10.03.1947
Neðri deild: 89. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (2352)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen) :

Ég er á sama máli og hv. frsm. meiri hl. um það, að eins og þetta mál liggur fyrir hér, þá sé allsendis óþarft að hafa um það miklar og langar umr.

Það, sem ber á milli meiri og minni hl. n., er að vísu allverulegt atriði fyrir starfsemi þessa félagsskapar og það hlutverk, sem því er ætlað að vinna hér. Við höfum þess vegna, sem skipum minni hl. í þessu máli, skrifað um þetta atriði allrækilegt nál., þar sem dregin eru fram þau sjónarmið, sem blasa við að þessu leyti, og fer um þau eftir því, hvort þetta félag fær að halda skattfrelsi sínu áfram eða aðeins takmarkaðan tíma.

Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, þá var svo ákveðið á Alþingi 1943, að ég ætla, að þegar hlutverki stríðsslysatryggingar sjómanna væri lokið, þá yrði sá sjóður, sem safnazt hefði við starfsemi félagsins, notaður sem grundvöllur undir íslenzka endurtrygging. Þessi l. voru samþ. 1940, en á því árabili, sem liðið hefur síðan, hefur safnazt verulegur sjóður hjá þessu félagi, eins og frv. ber með sér, því að það fé, sem er beint lagt inn í þetta félag sem áhættufé, 4964 þús. kr., er að langmestu leyti gróði, sem orðið hefur á rekstri þessa félags. Ég ætla, að það hafi ekki verið lagt fram í þetta félag sem beint framlag upphaflega nema 60–70 þús. kr., sem útgerðarmenn lögðu fram. Að öðru leyti var byggt á ábyrgð, sem ríkissjóður lét í té tveimur vátryggingarfélögum sem þátttakendum í stofnun þessa félags; sem gera ráð fyrir að vera áfram í þessum endurtryggingum félagsins, svo að það áhættufé, sem nú verður lagt fram, hefur þá áskotnazt við rekstur þessa félagsskapar. Til viðbótar við þetta er svo lagt fram í tryggingarfé 1036 þús., svo að öll upphæðin, sem félagið fer af stað með nú samkvæmt þessum l., nemur 6 millj. kr. Miðað við okkar staðhætti verður ekki annað sagt en að þetta félag sé allfésterkt, og að því leyti hefur það aðstöðu til að geta unnið þarft og gott verk í sínum verkahring.

Eiginlega má segja, að hlutverk félagsins sé tvenns konar, fyrst og fremst að koma tryggingunum að öllu leyti, sem hagkvæmt þykir, á íslenzkar hendur og í öðru lagi að áorka það, að iðgjöld geti lækkað frá því, sem nú er og verið hefur, og það lítil reynsla, sem fengin er af starfsemi þessa félags, því að það hefur þegar starfað um eins árs skeið, þá hefur það sveigt starfsemi sína einmitt inn á þessa braut. Eins og getið er í nál. samkvæmt upplýsingum, sem við höfum eftir framkvæmdastjóra þessa félags, þá hefur félagið þegar orkað nokkuð á um það með þessari starfsemi að lækka iðgjöld. Það er bent í nál. á tvö atriði í þessu sambandi, sem mér þykir óþarft að taka hér upp aftur. Enn fremur eru í nál. færð góð rök, að ég ætla, fyrir því, að þessi starfsemi geti orðið allt önnur, ef af félaginu verður tekið það skattfrelsi, sem það hefur haft frá öndverðu og á sinn styrka þátt í því, hversu vel félaginu hefur tekizt að afla sér gildra sjóða í þessi ár, sem það hefur starfað. Þegar félagið þarf ekki að óttast, að það þurfi að láta af hendi svo og svo mikið af því, sem því hefur áskotnazt, í opinber gjöld til ríkis og bæjar, þá leiðir af sjálfu sér, að félagið hlýtur að verða miklu varfærnara í því að þrýsta niður tryggingum, heldur gengur á fremstu grös um að krefjast ekki nema sem allra minnstra iðgjalda. Þetta er vitanlega ákaflega mikill aðstöðumunur, og við þetta verður að miða rekstur félagsins og þátttöku í þeirri starfsemi, sem því er ætlað að hafa með höndum.

