27.11.1946
Efri deild: 21. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1578 í B-deild Alþingistíðinda. (2342)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að ræða mín gaf ekki tilefni til, að hv. þm. Barð. belgdi sig svo upp í hálfgerðri skapvonzku sem hann gerði.

Hann taldi, að um misskilning hjá mér hefði verið að ræða, þegar ég taldi að verið væri að styrkja útgerðina með því að lækka iðgjöldin. En mér er þá spurn: Er verið að gera henni erfiðara fyrir með því að verja sjóðum hennar til þess, og erum við ekki sammála um, að það sé rétt að fara svo að?

Hvað viðvíkur fullyrðingum hv. þm. um það, hvar tjón verði og hvar ekki, þá eru þær alveg út í hött. Hver getur sagt um það, hvort verður tjón á togurunum eða ekki 1947.

Ég vil benda hv. þm. á, að erlend tryggingarfélög reikna með, að tjón geti orðið á skipum, sem sigla milli landa, af völdum styrjaldar, því að við vitum, að mikið er enn af óslæddum tundurduflum í höfunum.

Hv. þm. telur, að togararnir beri uppi útgerðina. Það er rétt, svo er í ár, en hver er kominn til að segja, að svo verði næsta ár? Það hefur komið fyrir, að smáútgerðin hefur borið uppi togarana. Það, sem hv. þm. sagði um það, er því líka, út í hött.

Tjón getur að borið, hvar sem er. Hvern hefði dreymt um það, að skipin okkar færust hér alveg upp við land? En við þekkjum fullyrðingar og rop þessa hv. þm. hér í deildinni.

Ég frábið mér algerlega þau ummæli hv. þm., að ég sé fjandsamlegur togaraútgerð. Ég tel þvert á móti, að eigi að auka hana, því að þar er einmitt sú útgerð, sem til frambúðar er.

Ég sé ekki ástæðu til, þó að einhverjir útgerðarmenn komi til að biðja um náð, að veita þeim hana, enda væri það aðeins að veita þeim ölmusu, og til þess sé ég enga ástæðu. Ég mun svo ekki ræða frekar þessa brtt., en vænti þess, að hv. d. felli hana.