10.03.1947
Neðri deild: 89. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (2356)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki setja á langa ræðu hér nú. Mál þetta er sjálfsagt ekki svo þungskilið. Ég vil aðeins gera aths. við örfá atriði í ræðu hv. þm. Borgf., án þess þó að ég telji nú, að málið í raun og veru skorti skýringar að neinu ráði.

Hv. þm. Borgf. sagði, að það væri misskilningur hjá mér, að ekki væri samband milli stríðsslysatryggingar skipshafna og þeirrar stofnunar, sem með frv., sem hér liggur fyrir, er ætlað að lögfesta. Og hann sagði það, að grundvöllur allrar tryggingarstarfsemi væri að verða öðrum að gagni. Ég tók það fram í fyrri ræðu minni, að stofnun sú, sem kölluð var stríðsslysatrygging íslenzkra skipshafna, hefði á engan hátt átt að veita hagsmuni fyrir nokkurn af þeim, sem þar lögðu fram fé. Þar átti ekki neinn að hafa arð. Það fyrirtæki var aðeins gert til tryggingar því fólki, sem kynni að missa fyrirvinnu sína eða aðstandendur af stríðsslysum. Hins vegar er það félag, sem nú á að staðfesta með l., að verða, eins og ég sagði þá, eingöngu byggt upp líkt og venjuleg gróðafélög, sem þó eru sett takmörk fyrir, hve langt megi ganga í gróða sínum, en sem einnig á að lögskorða, að geti veitt sæmilegan arð af því fé, sem í það er lagt. Það er þess vegna ekki alveg rétt ályktun hjá hv. þm. Borgf., þegar hann segir, að grundvöllur allrar tryggingarstarfsemi sé sá að gera almennt gagn í þjóðfélaginu, þar sem hins vegar sum tryggingarfélög eiga eingöngu að sinna ákveðnum þjóðfélagsskyldum við þegnana með fórn annarra þjóðfélagsþegna, eins og stríðsslysatryggingin á auðvitað að vinna þeim mönnum gagn, sem eiga að fá sig tryggða, eins og aðstandendur sjófarenda í stríðinu. En hlutverk annarra tryggingarstofnana yfirleitt er fyrst og fremst það að gefa þeim mönnum arð af fé sínu, sem setja í starfsemi þeirra stofnana sína peninga. Og á þessu tvennu er ákaflega mikill eðlismunur. Það er auðvitað gert ráð fyrir, að almenningur hafi á einn eða annan hátt gagn af slíkri starfsemi, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., og hefur það líka. En tilgangur manna, sem leggja fram fé í tryggingarstofnanir yfirleitt, er ætíð fyrst og fremst sá að gera sjálfum sér gagn. Um það verður ekki villzt. Það mundi vera talinn mjög óskynsamur maður, sem ætti eitthvert kapítal og færi að keppa á tryggingamarkaði til þess að gera það í líknarskyni og ekki til þess að líkna sjálfum sér fyrst og fremst. Enda er það alveg sýnt með fyrirhuguðum reglum þessa félags, að það á fyrst og fremst að tryggja, að það fjármagn, sem lagt er þarna fram, geti fyrst og fremst veitt sínum félögum arð af þeim peningum, sem þar er skotið inn. Og það er alls ekki rétt ályktað hjá hv. þm. Borgf., að það að veita svona stofnun skattfrelsi stuðli ekki að hagsmunum þeirra, sem eiga þar fé inni. Það stuðlar einmitt að því að tryggja, að þeim verði borgaður sæmilegur arður af fénu.

Hv. þm. vildi telja, að ég færi ekki rétt með það, að þetta fyrirhugaða félag hefði ekki tök á að lækka iðgjöld. Ég held, að þessi ályktun hans sé ekki byggð á nægri þekkingu. Það er þannig með tryggingar, sem aflað er erlendis, að þær eru beinlínis boðnar út. Það eru margir um þetta. Ef tryggingin er boðin út, t. d. hér innanlands, geta ýmsir farið með það til sinna agenta erlendis, og þeir reyna að bjóða þetta út á erlendum markaði, og svo er einhver duglegastur að koma þessu niður, og það er hann, sem hreppir umboð. Við vitum, að það var nýtt og ekki sterkt félag, sem kom upp hér í bænum og bauð niður fyrir gömlum og sterkum félögum. Þetta getur náttúrlega vel hafa farið svo langt, að það verði ekki hagnaður á þessu. En fyrir dugnað tryggingaragenta, sem umboðið hlutu á endanum, fékkst lækkun með þessu móti. En ef nokkur heldur, að þetta félag hefði getað ábyrgzt sjálft svo sem 2, 3 eða upp í 5% af andvirði hins tryggða, án endurtryggingar, þá er það misskilningur. Að ætla sér slíkt hefði ekki minnstu þýðingu fyrir félagið. Og svona er það yfirleitt með endurtrygginguna erlendis, sem ekki er komin í fastar skorður, þar byggist starfsemin á dugnaði þeirra agenta, sem bjóða tryggingarnar út á erlendum markaði og eru kunnugir því, hvert er að leita um þátttöku í þessum endurtryggingum.

