07.11.1946
Efri deild: 11. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (2334)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Ég er undrandi yfir þeirri andúð, sem fram kom í ræðu hv. þm. Vestm. Ég hélt, að hann væri kunnugri sjávarútvegsmálum en hér hefur fram komið. Þessi hv. þm. veit vel, að það er vafi, hvort ríkissjóður hefur haft af nokkurri ábyrgð meiri tekjur en þeirri, er hér hefur verið um rætt. Þykir mér því einkennilegt, að þessi hv. þm. skuli lýsa sig andvígan því, að þetta fé renni til styrktar sjávarútveginum, því að auðvitað verða iðgjöldin lægri eftir því, sem félagið er betur statt fjárhagslega.

Ég vil svo í þessu sambandi lesa álit sérfræðings á þessu máli, það er Englendingurinn P. W. Harding, sem er mjög fær á þessu sviði. Honum farast meðal annars orð á þessa leið í bréfi til mín, dags. 18. sept. 1946, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég leyfi mér að setja fram eftirfarandi athuganir, en fyrst og fremst ætti nafn félagsins að breytast í Endurtrygging Íslands. Eins og sakir standa, er aðeins hægt að halda eftir á Íslandi mjög litlum hluta af þeim vátryggingum, sem framkvæmdar eru fyrir land yðar, þar er vátryggingarfélögin eru aðeins fær um að halda sjálf litlum skerfi af hverri einstakri áhættu. Af þeirri ástæðu fer mjög stór hluti vátrygginganna, og þess vegna einnig mjög stór hluti iðgjaldanna til annarra landa sem endurtrygging. Félagið Íslenzk endurtrygging er vegna auðæfa sinna fært um að halda eftir tiltölulega stórum hluta af hverri einstakri áhættu, sem veldur því, að hægt er að halda eftir á Íslandi stórum hluta iðgjaldanna og styrkja gjaldeyrisástandið, en á sama tíma er byggður upp varasjóður, sem að lokum mundi gera félagið að verulegum aðila í vátryggingarviðskiptum þjóða á milli.

Til eru nú mörg stór endurtryggingarfélög í Evrópu, sem aðeins reka endurtryggingaviðskipti, t. d. má nefna Endurtryggingarfélag Svisslands, sem er eitt hið auðugasta og þekktasta endurtryggingafélag í Evrópu. Eftir því sem félagið Íslenzk endurtrygging yrði sterkara og þekktara í millilandaviðskiptum, mundi það verða færara um að útvega sér samninga um endurtryggingar frá mörgum löndum Evrópu. Það mundi aftur á móti þýða útvegun erlends gjaldeyris og hjálpa til að bæta aðstöðu Íslands í Evrópu. Sem endurtryggingafélag ætti það að vera fært um að viða að sér alls konar endurtryggingum, svo sem sjó-, bruna-, flug-, bifreiða- og slysatryggingum, og raunar endurtryggingum af hvaða tagi sem er.

Ég mundi því vilja leggja til, að leitað yrði samþykktar Alþ. sem fyrst til þess að breyta núverandi nafni félagsins í Endurtrygging Íslands, og jafnframt yrði svo fyrir mælt með lögum, að öll íslenzk vátryggingarfélög eða vátryggingastofnanir skyldu bjóða þessu félagi ákveðinn hluta allra trygginga þeirra til endurtryggingar.

Ég vil aðeins taka það á ný fram, að þar sem Ísland er nú að verða þýðingarmikill aðili í viðskiptum Evrópu almennt, mundi hagnýting hins fjársterka, unga félags á framangreindum grundvelli verða Íslandi til hins mesta gagns almennt vegna möguleika félagsins til að auka starfsemi sína í millilandaviðskiptum.“

Þetta segir hinn enski sérfræðingur í þessum málum.

Þá vildi ég leyfa mér að taka fram, til þess að leiðrétta hinn hrapallega misskilning hv. þm. Vestm., að þetta félag er að mestu ríkisstofnun, þar sem ríkissjóður sjálfur á í því 60% og ríkisstofnanir auk þess 20%. Ríkið á því um 80% í fyrirtækinu og hlýtur þar af leiðandi að ráða mestu um stjórn þess.

Skattfrelsið, sem fram á er farið í frv., er aðeins til að halda niðri iðgjöldum, og því ekki annað en ofurlítil hlunnindi til handa sjávarútveginum, og ég skil ekki, að þessi hv. þm. sé því fjandsamlegur.

Ég hef í sjálfu sér ekki á móti því, að fjhn. fjallaði um þetta mál, en af því að ég hygg, eftir því sem þessi hv. þm. hefur látið út úr sér um málið, að hann með sínum áhrifum í þeirri n. gæti svæft málið eða eyðilagt það á einhvern hátt, er ég á móti því, að því verði vísað þangað, og legg til, að sjútvn. fjalli um það áfram.