10.03.1947
Neðri deild: 89. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (2354)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen) :

Það er bæði, að ég er ekki vel fyrirkallaður til þess að halda langa ræðu sökum hæsi, enda þykir mér ekki ástæða til að fara jafnlangt út í þetta mál og hv. 5. þm. Reykv. (SK) gerði. En ég vildi þó aðeins leiðrétta þann misskilning hjá honum, að ekkert samband væri á milli þessa frv. hér og þeirra l., sem eru fyrirrennari þessa frv., l. um stríðstryggingar sjómanna. Hv. 5. þm. Reykv. hélt því fram, að sá félagsskapur hefði verið stofnaður í nokkurs konar góðgerðarskyni. Það er náttúrlega grundvöllur allra tryggingafélaga, að þau komi að sem mestum og beztum notum í því þjóðfélagi, þar sem þau eru sett á stofn, og ég býst við, að grundvöllurinn undir því félagi hafi verið sá hinn sami og venja er til um slíka félagsmyndun. Það þarf heldur ekki annað en líta á reynsluna af þessari starfsemi. Hún hefur komið að notum til þess að bæta þau tjón, sem átti að bæta, en tekjur félagsins hafa orðið það miklu meiri en bótaskyldan, sem á félagið hefur fallið, að það á nú þessa stóru sjóði. Ég sé ekki, að það sé neinn eðlismunur hér á. Það eru nákvæmlega sömu aðilar, sem standa að þessu félagi, ríkissjóður, tryggingafélögin og fjöldi útgerðarmanna. Það verður aðeins breytt um hlutverk, þannig að gert er ráð fyrir, að hið upprunalega hlutverk þessa félags verði starfrækt til áramóta, en þá taki félagið við því mikla hlutverki að koma á innlendri endurtryggingu, en eins og kunnugt er, höfum við ekki starfandi í landinu neinn félagsskap á þessu sviði annan en Samábyrgðina, en henni er markað visst starfssvið, sem hún getur ekki farið út fyrir. Félög þau, sem stofnuð hafa verið hér, svo sem Brunabótafélag Íslands og samábyrgðin, sýna glöggt, að það hefur þótt mikils vert, eins og það líka er, að geta komið þessum málum í hendur innlendra aðila í stað þess að þurfa að kaupa allar tryggingar af erlendum félögum. Getur engum blandazt hugur um það, að þetta er einn mjög sterkur þáttur í sjálfstæðisbaráttu þessa lands, að koma tryggingunum í hendur innlendra aðila, og að því leyti er þessi félagsskapur í samræmi við það að þjóna alþjóðarhagsmunum í þessum efnum. Ég get því ekki viðurkennt þá hugsun, sem fram kom hjá hv. þm., að þetta væri á misskilningi byggt, að farið er fram á, að þetta félag, þó að það hafi að þessu leyti til breytt um starfssvið, að það haldi þeim hlunnindum og því skattfrelsi, sem tekið var í l., þegar l. um stríðsslysatryggingu sjómanna voru samþ. hér. Það hlutverk, sem þau áttu að þjóna, var þarft, en hitt getur engum blandazt hugur um, að sé þarft, að efla þá starfsgrein trygginganna, sem að því miðar að koma endurtryggingunni, að svo miklu leyti sem það er hægt, í hendur innlendra aðila.

Hv. þm. benti á Eimskipafélag Íslands, sem hefur fengið nú í fjölda ára framlengt sitt skattfrelsi. Það mætti benda á fyrirtæki, sem ríkið er meðeigandi í, sem eru alveg skattfrjáls, t. d. Útvegsbanka Íslands, sem ríkissjóður er hluthafi í. Það hefur aldrei komið fram nein till. um það að gera Útvegsbankann skattskyldan fyrir Reykjavíkurbæ. Og ég vil enn fremur benda á það, að það virðist heldur ekki vera sanngjarnt að veikja — sem gæti orðið á mjög viðurhlutamikinn hátt — aðstöðu þessa félags með því að gera það skattskylt í einum einasta kaupstað landsins, Reykjavíkurbæ, þar sem sú skerðing á aðstöðu félagsins mundi hefta eða geta heft þróun þessa félags, og þá fyrst og fremst með tilliti til þess, að það gæti innt af höndum að fullu það mikils verða tvöfalda hlutverk að lækka iðgjöld og koma tryggingunum á innlendar hendur. Ég get ekki fyrir mitt leyti fallizt á, að það sé réttlátt.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. Ég hef viljað þjóna því sama markmiði eins og hv. 5. þm. Reykv., að mál þetta gæti legið sem allra ljósast fyrir hv. þm., bæði með því að gera nokkuð ljósa grein fyrir þeim aðstæðum, sem þarna koma fram, um það, hvort félagið skuli skattskylt eða ekki, eins og við höfum gert í nál. minni hl. sjútvn.