27.11.1946
Efri deild: 21. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1576 í B-deild Alþingistíðinda. (2340)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Hv. frsm. hefur skýrt frá gangi þessa máls rétt í öllum aðalatriðum, og mun ég ekki fara út í smáatriði. Höfuðatriðið er, að n. hefur orðið sammála um allar brtt. á þskj. 142, eins og þær liggja fyrir. Á þessu stigi málsins er ekki ástæða til að fara frekar út í það. Ég vil þó geta þess í sambandi við brtt. við 20. gr., að sú brtt. mun frá komin vegna allharðrar kröfu frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, og er borin fram af formanni n. og frsm. Brtt. þessi kom ekki fyrr en undir það síðasta, en það skiptir ekki máli. N. hefur viljað verða við þessum óskum landssambandsins, og má bæta því. við, að stjórn stríðstryggingafélagsins hefur einnig fallizt á þetta, með því að þetta sé aðeins bráðabirgðaráðstöfun fyrir árið 1947, þ. e. að fyrir slys. skuli ekki tryggt lengur og þá falli þetta ákvæði niður samtímis.

En aðalágreiningurinn er um það, hvort þetta skuli ná til allra fiskiskipanna eða aðeins nokkurra hluta þeirra.

Í l. eins og þau eru nú eru hlunnindin bundin við 80 rúmlesta skip og minni, það er að segja þau skip, sem yfirleitt eru notuð til fiskveiða hér við land, en ekki notuð til flutnings á ísvörðum fiski til útlanda, og var það svo, að ríkið greiddi ákveðna upphæð fram yfir visst lágmark iðgjaldsins, og er sjálfsagt, að þetta haldist fyrir þær fleytur, sem gert er ráð fyrir. Við erum sem sagt sammála um, að þessi hlunnindi eigi að veitast áfram, og höfum fallizt á, að iðgjöldin lækki og að stríðsslysatryggingin leggi þar til af hagnaði ársins 1946 það, sem það hrekkur til.

Ég get fullyrt, að eins og nú horfir hjá tryggingunni, hefur hún ekki séð sér fært að lækka iðgjöldin frá því, sem nú er, fram yfir næstu vertíð, það er 4,00 kr. á viku. Iðgjöld skulu nú krafin lægri af stærri skipum eða 2,64 og af 3. flokki, farmskipunum, 1,76 kr. á tryggingarviku. Þetta er mælikvarðinn frá tryggingarfélaginu, að taka ekki meiri iðgjöld en reiknað er með, að áhættan verði á hverjum tíma. En ekki er hægt að lækka þau frá því, sem nú er. En ég vil benda á, að þó að gjöldin hafi lækkað á fiskibátum úr 21,46 á tryggingarviku, og eru lækkuð í 4,00 á viku, að á skipum í lægsta flokki voru iðgjöldin 9500,00 kr. á mánuði.

Samkvæmt þeim gjöldum, sem krafin eru, er ekki reiknað með meir en tæpum 500.00 kr. á, mánuði, og er það veruleg lækkun á iðgjöldunum og er óveruleg upphæð miðað við áhættuna. Rétt er að geta þess, að tekjur þær, sem stofnunin hefur 1946, nema ekki meiru en um 600 þús. kr., og af þeirri upphæð er þegar búið að greiða 279 þús. kr., þ. e. tæpan helming. Sá raunverulegi afgangur er því rösk 300 þús. kr. Þar af verður svo að taka reksturskostnað stofnunarinnar. Má geta sér til, að hann verði um 100 þús. kr., án þess ég viti neitt um það, og eru þá ekki nema rösk 200 þús. kr. eftir.

Þessari upphæð hefur stjórn stríðstryggingarfélagsins fallizt á að verja til lækkunar iðgjaldanna. Þó er undanskilið það, sem renna skal í bónussjóð og endurtryggingarsjóð. Ég skal svo ekki ræða lengi um þetta mál, en þetta mun nema mest 6%, en fara eftir því, hver hagnaðurinn er, en gæta verður þess, að hér eiga hlut að máli aðilar, sem erfitt er að taka frá möguleikann til hagnaðar, þ. e. alþýðutryggingarnar, Brunabótafélag Íslands og Sjóvátryggingarfélag Íslands. En ef brtt. verður samþ., er möguleiki til, að 4 ný félög komi inn, og eru þar af 3 félög, sem kalla verður einstaklingafélög, og eitt opinbert, sem heyrir undir ríkið, þ. e. Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, en Samtrygging ísl. botnvörpunga, Almennar tryggingar og Samvinnutryggingar verða að teljast félög einstaklinga. Líkur eru til, að öll þessi félög komi til viðskipta með þeim kröfum, sem þau leggja fram.

Ég hef þá skýrt frá, hversu þetta horfir við frá tryggingarfélögunum. Aðaldeiluefnið er, hvort togararnir eigi að njóta sömu hlunninda og minni fiskiskipin, en hér er um mjög óverulega upphæð að ræða, eins og nú er. En ef fé það, sem félagið getur lagt fram, hrekkur ekki til, verður ríkissjóður að bæta við því, sem þarf til þess, að iðgjöldin náist að fullu. Við lítum svo á, meiri hluti n., að togaraútgerðin sé nú ekki svo illa á vegi stödd, að rétt sé að gefa henni fríðindi til þess að láta ríkissjóð blæða þess vegna, en rétt er að ákvæðin haldist um minni skip. Ef þröngt er nú fyrir dyrum, er það helzt hjá mótorskipum.

Við þrír höfum lagt til, að í stað 80 lesta komi 100 lesta, því að til landsins hafa komið allmörg skip, sem eru milli 80 og 100 lestir, þ. e. bátarnir frá Svíþjóð, og það er raunverulega ekki hægt að gera upp á milli skipa, sem eru 80 og 100 lestir. En skip yfir 100 lestir eru ekki teljandi, sem ástæða er til að taka með.

Við viljum því, að brtt. minni hlutans sé felld, En í stað 80 komi 100. Við sjáum ekki ástæðu til þess að leggja aukna byrði á ríkissjóð vegna togaranna, því að þeir þurfa þess ekki með. Þeir eru ekki þannig á vegi staddir. Væntum við þess að hv. d. fallist á sjónarmið okkar.