07.11.1946
Efri deild: 11. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (2333)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það var rétt, sem hv. frsm. tók fram, að ég var ekki viðstaddur á fundinum, er ákveðið var að flytja þetta mál. Hins vegar sendi ég þau skilaboð til fundarins, að ég óskaði ekki að vera flm. að svo komnu, og sé ég, að tillit hefur verið tekið til þess. Hv. frsm. tók líka réttilega fram, að þetta mál hefur verið hér til athugunar áður, en ekki náð lögfestingu. Ég verð að segja, að þetta mál er nokkuð stórt, og er ekki eðlilegt, að þeir, sem ekki eru kunnugir starfsemi þessarar stofnunar, geti fljótt áttað sig á réttmæti þeirra breyt., sem hér um ræðir. Þegar stríðsslysatryggingum var komið á, áleit ég, að um slíkt fyrirbrigði væri að ræða, meðan ófriður stæði, sem nokkurs konar bráðabirgðaráðstöfun. En nú, þegar ófriði er lokið, mætti ætla, að rétt væri að athuga, hversu fram er haldið málinu, eins og hér er gert. Það er lagt til að mynda innlenda endurtryggingu, þó að á allra vitorði sé, að til er þesskonar stofnun í landinu, og yrði þá um tvær endurtryggingastofnanir að ræða, ef þetta frv. verður lögfest. Hv. frsm. lýsti, hvað safnazt hefði af ágóða í hlut hvers og eins, án þess að aðilar hefðu nokkuð unnið til þeirrar öflunar annað en að lofa ábyrgð.

Það verður ekki fram hjá því gengið, að eins og málið er flutt, á að vaxa hér upp einkafyrirtæki, sem heitir Íslenzk endurtrygging og fær þann fararbeina að taka við öllu því fé, sem ríkissjóður hefur lagt til þessa, og auk þess er lagt til, að fyrirtækið verði skattfrjálst. Ég dæmi ekki að svo stöddu, hvað rétt er eða rangt í þessu máli, en mér fyndist eðlilegt, að þessir umræddu aðilar og ríkisstj. ræddu málið og kæmu sér saman um lausn á því, og síðan teldi ég rétt, að málið væri flutt af ríkisstj.

Þar sem þetta mál er nú borið fram af sjútvn., en er í rauninni stórt fjárhagsmál, þar sem fyrirtækið skal vera skattfrjálst, teldi ég rétt, að fjhn. fjallaði um málið, ekki vegna þess, að ég á sæti í þessari n., heldur vegna þess, að mér finnst málið liggja þannig fyrir.