skipshafna. Þessum l. hafði verið breytt áður og þá í þá átt, hvernig skipta bæri ágóða af stríðsslysatryggingunni. Sjóðurinn var þannig stofnaður, að útgerðarmenn einir greiddu stofnféð á sínum tíma. Ríkissjóður hafði 60% þátttöku, en greiddi aldrei neitt fé inn í sjóðinn, en tók á sig ábyrgð að sínu leyti. Brunabótafélag Íslands og Tryggingastofnun ríkisins höfðu 10% hvor og eins Sjóvátryggingafélag Íslands h.f., en greiddu ekkert innlag, en tóku ábyrgð á sinni áhættu. Var árið 1945 búið að greiða 180 þús. kr. til hvers þessara aðila fyrir þá tryggingu, sem þeir höfðu gefið á sínum tíma.

Nú var lagt fram stjfrv. árið 1943, hvernig skipta skyldi ágóðanum, og áttu þá að koma mjög stórir hlutar fyrir þessa aðila, eða allt að 6 millj. króna. Sjútvn. breytti frv. frá því, sem var, og með l. nr. 106 frá 1943 var ákveðið, að þegar hlutverki félagsins sé lokið, og því er nú lokið að mestu, þá verði fénu ekki skipt, heldur renni í sjóð, sem annist endurtryggingar. Það kom skýrt fram, að þótt ekki næðist samkomulag, var fullt fylgi um að lækka iðgjöldin 1945, þannig að félögin fengju stærri áhættu. Einmitt vegna þess ákvæðis, hvernig fara skyldi með féð, vildu aðilar, að iðgjöldunum yrði haldið áfram, þar eð þetta átti að renna til þessarar starfsemi í framtíðinni. Fullt samkomulag náðist við aðila um að breyta skipulagi félagsins. Þeir, sem ekki vildu vera með, gátu fengið sitt fé greitt og þessu komið þannig á fastan grundvöll.

1. gr. þessa frv. fjallar um að breyta nafni félagsins í samræmi við breytt starfssvið. 2. gr. er um hlutverk félagsins í framtíðinni, og er hún byggð á samkomulagi og l. frá 1943. 3. gr. er um áhættufé félagsins, þar sem ríkissjóður leggur fram 1850000 kr., sem er greiðsla fyrir þeirra tryggingu. Hér er ekki um nýtt framlag að ræða, en fullt samkomulag hefur orðið um þetta, og hefur ríkissjóður þegar fengið verðbréf fyrir þetta fé. Tryggingastofnun ríkisins, Brunabótafélag Íslands og Sjóvátryggingafélag Íslands hafa hver um sig greitt 136000 kr. og útgerðarmenn 2706000 kr., sem annars hefðu átt að greiða áhættufjárábyrgðir í sömu hlutföllum eftir eign. 4. gr. er um varasjóð, arðjöfnunarsjóð, almennan endurtryggingarsjóð og bónussjóð, og er hann séreign. Bætt er þarna við arðjöfnunarsjóði, því að gert er ráð fyrir í l., að greiða megi arð, og er það betra en yfirfæra frá ári til árs. 5. gr. er bráðabirgðaákvæði frá 1943, þar sem þáverandi ástandi er lokið. 6. gr. er þýðingarlaus, og í stað hennar kemur niðurlag 4. gr., og fer það betur.

7. gr. er samhljóða l. frá 1943, en í samræmi við núverandi ástand. Um 9. gr. er það að segja, að þar er nokkru breytt, vegna þess að ástand hefur breyzt hjá fyrirtækinu. Lagt er til, að arðjöfnunarsjóður og bónussjóður verði ekki auknir. Meðan ófriðurinn stóð yfir og ástand mjög í óvissu, var eðlilegt, að þeir, sem greiddu hin háu iðgjöld, fengju bónus, en þar sem áhætta félagsins er ekki eins mikil og áður, er úthlutun bónus ekki réttmæt. Þess vegna er lagt til, að bónussjóður hverfi til réttra aðilja. 10. gr. er samhljóða l. nr. 106 frá 1943, en l1. gr. fjallar um ávöxtun á fé félagsins, og vegna þess að upphæð þessa fjár er orðin svo há, þykir mega rýmka heimild, hvernig það skuli ávaxtað. 12. og 13. gr. eru í samræmi við 1. frá 1943, en 14. gr. er breytt frá frv. síðasta árs, vegna þess að felld hefur verið í burtu tilvísun í 14. gr. í lagafrv. við samþykkt alþýðutryggingalaganna.

II. kafli þessa frv. er um stríðstryggingar, meðan þeim er haldið við, en gert er ráð fyrir, að þær hverfi í árslok 1947. Aðrar greinar II. kafla eru í samræmi við l. frá 1943. Í 22. gr. er nokkru breytt. Samkv. l. frá 1943 er skylt að kaupa lífrentu fyrir hálfar stríðsbætur, en hinn hlutinn greiðist út bæði börnum og fullorðnum. Sjóvátryggingafélagi Íslands hefur verið þetta heimilt fyrir mjög lágt verð, og fá aðilar lága vexti, en Sjóvátryggingafélagið heldur ágóðanum. Má nefna mörg dæmi um þetta, t. d. hjón með 12000 kr., en fá svo um 700–775 kr. á ári, meðan þau lifa, eða allt að 6%, en félagið heldur upphæðinni óskertri. Þetta er enn þá lakara um ungar ekkjur, en þær geta farið niður í 2%. Fyrir þetta atriði var óverjandi að stöðva málið, þar sem gengið var svo á rétt manna. Rætt var við Sjóvátryggingafélagið og frá þeim gefin loforð, að þeir vildu taka upp samninga um þessa lífrentu, þannig að menn gætu fengið upphæðir sínar til baka. Breyt. miða að því, að slíkt megi og lífrentu sé ekki skylt að kaupa, heldur skal féð borgað út til fólks, ef það vill. Þó var sett inn, að fyrir þær tryggingarbætur, sem samkv. þessari gr. falla til barna innan 16 ára aldurs, er félagsstjórninni heimilt að kaupa barnalífeyri þeim til handa hjá viðurkenndum tryggingarfélögum, enda komi til samþykki forráðamanna barnanna. Þetta er talið hagkvæmt fyrirkomulag. En þó er þetta aðeins heimilt, að samþykki forráðamanna barnanna komi til. Í þessu er fólgin meginbreyting á þessari grein.

Ég sé svo ekki ástæðu til að skýra þetta nánar, þar sem grg. fylgir. Einn af sjútvnm., Jóhann Þ. Jósefsson, var ekki viðstaddur á fundinum og gat þess vegna ekki kynnt sér málið. Einnig var hv. þm. N-Þ. fjarstaddur. N. mun taka málið til athugunar milli umr. og æskilegt, að hv. forseti taki það ekki á dagskrá, fyrr en allir nm. hafa athugað það. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um þetta að sinni, en óska, að frv. verði vísað til 2. umr.