Ég skal ekki deila um þetta og hve mikla áhættu svona stofnun geti tekið á sig. Það fer auðvitað eftir hverju einstöku áhættunúmeri. Það fer fyrst og fremst eftir því, hve félagið hefur miklar tryggingar, hversu það ber ábyrgð á miklu alls, og í öðru lagi eftir því, hversu það er sterkt fjárhagslega.

Þetta er venjulega reiknað út. En mér þykir ólíklegt, að svona stofnun gæti tekið að sér í hverju áhættunúmeri allt upp í 300 þús. kr. áhættu. Til þess þyrfti félagið að vera mjög ríkt eða hafa fjölbreytta tryggingu. Það er kappsmál hjá tryggingarstofnunum annars staðar að hafa mjög fjölbreyttar tryggingar og litla áhættu í hverri grein. Þetta tryggir, að slík stofnun geti aldrei eða miklu síður orðið fyrir stórkostlegum skakkaföllum á einni tegund trygginga. Það er að vísu ekki vísvitandi áróður, en kemur fram sem áróður, að hamra á því að koma tryggingunni á innlendar hendur. En það er ekki frá öllu sjónarmiði æskilegt að koma sem mest áhættusömum tryggingum á innlendar hendur fyrst og fremst. Hitt er heldur æskilegast, að tryggingarnar verði fengnar á hinum breiða markaði, sem auðvitað er ekki til innanlands, heldur erlendis, til þess að fá sem hagkvæmust kjör fyrir þá, sem trygg ja, ska1 ég svo láta útrætt um þetta atriði.

En út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. minntist hér á um Eimskipafélag Íslands, skal ég taka það fram, að ég hlustaði ekki á framsöguræðu hv. frsm. meiri hl. n., og má vel vera, að hann hafi minnzt á Eimskipafélagið. En ég minntist á Eimskipafélag Íslands eingöngu í því sambandi, að það væri hægt að framlengja skattfrelsi þessarar tryggingarstofnunar frá ári til árs, eins og það hefði verið gert gagnvart Eimskipafélagi Íslands. En ég nefndi ekkert um það, hve víðtækt skattfrelsi Eimskipafélagsins væri. Og það er vitanlega mjög lítilfjörlegt það skattfrelsi að því, er snýr að ríkissjóði. En á móti hefur það opinbera áskilið sér mjög veigamikil hlunnindi hjá félaginu, sem hv. 3. þm. Reykv. skýrði frá. En löggjafarvaldið hefur aldrei látið sér detta í hug að undanþiggja þetta félag þátttöku í að bera byrðar sveitarfélagsins. En ég tók fram í þessu sambandi, að þar að auki væri þetta ekki sambærilegt vegna þess, að Eimskipafélagið leggur miklu minni alúð við og setur miklu færri stoðir undir það, að hluthafar geti fengið arð af sínu fé, heldur en ætlazt er til, að þessi stofnun geri, sem þetta frv. er um. Og reynslan hefur sýnt, að Eimskipafélag Íslands hefur aldrei borgað í arð meira en 4% af hagnaði, og það þótt vextir af almannafé í sparisjóðum hafi stundum verið hærri á sama tíma. Auk þess hefur það félag aldrei reynt að tryggja hluthöfum neina arðjöfnun. Þess vegna hefur því aldrei í allri velgengninni á stríðsárunum dottið í hug að greiða neitt í arð fyrir þau mörgu ár, sem arðgreiðsla hjá því féll niður.

Svo ætla ég ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég hef talað hér eingöngu af því, að ég vildi, að sjónarmið meiri hl. n. kæmi sem allra gleggst fram. Þó að hv. frsm. meiri hl. n. hafi dregið glöggt fram það, er málið snertir, taldi ég rétt að bæta þessum orðum við.