27.11.1946
Efri deild: 21. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (2341)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Ég vil aðeins leiðrétta misskilning, sem kom fram hjá hv. 1. landsk., þar sem hann var að tala um, að það væri verið að bjóða útveginum einhver fríðindi.

Ég vil benda hv. 1. landsk. þm. á, að megináhættan er ekki frá togurunum, heldur frá bátunum. Megináhættan fyrir tryggingarfélögin er ekki, þó að menn farist af slysum, heldur af slysum, sem aldrei upplýsist, af hverju verða. Það er megináhættan. Ef mætti strika það út, mætti lækka iðgjöldin stórlega.

Ég veit ekki til, að eitt einasta tjón hafi verið bætt vegna togaranna 1946. Öll gjöld togaranna fóru til að greiða smærri bátunum, og samt vill hv. þm. lina iðgjöldin hjá þeim. En ég þekki þennan són hjá hv. 1. landsk. þm. Hann vill gera togaraútgerðinni allt til ógagns, sem hann getur, og vill hana helzt feiga.

Það er rétt, að það munar litlu, hvort tapað er 500 eða 600 þús. kr., en það er ekki sanngjarnt að leggja á togarana gjöld, sem þeir þurfa ekki. Ríkið þarf ekki að leggja á sig neinar byrðar.

Tekjurnar eru heldur ekki 600 þús., heldur 700 þúsund krónur, og gert er ráð fyrir 400 þús. króna bónus. Hvaða arður það sé, sést á því, að togararnir hafa greitt 9500 kr. á mánuði allt stríðið út. Þessar 6 milljónir eru því ekki frá ríkissjóði, heldur frá togurunum að langmestu leyti, og ég sé enga ástæðu til þess að vera að níðast á togaraútgerðinni á þann hátt, sem hv. þm. vill.

Ég tel, að úr því að féð er fyrir hendi frá 1946 og minnkandi áhætta 1947, þurfi ríkissjóður ekki að greiða einn einasta eyri. En ég hygg, að allir sjái, hvort er réttara að láta þessar 300 þús. krónur í arð til þeirra, sem eiga þær nú, eða nota þær til þess að greiða niður iðgjöld hjá atvinnufyrirtækjum, sem eru með taprekstri. Ég held, að hv. þm. sé orðinn allfylgjandi peningamönnunum.

En ég þekki hatur og rótarskap hv. þm. út í togaraútgerðina, því hugarfari hans hef ég kynnzt áður, en ég hélt ekki, að hatur hans væri svo rótgróið sem ég hef séð í dag. — Ég mun svo ekki ræða þetta frekar, en vænti þess, að hv. þdm. greiði atkv. með till. minni hlutans.