18.03.1947
Neðri deild: 98. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1590 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég flutti á þskj. nr. 531 brtt. við 2. tölul. 10. gr. frv., um það, að arðgreiðsla af innborguðu áhættufé verði lækkuð úr 5% niður í 2½%, sem er sama vaxtaupphæð, sem á sér stað um lán, sem lánuð eru til sjávarútvegsins, í stofnlánadeild Landsbankans, sem mér þykir eðlilegt, að miðað sé við í þessu efni. Og sérstaklega með tilliti til þess, hvernig frv. er nú, og eins og við hv. þm. Borgf. og ég höfum lagt til, að félagið sé ekki skattskylt eða útsvarsskylt, þá finnst mér eðlilegt, að þetta verði lækkað meira en orðið er. En við 2. umr. var þessi arðgreiðsla lækkuð í 5%.

Þá sé ég ekki ástæðu til að ákveða í frv. um svo kallaðan arðjöfnunarsjóð, og legg ég til, að 3. tölul. 10. gr. frv., sem er um hann, verði felldur niður.

Aðalágreiningurinn í n. reis út af skattskyldu félagsins, og við hv. þm. Borgf. og ég vorum sammála um að leggja til, að félagið skyldi vera algerlega skattfrjálst. Hér er með ákvæðum þessa frv. farið inn á nýjar leiðir í okkar tryggingarmálum. Það er reynt að flytja inn í landið endurtryggingar, sem áður hafa verið útlendar. Og þótt einstaklingar eigi þarna um tvær millj. kr., sem er arður af starfsemi stríðsslysatrygginganna, sem kemur þarna inn í, kemur ekki til mála, að einstaklingar eigi að ráða að öllu, hvernig með þetta fé er farið, enda er því slegið föstu hér, að um þetts eigi ríkisstj. að hafa úrslitaatkvæði, hvernig með þetta fé skuli farið. En meiri hluti stofnfjárins er eign opinberra fyrirtækja, þannig að ríkisvaldið hefur það alla vega í sínum höndum. Ég álít, að skattgreiðsluskylda þessa félags mundi hafa það í för með sér, að þessar tryggingar mundu verða teknar af þessu félagi fyrir óhagstæð kjör, þar sem skattskylda mundi íþyngja starfsemi þess.

Komi það hins vegar á daginn, að þessu félagi safnist óeðlilega mikill gróði, en félagið starfaði ekki á þeim grundvelli að hafa endurtryggingar sem lægstar, þá hefur Alþ. aðstöðu til þess á hverjum tíma að taka í taumana og breyta um í þessu efni og láta félagið greiða skatt. En vitanlega yrði frekar að fara hina leiðina, að ákveða nánar um starfsemi félagsins, til þess að tryggingarnar yrðu af því teknar fyrir minna fé. Það má búast við því, að mest af þessum tryggingum hjá félaginu verði fyrir sjávarútveginn. Þess vegna er það óeðlileg íþynging, ef leggja á skatt og gjöld á starfsemi þess. Ég vil því eindregið leggja til, að brtt. frá hv. meiri hl. sjútvn. verði ekki samþ., en frv. verði samþ. óbreytt í því formi, sem það er nú.