Mér þykir ekki ástæða að svo komnu máli að fara lengra út í þetta, af því að það er gerð grein fyrir því í nál. minni hl. Þær upplýsingar, sem þar liggja fyrir, höfum við fengið hjá framkvæmdastjóra þessa félags, tryggingafræðingnum Guðmundi Guðmundssyni, og þarf ekki að gera ráð fyrir öðru en að þar séu dregin fram þau atriði, sem eru raunveruleg í þessu máli og fullkomlega má byggja á og miða má við, þegar menn hér á þingi ákveða um það, hvort þetta félag á að halda áfram skattfrelsi sínu eða það á að inna slík gjöld af hendi.

Þetta félag hefur haft skattfrelsi, eins og ég gat um áðan, frá öndverðu. Og þegar samningar tókust um það meðal þeirra mörgu eigenda, sem áttu það fé, sem til þessarar starfsemi var lagt, að skipta ekki þessu fé, heldur nota það sem grundvöll fyrir einmitt endurtryggingarfélag, þann þarfa og nauðsynlega félagsskap, þá var að sjálfsögðu miðað við það, að félagið héldi að þessu leyti þeirri aðstöðu, sem það hefur haft frá öndverðu.

Mál þetta hefur gengið gegnum Ed., og sú d. leit svo á, að eðlilegt væri, að félagið hefði þessi hlunnindi.

Ég held áreiðanlega, að það sé langsamlega eðlilegast að láta félagið hafa þennan rétt og að Alþ. nú fari ekki að taka um það ákvörðun, að eftir tveggja ára skeið skuli þessi réttur af félaginu tekinn, því að það leiðir af sjálfu sér, að það er svo skammt liðið af starfsemi þessa félags á þessum grundvelli, að það er ekki eðlilegt, að það hafi sýnt stórfelldan árangur, en þó er þegar kominn árangur í ljós af starfsemi félagsins, sem hefur fjárhagslega þýðingu fyrir þá, sem þurfa á endurtryggingu að halda, og vitanlega á að vera um að ræða í vaxandi mæli ávöxt af starfsemi þessa félags, en það er vitanlega við það miðað, að félagið haldi þeirri aðstöðu, sem það hefur, að því er snertir skattfrelsið.

Það er enn fremur getið um það í nál., að slíkur félagsskapur sem þessi eigi að þjóna alþjóðarhagsmunum, en það verður ekki um það deilt, að það eru alþjóðarhagsmunir, að upp rísi í landinu félagsskapur, sem geti orkað lækkun iðgjalda, og það eru alþjóðarhagsmunir, að hægt verði að koma svo miklu sem hagkvæmt þykir af endurtryggingunum á innlendar hendur. Vitanlega er nauðsynlegt, að slíkum félagsskap sé búin af hálfu löggjafans sú aðstaða, að hann geti sem allra bezt þjónað þessu hlutverki þannig, að árangurinn af starfseminni geti komið sem allra fyrst fram, því að það er vitanlega eitt út af fyrir sig ærinn gjaldeyrissparnaður að geta í vaxandi mæli fengið að kaupa endurtryggingar í innlendum félagsskap, því að vitanlega verður, þegar þarf að sækja til erlendra félaga, að borga iðgjöldin í erlendum gjaldeyri, sem oft er skortur á, og þarf þess vegna bæði í þessu og öðru að halda vel á því, sem okkur áskotnast í erlendum gjaldeyri.

Ég skal svo ekki fara frekar út í þetta, en vænti þess, að það sjónarmið, sem var hér ríkjandi, þegar l. um stríðsslysatryggingar voru sett, að eðlilegt væri, að sá félagsskapur, sem þær annaðist, hefði skattfrelsi til ríkis og bæjar, sé óbreytt enn, og þá ekki síður, þar sem þessum félagsskap er nú beint inn á þá braut, sem hér er um að ræða, og við eigum ákaflega mikið undir, að hann geti unnið það hlutverk, sem honum er ætlað að vinna að þessu leyti.